Sumarleyfi og upphaf næsta skólaárs

Innritun nýnema og eldri nemenda í Fjölbrautaskólann við Ármúla er nú lokið.

Fimmtudaginn 27. júní fara starfsmenn Fjölbrautaskólans við Ármúla í sumarleyfi. Þeir mæta svo aftur til starfa miðvikudaginn 7. ágúst.

Allir nemendur skólans hafa núna fengið greiðsluseðil í heimabanka. Hjá nemendum yngri en 18 ára birtist greiðsluseðillinn hjá elsta forráðamanni. Ef greiðsluseðillinn er ekki greiddur skoðast það sem höfnun á skólavist.

Um 900 nemendur eru að jafnaði í dagskóla við Fjölbrautaskólann við Ármúla og u.þ.b. 1400 nemendur í fjarnámi. Mjög fjölbreyttar námsbrautir er að finna í skólanum; bóknám, listnám og heilbrigðistengt nám. Um 80 kennarar og 30 aðrir starfsmenn vinna að því daglega að aðstoða nemendur í námi sínu og stoðþjónusta er mjög mikil. Félagslífið í skólanum er gott og margt að gerast í hverri viku.

Lesa meira

Nemendur FÁ með námskeið í kvikmyndagerð

Tveir nemendur skólans héldu námsskeið í kvikmyndagerð í tengslum við kvikmyndahátíð Grundaskóla á Akranesi í upphafi vikunnar. Þau Ísold Ylfa Teitsdóttir og Viktor Hugi Jónsson byrjuðu á því að kynna Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna og héldu svo námskeiðið, sem var svokallað "24-hour film challenge" þar sem þau leiðbeindu nemendum í 8. 9. og 10. Grundaskóla í grínmyndagerð. Skemmst er frá því að námskeiðið gekk eins og í sögu, allir þátttakendur kláruðu myndir sínar svo að úr varð fjöldinn allur af nýjum grínmyndum.

Skólaheimsókn til Portúgal

 Þann 26. maí hélt 60 manna hópur kennara og starfsmanna í FÁ til Portúgal. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér starfið í tveim skólum í borginni Braga, Oficina og Agrupamento de escolas Sá De Miranda. Tveir ólíkir en flottir skólar sem gaman var að heimsækja. Sérstaka athygli vakti að portúgalskir nemendur eru alla jafna í skólanum frá átta á morgnana og til sex á kvöldin og fara þá í tómstundastarf. Ekki mikill tími sem fjölskyldurnar fá saman þarna í Portúgal. Seinni hlutann af ferðinni hélt hópurinn svo til Portó. Þar var margt skemmtilegt að skoða, falleg borg með mikla sögu. Hér má sjá heimasíður skólanna: Oficina   Agrupamento de escolas Sá De Miranda  

Brautskráning vor 2024

 Það var vindasamur og blautur en mjög gleðilegur dagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla í dag þegar nem­endur mættu til útskriftar. Alls útskrifuðust 103 nemendur frá skólanum og þar af 9 af tveimur brautum; 65 stúdentar, 35 frá heilbrigðissviði, 10 af sérnámsbraut og 3 frá nýsköpunar- og listabraut.

Af stúdentsbrautum útskrifuðust 10 af félagsfræðibraut, 3 af íþrótta- og heilbrigðisbraut 12 af náttúrufræðibraut, 26 af opinni braut, 3 af viðskipta- og hagfræðibraut og 11 með viðbótarnám að loknu starfsnámi.

Af heilbrigðissviði útskrifuðust 17 sem sjúkraliðar, 5 af heilbrigðisritarabraut, einn af lyfjatæknabraut, 6 af heilsunuddbraut og 6 af tanntæknabraut.

10 frábærir nemendur útskrifuðust af sérnámsbraut eftir 4 ára nám.

Lesa meira.

Útskrift FÁ 24. maí

Útskrift Fjölbrautaskólans við Ármúla á vorönn 2024 fer fram í hátíðarsal skólans, föstudaginn 24. maí. Athöfnin hefst stundvíslega kl. 13:00 og eru nemendur beðnir að mæta minnst hálftíma áður en athöfn hefst, eða kl. 12:30. Æfing fyrir útskriftina verður fimmtudaginn 23. maí kl. 16:30.

Skoða hvernig stöðva megi framgang heilasjúkdóma

 Skoða hvernig stöðva megi framgang heilasjúkdóma Lyfjafyrirtækið Lundbeck í Danmörku stóð nýlega fyrir stórri keppni sem kallast „Drughunters“. Hópi nemenda af náttúrufræðibraut Fjölbrautaskólans við Ármúla var boðin þátttaka í keppninni. Keppnin snýst um að koma með hugmyndir um hvernig stöðva megi framgang heilasjúkdóma eða lækna þá, en nemendur velja sér eitt viðfangsefni heilasjúkdóma, sem þeir afla sér þekkingar í.   Íslenski hópurinn fékk sérstakt hrós fyrir kynninguna sína. Fyrir íslensku krakkana var undirbúningurinn fyrir keppnina þverfaglegt samstarf raungreina og dönsku. Keppnin vekur áhuga nemanda á læknisfræði„Nemendunum sjálfum fannst keppnin hafa gefið þeim skemmtilegri sýn á dönskuna og einn nemandi nefndi að þessi keppni hefði hvatt hann til að reyna við læknisfræðina í framtíðinni“ sagði Simon Cramer Larsen, dönskukennari eftir ferðina. Í lok apríl síðastliðinn hittust svo allir hóparnir í Kaupmannahöfn og kynntu afraksturinn á dönsku fyrir dómnefnd að sögn Gúríar Helenu Petersen, dönskukennara, sem einnig var með í ferðinni. Keppnin er fyrst og fremst ætluð dönskum og færeyskum framhaldsskólanemendum en Fjölbrautaskólinn við Ármúla er eini íslenski framhaldsskólinn sem tók þátt.

Fjarnám í sumar

Skráning á sumarönn í fjarnámi við FÁ er hafin og stendur til 5. júní.

Önnin hefst 6. júní.

Fjölmargir áfangar eru í boði sem má sjá hér. 

Nánari upplýsingar um fjarnámið má sjá hér.  

Skráning fer fram hér.  

Margs vísari um fangelsismál hérlendis

„Þetta dýpkar þekkingu mína og viðhorf til fangelsismála,“ sagði einn nemenda við viðskipta- og hagfræðibraut við Fjölbrautaskólann við Ármúla í tengslum við heimsókn nemenda í lögfræðiáfanga í fangelsið á Hólmsheiði. En í lok vorannarinnar var nemendum í áfanganum boðið, ásamt kennara áfangans, Ragnhildi B. Guðjónsdóttur, í vettvangsheimsókn í fangelsið þar sem nemendurnir urðu margs vísari um fangelsismál hérlendis.

Böðvar Einarsson, staðgengill forstöðumanns, tók einkar vel á móti hópnum og kynnti fyrir þeim starfsemi fangelsisins, sem er gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi, með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun styttri fangelsisrefsinga og vararefsinga.

Fyrsta fangelsið á Íslandi sem byggt er sem fangelsi

Böðvar upplýsti nemendur m.a. um að fangelsið á Hólmsheiði sé fyrsta og eina fangelsið sem byggt er og hannað sem fangelsi á Íslandi en Litla-Hraun var byggt sem heilbrigðisstofnun í upphafi.

Gerður var góður rómur af heimsókninni en nemendum fannst fróðlegt og áhugavert að fá að kynnast starfsemi fangelsisins og skoða aðstöðuna með beinum hætti.

Lesa meira

Öll velkomin

Í síðustu viku kláruðu nemendur á listabraut skólans að vinna listaverk á vegg á Steypunni í FÁ sem býður öll velkomin í skólann. Nemendur í myndlistaráfanganum MYNL2LI05 unnu verkið undir leiðsögn kennara síns, Jeannette Castioni. Nemendurnir unnu jafnt og þétt yfir önnina og náðu loksins að klára í síðustu viku og er útkoman stórglæsileg, líflegur og flottur veggur sem tekur vel á móti gestum og gangandi.

Annarlok - mikilægar dagsetningar

 

Senn líður að ann­ar­lokum og viljum við því minna ykkur á nokkrar mikilvægar dagsetningar.

13. maí - Síðasti kennsludagur en nánari upp­lýs­ingar um skipulag hvers áfanga má finna á Innu.

14. maí - Sjúkrapróf/ uppsóp.

16. maí - Einkunnir birtast í Innu.

16. maí - Prófsýning og viðtöl vegna námsmats kl. 12:00 – 13:00.

17. maí - Endurtektarpróf fyrir útskriftarefni kl. 9:00 - 11:00.

23. maí - Æfing fyrir útskrift kl. 16:30.

24. maí - Útskrift í hátíðarsal skólans kl. 13:00.

Nám á næstu önn. Allir nem­endur sem halda áfram námi á næstu önn eiga að vera búnir að velja. Greiðsluseðlar verða sendir út eftir útskrift.

Gangi ykkur sem allra best á loka­sprett­inum