Gleðilega páska

Nú deyr vetur og vorið fæðist. Nýjar vonir klekjast úr páskaeggjum. Framundan er upprisa lífsins og alls gróanda.Nú er ekki eftir nema rúmur mánuður af önninni.  

Kennsla hefst aftur miðvikudaginn 4. apríl.

Sá á kvölina...

...sem á völina. Vali fyrir haustönn 2018 lýkur þann 6. apríl. Það er því eins gott að fara að huga að því hvaða áfanga menn ætla að taka í haust. Ef þið eruð í vafa er tilvalið að leita ráða hjá umsjónarkennara.

Andið eðlilega - kynning á sal

Ísold Uggadóttir, sem var valin besti leikstjórinn í flokki alþjóðlegra kvikmynda á Sundance-hátíðinni í Bandaríkjunum fyrir myndina "Andið eðlilega," kemur og kynnir myndina sína kl. 11.30 – 12.30 á morgun, miðvikudag 21.mars. Kynningin verður haldin í fyrirlestrarsal skólans. Vonandi sjá allir sér fært að kynnast myndinni og leikstjóra hennar.

Vorið kemur kl. 16:15

Klukkan 16:15, þriðjudaginn 20. mars 2018, gengur vorið formlega í garð. Með orðinu jafndægur er átt við þá stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar, sem í fornu máli hét jafndægrishringur, og dagur og nótt eru jafnlöng um alla jörðina. Notuð eru orðin og orðasamböndin vorjafndægur, vorjafndægri, jafndægur á vori og jafndægri á vori og eru þau á tímabilinu frá 19.-21. mars en haustjafndægur, haustjafndægri, jafndægur á hausti eða jafndægri á hausti eru á bilinu 21.-24. september. (vísindavefur.is)

Eiðar - Frumsýning á morgun, 16.3.

Á morgun rennur upp stóra stundin. Leikverkið Eiðar verður frumsýnt og spennan er orðin gífurleg. Það verður gaman að sjá hvort uppskeran verði ekki eins og til er sáð. Allir unnendur FÁ, nemendur jafnt sem starfsfólk mega ekki missa af þessari skemmtun sem lofar góðu. Frumsýningin er á morgun, föstudag 16, en á laugardaginn verða tvær sýningar, klukkan 14 og 20 og lokasýningin á sunnudaginn kl. 20.

Já, það verður fjör á Eiðum!

Allir velkomnir - Opið hús 14. mars

Miðvikudaginn 14. mars verður opið hús í FÁ. Húsið verður opið upp á gátt frá hálf fimm til sex. Hérna gefst öllum tækifæri til að kynna sér hið fjölbreytta námsframboð í FÁ. Kynningin er einkum ætluð 10. bekkingjum grunnskólans sem eru að huga að framhaldsskóla við sitt hæfi en auðvitað eru allir velkomnir.

Þórey Hekla Ægisdóttir nr. 1

Hin árlega tónlistarkeppni nemenda fór fram á fimmtudaginn var með pompi og prakt og ekki vantaði upp á glæsileikann frekar en fyrri árin. En mætingin hefði nú mátt vera betri, það er engin afsökun fyrir að láta þessa skemmtun fram hjá sér fara. Alls voru flutt sjö lög af átta flytjendum, þar af þrjú frumsamin lög. Úrslit réðust þannig að Þórey Hekla Ægisdóttir hreppti fyrsta sætið og mun hún keppa fyrir hönd FÁ í söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin verður bráðlega. Katla Gunnlaugsdóttir varð númer tvö. Við óskum þeim til hamingju og þær sanna að það er enginn skortur á hæfileikafólki innan veggja skólans.

Söngkeppni FÁ - allir að mæta!

Á morgun, 8.mars, verður ein stærsta stund skólalífsins þegar hin árlega söngkeppni verður haldin. Þetta er viðburðurinn sem allir bíða eftir og enginn gleymir svo lengi sem þeir lifa. Söngkeppnin hefst klukkan klukkan 19:30 og stendur til klukkan 22:00. Skráðir keppendur eru tíu, en kynnir kvöldsins verður Kjartan Atli Kjartansson. Allir að mæta - þetta er skemmtun sem enginn má missa af.

Hugur og hönd - Framaprófið

Verkefnið Framapróf er samstarfsverkefni allra iðn- og verkmenntaskóla á landinu og Samtaka Iðnaðarins og er skemmtilegur vettvangur til að vekja athygli á hversu fjölbreytt nám er í boði í skólunum. Það verða ekki allir barðir til bókar en margur hefur haga hönd og glöggt auga. Það er alltaf þörf fyrir góða iðnaðarmenn og tæknimenn og ekki lepja þeir dauðann úr skel eins og margur fræðimaðurinn. Farið á slóðina http://www.framaprof.is og kannið hvort ekki sé eitthvert fag sem hentar ykkar hæfileikum. En umfram allt, hlýðið heilræði Hallgríms Péturssonar og þá fer ævin vel:

Víst ávalt þeim vana halt

 vinna, lesa, iðja.

 Umfram allt þú ætíð skalt

 elska Guð og biðja.