Skundað á Þingvöll

Nemendur í umhverfisfræði, ásamt kennurum, fóru í vettvangsferð á Þingvelli þar sem Torfi Stefán Jónsson, fræðslufulltrúi í þjóðgarðinum og fyrrum sögukennari við FÁ, tók vel á móti okkur að vanda. Nemendurnir hafa undanfarið verið að læra um friðlýst svæði á Íslandi og heimsóknin á Þingvelli var vissulega rúsínan í pylsuendanum á þeirri fræðslu. Það viðraði vel til útivistar og nemendur voru margs vísari eftir ferðina.

Umhverfiskönnun

Á umhverfisdegi í mars var send út umhverfiskönnun á nemendur. Rúmlega 100 nemendur svöruðu umhverfiskönnuni. Þó við hefðum viljað hafa hærra svarhlutfall þá er ýmislegt áhugavert sem fram kemur í niðurstöðunum.

Tíunda grænfánanum flaggað

Fjölbrautaskólinn við Ármúla fékk sinn tíunda Grænfána í gær, fimmtudaginn 3. apríl. FÁ var fyrsti framhaldsskólinn til að hljóta Grænfánann árið 2006 og hefur verið öflugt umhverfisstarf í skólanum síðan. Í umhverfisráði nemenda sitja níu nemendur skólans og í sjálfbærninefnd sitja 8 starfsmenn, tveir stjórnendur og tveir nemendur.

Hvað geta ungmenni gert fyrir jörðina?

Í FÁ er starfandi frábært umhverfisráð sem vinnur að umhverfismálum í skólanum. Þau Matthildur Þóra og Guðmundur Ingi sem eru í umhverfisráði skrifuðu smá frétt sem birtist á visir.is í vikunni: Hvað geta ungmenni gert fyrir jörðina. Við hvetjum ykkur til að lesa þessa flottu frétt.

Vilja vernda jökla á Íslandi

Nemendur í umhverfisráði skólans fóru í heimsókn í Mannréttindahúsið og kynntust þeirri starfsemi sem þar er. Mannréttindahúsið sameinar fjölbreytt samtök sem berjast fyrir mannréttindum hvert á sínum forsendum. Þar er að finna t.d. KVAN, ÖBÍ réttindasamtök, UN Women á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna. Með í ferðinni voru nemendur frá nágrannaskólanum okkar, Menntaskólanum við Sund. Mikið og gott samstarf hefur verið á milli skólanna tveggja í starfi umhverfisráðanna. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um Mannréttindahúsið og eiga gott samtal við Pétur Hjörvar, tengilið UNESCO skólanna á Íslandi á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna. Hópurinn ræddi um mikilvægi jökla á Íslandi og sótti um styrk á vegum loftslagssjóðs Reykjavíkurborgar sem styður við vitundavakningu á loftslagsbreytingum meðal ungs fólks. Styrkumsóknin ber heitið „Draumurinn um jökul“ og ef styrkurinn fæst verður farið í jöklaferð með það fyrir augum að taka upp og miðla fræðslumyndbandi um jökla meðal ungmenna á Íslandi.

A Green Day verkefnið

Á síðasta ári tók Fjölbrautaskólinn við Ármúla þátt í Erasmus verkefninu A Green Day í samstarfi við IES Tegueste frá Tenerife. Verkefnið byggði á samstarfi tveggja skóla þar sem markmiðið var að fræða hvorn annan um ýmis umhverfismál. FÁ hjálpaði IES Tegueste að undirbúa vinnu við umsókn um Grænfánann sem við höfum fengið afhentan í um 20 ár, fyrstir allra framhaldskóla. Í verkefninu fyrir hönd FÁ voru Andri Ingvason, Guðbjörg Eiríksdóttir og Tinna Eiríksdóttir en með þeim voru fimm nemendur sem stunda nám við skólann.

Vel heppnuð Litlu jól framhaldsskólanna

Litlu jól framhaldsskólanna fóru fram í Fjölbrautaskólanum við Ármúla fimmtudaginn 28. nóvember en viðburðurinn var haldinn af FÁ, Tækniskólanum og MS. Fjölmargir framhaldsskólanemar mættu á Litlu jólin og sló loftslagsvæna kakóið algjörlega í gegn hjá nemendum. Tilgangur viðburðarins var að fræða nemendur um loftslagsmál með skemmtilegum hætti. Hringrásarhagkerfið var allsráðandi á viðburðinum og hver einasta smiðja úthugsuð frá umhverfissjónarmiði. Viðburðurinn gekk afskaplega vel og söfnuðust 37 þúsund krónur til styrktar Barnaheilla.

Litlu jól framhaldsskólanna

Umhverfisráð FÁ fékk á önninni 500 þúsund króna styrk til að efla samvinnu framhaldsskóla í umhverfismálum og halda umhverfisviðburð fyrir ungmenni í Reykjavíkurborg. Samstarfsskólar FÁ í verkefninu eru Tækniskólinn og Menntaskólinn við Sund. Umhverfisráðin í skólunum þremur koma til með að skipuleggja viðburðinn saman og hafa tekið ákvörðun um að halda jólaviðburð þar sem umhverfismálin eru í brennidepli í öllu skipulaginu. Viðburðurinn verður haldinn þann 28. nóvember næstkomandi í FÁ og er opinn öllum framhaldsskólanemum, þvert á skóla. Frábært að mæta og komast í gott jólaskap, gæða sér á kakói, hlusta á jólatónlist, styrkja góðgerðamál, föndra, næla sér í jólafötin á fataskiptimarkaði og eiga góða samverustund með vinum! Öllum nemendum og ungmennum á framhaldsskólaaldri er boðið að koma í Fjölbrautaskólann við Ármúla á milli 14-16 þann 28. nóvember og eiga frábæra stund á Litlu jólum framhaldsskólanna! Hægt verður að koma ókeypis með Hopp hlaupahjóli á staðinn, en sérstakur lendingarpuntkur verður settur fyrir framan skólann. Láttu sjá þig á litlu - en risastóru jólum framhaldsskólanna! 🙂

Rafrusladagurinn haldinn um allan heim

Rafrusladagurinn var haldinn um allan heim í vikunni og tók skólinn þátt í vitundarvakningunni. Áhersla rafrusladagsins í ár eru biluð, ónýt eða ónotuð raftæki sem fólk geymir á heimilum sínum. Mörg lítil raftæki er oft finna í skúffum heimila t.d. gamlir farsímar, snúrur, USB-lyklar, kortalesarar, leikjatölvur, smáheyrnartól og þess háttar. Raftæki eru allir hlutir sem eru með kló, snúru eða rafhlöðu. Til hvers að endurvinna raftæki? Raftækjaúrgangur inniheldur mikið af verðmætum; sjaldgæfum málmum (t.d. kopar og gull) og fleiri efnum sem mikilvægt er að koma í endurvinnslu. Mörg raftæki innihalda auk þess efni sem eru skaðleg umhverfinu, fari þau ekki í réttan farveg. Hver er skaðinn? Aðeins um 17 prósent af rafrusli heimsins ratar í fullnægjandi endurvinnslu. Gríðarlegt magn af raftækjaúrgangi verður til á hverju ári og er umfangið sífellt að aukast. 62 milljón tonn af raf- og rafeindatækjaúrgangi á heimsvísu árið 2022. Þetta magn jafngildir því að 1,55 milljón vörubílum, hlöðnum rafrusli, yrði stillt upp við miðbaug jarðar og næðu allan hringinn. Eftir hvern Íslending liggja um 24 kíló af rafrusli á ári. Samtals vegur árlegt rafrusl landsmanna um níu þúsund tonn. Hvað getum við gert? Við getum athugað hvort gömul raftæki liggi í skúffum og skápum og skilað þeim á næstu endurvinnslustöð. Elko tekur einnig á móti gömlum raftækjum og í sumum tilfellum er hægt að skila þeim og fá inneignarnótu í staðinn. Viltu finna milljón? Sumum raftækjum er hægt koma í viðgerð, gefa/selja og lengja þannig líftíma þeirra. Þá leynast oft raftæki í fullkomnu standi inná heimilum fólks sem safna ryki og bíða eftir nýjum áhugasömum eiganda. Hægt er að kynna sér málið enn betur á vefsíðu Saman gegn sóun https://samangegnsoun.is/raftaeki/ og á vefsíðu Úrvinnslusjóðs https://www.urvinnslusjodur.is/um-urvinnslusjod/utgafa/tilkynningar/althjodlegi-rafrusldagurinn.

Umhverfisráð FÁ fær styrk úr Loftslagssjóði Reykjavíkurborgar

Borgarráð hefur samþykkt að veita 500.000 króna styrk fyrir verkefninu „Loftslagspartý framhaldsskólanna“. Verkefnið gengur út á að efla samvinnu framhaldsskóla í umhverfismálum og halda stóran loftslagsviðburð fyrir ungmenni í Reykjavíkurborg. Samstarfsskólar Fjölbrautaskólans við Ármúla í verkefninu eru Tækniskólinn og Menntaskólinn við Sund. Umhverfisráðin í skólunum þremur koma til með að skipuleggja loftslagsviðburðinn saman og verður hann haldinn fyrir lok árs. Loftslagssjóður ungs fólks í Reykjavík er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg philanthropies. Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en sjóðurinn veitir styrki til verkefna sem eru hönnuð og unnin af ungu fólki á aldrinum 15-24 ára og hafa beina skírskotun í loftslagsáætlun borgarinnar. Styrkurinn var afhentur við fallega athöfn í Höfða í dag og mættu fulltrúar frá umhverfisráði FÁ á afhendinguna, þær Thelma Rut Þorvaldsdóttir og Bríet Saga Kjartansdóttir. Við óskum þeim og umhverfisráðum skólanna innilega til hamingju með styrkinn.