Nemendur í umhverfisfræði á Þingvöllum

Nemendur í umhverfisfræði fóru í heimsókn í þjóðgarðinn á Þingvöllum í gær í dásemdar haustveðri. Þar tók Torfi Stefán Jónsson, fyrrum sögukennari í FÁ og núverandi fræðslufulltrúi á Þingvöllum, á móti nemendum og fengu þau fræðandi og skemmtilega leiðsögn um svæðið. Alltaf jafn skemmtileg ferð hjá umhverfisfræðinni á Þingvelli.

Gleðilegan Dag íslenskrar náttúru

Í tilefni dagsins gróðursettu nemendur og starfsfólk við fjölbrautaskólann fimm rifsberjarunna við enda lóðarinnar, þar sem leikskólinn Múlaborg er staðsettur. Var þetta gert í samstarfi við leikskólann og leikskólabörnin hjálpuðu til við gróðursetninguna. Vonin er að bæði skólastigin njóti góðs af berjunum sem þar munu vaxa um ókomna tíð. Gróðursetningin er liður í því að efla samstarf skólanna tveggja sem hafa verið vinaskólar til margra ára.

A Green Day verkefnið

  Hópur frá skólanum IES Tegueste á Spáni kom í heimsókn í FÁ dagana 15. – 19. apríl en skólinn er samstarfsskóli okkar í Erasmus+ verkefninu A Green Day sem er umhverfismiðað verkefni. Fimm nemendur og þrír kennarar sóttu FÁ heim og þessa viku sem þau voru í heimsókn hjá okkur hjálpuðu nemendur FÁ þeim að útbúa handbók um Grænfánann, alþjóðlega umhverfisviðurkenningu sem á ensku kallast Eco- Schools. FÁ er sá framhaldsskóli á Íslandi sem hefur lengst flaggað grænfánanum og nemendur okkar því vel í stakk búnir að aðstoða við gerð handbókarinnar. Ásamt því að vinna að handbókinni fóru gestirnir ásamt gestgjöfunum Gullna hringinn og á náttúrusýninguna í Perlunni. Spánverjarnir voru „heppnir“ með veður en eins og tíðkast í apríl á Íslandi var allra veðra von og þau fengu allt frá snjókomu yfir í glampandi sól og aðspurð sögðu þau að það hefði verið einn af hápunktunum, að geta farið í snjókast í apríl.   Í nóvember fer sami hópur og tók á móti gestunum hér heima út í heimsókn til IES Tegueste sem er staðsettur norðanmegin á eynni Tenerife. Þar munu nemendur okkar læra að reikna kolefnissporið sitt og halda áfram að styrkja tengslin við þennan frábæra vinaskóla.    

Freyr, nemandi í FÁ vann alþjóðlega ljósmyndsamkeppni

  Freyr Thors, nemandi í FÁ vann í vikunni verðlaun fyrir ljósmyndina sína “We don´t care, do you? “ í alþjóðlegri ljósmyndakeppni á vegum Umhverfisstofnunar Evrópu. Freyr tók þátt í samkeppni í vor á vegum Landverndar sem ber heitið Umhverfisfréttafólk og snýst um að koma umhverfismáli að eigin vali á framfæri við almenning með fjölbreyttum leiðum. Þar varð mynd Freys í öðru sæti í flokki framhaldsskólanema. Var myndin síðan send út í alþjóðlegu keppnina fyrir Íslands hönd. Um 495 þúsund nem­end­ur frá 43 lönd­um taka þátt í keppn­inni ár­lega og er hægt að vinna til verðlauna í nokkr­um flokk­um. Myndin hans Freys vann í flokknum Young European Reporters (YER) í flokki ljósmynda: Single photo campaign 11 - 25 years. Ljós­mynd­in sem Freyr tók er ætlað að tákna tor­tím­andi neyslu mann­kyns. „Karakt­er­inn á að tákna græðgi mann­kyns og viðhorf til plán­et­unn­ar, samþjappað í einn karakt­er, eða ein­hvers­kon­ar veru“. Verðlaun­in eru mik­ill heiður fyr­ir Frey, ljós­mynda­kenn­ar­ann Je­ann­ette Casti­o­ne og fyr­ir Land­vernd/​Græn­fán­ann sem stend­ur fyr­ir keppn­inni hér­lend­is með verk­efn­inu Um­hverf­is­frétta­fólk. Við óskum Frey hjartanlega til hamingju með sigurinn!  

Umhverfisfréttafólk - FÁ í öðru sæti

  Á ári hverju býðst ungu fólki í grunn- og framhaldsskólum að taka þátt í samkeppni á vegum Landverndar. Samkeppnin ber heitið Umhverfisfréttafólk og snýst um að koma umhverfismáli að eigin vali á framfæri við almenning með fjölbreyttum leiðum. Fjölmörg verkefni bárust í keppnina, voru þau af ólíkum toga og komu frá skólum víðsvegar af landinu. Freyr Thors nemandi í FÁ varð í öðru sæti í keppninni með ljósmyndina “We don't care, do you?“ Hér má sjá umsögn dómnefndar um verkið: Skapandi gjörningur og kraftmikil nálgun á stórt og erfitt viðfangsefni á veraldarvísu. Myndin er einföld, afhjúpandi og sterk með marglaga skilaboð um neysluhyggjuna og vanmátt manneskjunnar gagnvart eigin breyskleika. Myndin fjallar um græðgi, sóun og ábyrgð og ábyrgðarleysi. Verkið er sláandi og hugvekjandi með djúpri hugsun og beittri sýn. Sannleikurinn berskjaldaður og einlægur. Verkið er listrænt og frumlegt og listamaðurinn sýnir áræði og sjálfstæði. Hér má sjá fleiri úrslit í keppninni Innilegar hamingjuóskir Freyr.  

Afhending Grænfánans í 9.skiptið

  Í gær tók Fjölbrautaskólinn við Ármúla við Grænfánanum í níunda skiptið. Erum við mjög stolt hér í skólanum en FÁ er sá framhaldsskóli sem hefur oftast fengið Grænfánann. Grænfáninn er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Grænfáninn sjálfur er viðurkenning eða verðlaun til skóla sem vinna að sjálfbærnimenntun á einhvern hátt. Hver skóli vinnur eftir skrefunum sjö, setur sér markmið og virkir nemendur. Sigurlaug Arnardóttir frá Landvernd mætti í skólann og afhenti Magnúsi skólameistara og Öldu Ricart formanni umhverfisnefndar fánann úti í fallegu vetrarveðri. Eftir að fáninn var dreginn að húni bauð nemendafélag skólans öllum upp á ís frá Skúbb.  

Umhverfisveggurinn

  Nemendur í umhverfisnefnd FÁ fengu þá hugmynd í haust að gera umhverfisvegginn í skólanum aðeins líflegri og skemmtilegri. Umhverfisveggurinn er veggur þar sem umhverfisnefndin getur komið fram ýmsum upplýsingum til nemenda. Nefndin fékk nemendur í nýsköpunar- og listabrautinni til að taka verkið að sér undir stjórn Jeannette Castioni kennara á listabrautinni. Byrjað var á listaverkinu í umhverfisvikunni sem var haldin um miðjan nóvember. Náði hópurinn að klára núna í vikunni og er útkoman stórglæsileg, líflegur og litríkur veggur með mikilvægum skilaboðum um umhverfismál.  Fátt er skemmtilegra en lifandi og skapandi skólastarf þar sem allir dafna og blómstra.  

Umhverfisdagar FÁ 2022

  Umhverfisdagar FÁ verða haldnir miðvikudaginn 23.febrúar og fimmtudaginn 24.febrúar. Við fáum skemmtilega fyrirlestra. Á miðvikudaginn kemur Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra og verður með fyrirlestur í fyrirlestrarsal kl. 12.00 - 12.30. Svo verður kahoot með umhverfisívafi í hádeginu. Á fimmtudaginn kemur Vigdís frá Landvernd og verður með erindið „Tökum umhverfismálin í okkar hendur“ í fyrirlestrarsal klukkan 12-12:30. Eingöngu veganréttir verða í boði í matsal þessa daga. Nemendur í umhverfisráði standa fyrir umhverfisfróðleik á veggjum og vonandi sitthvað fleira í pokahorninu.    

FÁ stígur grænu skrefin

      FÁ tekur þátt í verkefninu „Græn skref í ríkisrekstri.“ Mikil vinna hefur verið lögð í það hjá FÁ undanfarið að ná að uppfylla Grænu skrefin og nú hefur FÁ náð þeim frábæra árangri að uppfylla fjögur af fimm skrefum. Verkefnið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Aðgerðum Grænna skrefa er skipt í 7 flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í venjulegum skrifstofurekstri. Skref 1-4 innihalda aðgerðir í öllum þessum flokkum. Hér má lesa nánar um Grænu skrefin.      

Mynd nemanda FÁ til sýnis á COP26 ráðstefnunni í Glasgow

  Verðlaunaljósmynd Írisar Lilju, nemanda í Fjölbrautaskólanum í Ármúla er nú til sýnis á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, COP26. Íris Lilja vann myndina í ljósmyndaáfanga við Fjölbraut í Ármúla og heitir mynd hennar “Sæt tortíming”. Myndin lenti í fyrsta sæti í keppninni Ungt Umhverfisfólk 2021 í maí síðastliðnum. Myndin var svo send í Evrópukeppnina Climate Change Pix sem er ljósmyndakeppni á vegum Young Reporters for the Environment. Íris Lilja hlaut ungmennaverðlaun þeirri keppni. Um 400 þúsund ungmenni í 44 löndum tóku þátt. Það er mikill heiður fyrir Írisi að mynd hennar sé til sýnis á loftlagsráðstefnunni í Glasgow. Á ráðstefnuna mæta þjóðarleiðtogar og embættisfólk frá löndum um allan heim og m.a. um fimmtíu manna hópur frá Íslandi, ráðherrar, þingmenn og embættisfólk. Ráðstefnan hófst á sunnudaginn 31. október og er til 12. nóvember Hér er linkur á frétt frá RÚV um Írisi: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/95bqek/ljosmynd-a-loftslagsradstefnu