Dimission á morgun, 1. des.

Á morgun 1. des,  á 99 ára afmæli fullveldis Íslands verður dimmission fagnað á sal. Fögnuðurinn hefst  kl. 10:40. Öll kennsla fellur því niður í tímanum sem er frá 10:40 til 11:40. Það er víst að það verður hopp og hí en óvíst hvort jólasveinninn sem  útdeildi mandarínum til þægu nemendanna í dag, mæti til að samfagna

Engin fábreytni í FÁ

Það er hægt að fara ýmsar leiðir í FÁ - þriggja ára nám til stúdentsprófs er í boði á fimm brautum:

Félagsfræðabraut, hugvísindabraut, náttúrufræðibraut,
 viðskipta- og hagfræðibraut og íþrótta- og heilbrigðisbraut.
 Þá er líka í boði nám á nýsköpunar- og listabraut auk fjarnáms.
 Auk þess býður Heilbrigðisskólinn upp á starfsnám með möguleika á stúdentsprófi.

Opið er fyrir innritun í námið til 1. desember.

FÁ - Skóli á Arnarhóli

Skóli er miklu meira en bara hús. Skóli er samfélag manna sem eru ákveðnir í því að vita meira í dag en í gær. Skóli er alls staðar þar sem nemendur eru að læra og um daginn var skólinn í húsi Seðlabanka Íslands við Arnarhól þar sem nokkrir nemendur í HAGF2AÞ05 Þjóðhagfræði við FÁ fóru og kynntu sér peningamál íslenska lýðveldisins. Má segja að þar hafi þeir velt við hverri krónu og horft í aurinn.

Áhugaverður fyrirlestur

Helgi Gíslason myndhöggvar sem lengi kenndi við myndlistabraut FB heldur fyrirlestur í FÁ í dag, föstudaginn 17.nóvember klukkan 11.00. Helgi hefur haft að viðfangsefni að greina mannslíkamann á grunni módelteikningar og byggir það jafnframt á þekkingu sinni sem myndhöggvari. Helgi mun fjalla um það hvernig módelteikning og teikning mannslíkamans er grunnur í listum, hönnun og arktitektúr þar sem rannsóknarferli er fylgt í gegnum teikningu. 

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er haldið upp á Dag íslenskrar tungu. En þennan dag, 16. nóvember 1807 fæddist listaskáldið góða að Hrauni í Öxnadal. Þótt allir dagar séu að sjálfsögðu dagar íslenskrar tungu þykir við hæfi að tileinka móðurmálinu þennan dag til þess að fagna fjölbreytileika og fegurð íslenskunnar.Það á að vera kappsmál hvers manns að leika sem fegurst á þá hljómfögru hörpu sem móðurmálið okkar er, ekki spilla hljómum með óþarfa slettum eða fölskum tónum orðskrípa. 

Íslands minni (samið 1839)

Þið þekkið fold með blíðri brá
og bláum tindi fjalla
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla –
drjúpi’ hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.

Hæfileikafólk í FÁ - nú er tækifærið

Ennþá eiga einhverjir eftir að velja fyrir vorönn og velkjast í vafa. En þá kemur Sumarliði til bjargar! Hann ætlar semsagt að setja upp leiksýningu í vor og það vantar áhugasamt hæfileikafólk svo að draumur Sumarliða verði að veruleika. Það er leitað að hljóðfæraleikunum, söngvurum, sviðsfólki og þúsundþjalasmiðum í leikmyndasmíði. Þá vantar tæknifólk, saumafólk sem kann að búa til leikbúninga og alls konar annað hæfileikafólk, til dæmis í sjoppu og auglýsingar. Og rúsínan í pylsuendanum er að öll þessi skemmtun við að setja upp sýningu gefur EININGAR! Valið auðvelt. Skrá sig núna.

Stöðupróf 22. nóvember

Nú stendur til boða að taka stöðupróf í dönsku, ensku, frönsku, spænsku og þýsku. Prófin eru ætluð fyrir þá sem telja sig hafa það mikið vald á málunum að þeir geti skeiðað yfir fyrstu áfangana og byrjað í efri áföngum. Þeir sem hafa áhuga á að þreyta stöðupróf skyldu hafa samband við viðeigandi tungumálakennara til þess að fá gleggri upplýsingar. Skráning er á skrifstofu til og með 10. nóvember

Allt í rusli

Það eru brögð að því að sumir átti sig ekki á hvaða rusl á heima í hvaða tunnu. En þetta er einfalt:

a) Bláu plastkassarnir í kennslustofunum eru eingöngu ætlaðar fyrir pappír.
b) Ruslatunnur við vaska í sumum stofum (S og A-álmu) eru eingöngu fyrir handþurrkur.
c) Ál má fara með plasti í grænu tunnuna.
d) Svarta tunnan á horni N- og M-álmu er eingöngu fyrir það sem ekki á að fara í hinar tunnurnar. Allt rusl sem ekki má endurvinna.

 Nemendur í umhverfisráði eru að vinna að nýjum leiðbeiningum til að setja á tunnulokin og nýjar tyggjódósir að  komast í gagnið.

Fjallið bíður þolinmótt

Á morgun, laugardag, ætla hetjurnar í fjallgöngu- og útivistarhópi FÁ að sigra Stóra-Meitil í þrengslum. Þetta er 521 metra hátt fjall og ofan á því er tilkomumikill gígur sem gaman er að sjá. Gönguhækkkun er rúmir 200 metrar og gönluleiðin um 5 km. Það er spáð góðu veðri á morgun, smá frosti með golu. Farið verður frá skólanum stundvíslega klukkan 9.00 og heimkoma kl. 14.00 ef Guð lofar.