7. Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna
Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna var haldin í 7. sinn um helgina. Að venju var skipulagning hátíðarinnar í höndum nemenda FÁ en þau Þorkell Valur, Dísa, Matthías, Eggert Unnar, Ólafur Gísli, Perla, Brynjar Karl, Bergmann, Hákon og Freyja, sem og kvikmyndakennarinn þeirra Þór Elís, eiga hrós skilið fyrir glæsilega hátíð sem fleiri sóttu í ár en nokkurn tímann áður. Heimsfaraldurinn margumtalaði náði ekki að drepa sköpunargleði framhaldsskólanema, því í keppnina voru sendar 23 kvikmyndir eða svipaður fjöldi og áður. Heiðursgestir hátíðarinnar voru ekki af verri endanum en leikstjórarnir Baltasar Kormákur og Silja Hauksdóttir sögðu gestum frá sínum störfum.
Dómnefndina skipuðu þau Erlendur Sveinsson, Gunnar Theódór Eggertsson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Margrét Örnólfsdóttir og Sveppi, og fóru úrslit svo: Mynd Borgarholtsskólanemandans Olivers Ormars Ingvarssonar, „Klikker“, var valin sú besta. Besti leikari í aðalhlutverki þótti Breki Hrafn Omarsson í MH-myndinni „Hún elskar mig, hún elskar mig ekki“. FÁ-myndin „Rof“ sópaði að sér verðlaunum en að henni stendur Gísli Snær Guðmundsson. Myndin fékk verðlaun fyrir bestu tæknilegu útfærsluna, önnur af tveimur áhorfendaverðlaunum helgarinnar og þá hlaut Anton Leví Inguson verðlaun fyrir bestu kvikmyndatökuna. Hin áhorfendaverðlaunin hlaut myndin „Diskóeyjan“ sem er skemmtilegt samvinnuverkefni nemenda úr fimm skólum. Loks voru svokölluð Hildarverðlaun veitt í annað sinn fyrir bestu frumsömdu tónlistina, sem fóru til MH-nemendans Arvids Ísleifs fyrir tónlist sína í myndinni „Handalögmál“.
Hver verðlaunahafi var leystur út með glæsilegum verðlaunum, en helst ber þar að nefna vikunámskeið hjá New York Film Academy. Til hamingju öll!