Kristrún Birgisdóttir ráðin aðstoðarskólameistari FÁ

Kristrún Birgisdóttir, sérfræðingur á greiningarsviði Menntamála-stofnunar hefur verið ráðin aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla. Kristrún lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskólanum árið 2006, BA í uppeldis- og menntunarfræðum við HÍ árið 2009 og framhaldsnámi í náms- og starfsráðgjöf árið 2010. Ennfremur lauk Kristrún viðbótarnámi í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í opinberum rekstri í júní 2018.

Frá árinu 2010 til 2015 starfaði Kristrún sem sérfræðingur í framhaldsskóladeild Menntamálaráðuneytisins og frá árinu 2015 hefur hún starfað sem sérfræðingur á greiningarsviði Mennta-málastofnunar.
Alls voru umsækjendur um starfið 21 talsins. Þeim er öllum þakkaður áhugi á starfinu með ósk um bjarta framtíð.

Japan að fornu og nýju.

Á morgun koma Villimey Sigurbjörnsdóttir ásamt Tomoko Daimaru fyrir hönd japanska sendiráðsins og munu halda fyrirlestur hjá okkur um "Samfélags- og menningarleg einkenni Japans að fornu og nýju." Fyrirlesturinn verður í fyrirlestrarsal skólans og hefst klukkan 12. Þeir sem hafa opinn huga og eru fullir áhuga um eyríkið í austri mega ekki láta þetta einstaka tækifæri sér úr greipum ganga.

Val fyrir vorönn 2019

Sá á kvölina sem á völina, er stundum sagt en það er varla mikil pína að velja nám fyrir næstu önn. Það er bara að fara inn á INNU og ganga frá valinu. Valið er opið fram til 2. nóvember og því ekki seinna vænna að ganga frá því ef það hefur ekki þegar verið gert. Umsjónarkennarar eru til aðstoðar ef einhverjar spurningar í sambandi við valið vakna.

Vetur kóngur knýr á dyr

Fyrsti vetrardagur er í dag. Nú fer að frysta og snjóa og myrkrið grúfir sig yfir landið. En örvæntum ekki. Sumardagurinn fyrsti kemur eftir sex mánuði. Nú eru ekki nema rúmlega sex kennsluvikur eftir af þessari önn. Tíminn flýr hratt. Hvað sem kulda og myrkri líður eru jólin samt skemmra undan en margur heldur. Ljósið í myrkrinu og við höldum okkar striki, stöndum okkar plikt og lifum og lærum sem aldrei fyrr. Er óhætt að segja: Gleðilegan vetur?

Dagur myndlistar er í dag

Freyja Eilíf, myndlistarmaður,kemur í FÁ ídag, þriðjudag, og heldur erindi í fyrirlestrarsalnum kl. 11:40. Freyja Eilíf er dugandi listamaður sem rekur eigið gallerí -EKkisens - og er þar að auki kennari. Öllum áhugasömum nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum er boðið á kynninguna en markmið “Dags Myndlistar” er veita ungu fólki innsýn í það viðamikla starf sem felst í því að vera myndlistarmaður og bæta þannig grunnþekkingu á faginu. Hér má sjá heimasíðu Freyju Eilífar.

Fjórir dagar án FÁ

Í dag, hófst vetrarfrí og þögnin leggst yfir kennslustofur og ganga skólans og engin leiftur frá farsímaskjám munu lýsa upp skólahúsið næstu daga. Kyrrðin í skólanum mun vara fram á þriðjudag 23.október en þá hefst skóli á ný og vonandi koma allir aftur hressir í bragði. Það má einnig minna á það að á þriðjudaginn verður Dagur myndlistar í hávegum hafður og í tilefni hans boðið upp á fyrirlestur á vegum myndlistarmannsins Freyju Eilífar í salnum frá klukkan 11:40.

Kennslumatið opið til 18.okt

Kennslumat annarinnar fer fram í INNU eins og áður og nemendur geta nálgast könnunina undir liðnum KANNANIR ofarlega á síðunni. Kennslumatið er opið til og með 18. október og því fer hver að verða seinastur að skila inn áliti sínu á kennslustörfum í FÁ. Það er mikilvægt að sem flestir taki þátt svo að hægt sé að byggja á könnuninni. Semsagt, klára dæmið fyrir haustfrí.

Hundrað ár frá spænsku veikinni

Það er vel þess virði að minnast þess að nú er liðin öld frá því að spænska veikin gerði usla á Íslandi og olli miklu manntjóni. Við skulum vona að sú arma pest láti ekki aftur á sér kræla. En inflúensa herjar samt árvisst hér á landi og margir veikjast af hennar völdum og suma getur hún lagt af velli ef þeir eru veikir fyrir. Sem betur fer er fólk ekki eins varnarlaust og fyrir einni öld og hér í FÁ var starfsfólki boðið að láta sprauta sig gegn þeirri vá sem inflúensan er. Lifi læknavísindin!

Af því að það er þarna...

Menn ganga á fjöll af því að þau eru þarna. Og hvað jafnast á við það að sitja á háum tindi og horfa yfir landið?
Núna á laugardaginn, 6. okt. ætla nemendur í útivistaráfanganum að vísu ekki að klífa Hraundranga heldur Helgafell við Kaldársel. Það verður að duga í bili. Lagt verður upp frá FÁ á klukkan 9:00 á laugardaginn og kostar eitt þúsund krónur fyrir þá sem skrá sig fyrir hádegi á föstudag.

Fall er ei alltaf fararheill

Á morgun, 2. október kl.13 verður sérstök skólasýning fyrir nemendur FÁ á kvikmyndinni „Lof mér að falla“ í tilefni væntanlegs forvarnardags framhaldsskólanna. Einn af aðstandendum kvikmyndarinnar mætir og ræðir við nemendur um inntak og boðskap hennar en forvarnargildi myndarinnar mun vera ótvírætt. Nemendur sem vilja sjá myndina fá leyfi eftir hádegi 2. október en verða að skrá sig á skrifstofunni. Sýningin verður á tilboðsverðinu 1500 kr. (greitt í miðasölu Smárabíós við mætingu). Allir í bíó!