FÁ vann Lífshlaupið

Þá liggja úrslitin fyrir í Lífshlaupinu. Ekki að spyrja að því hvaða skóli vann það hlaup.  Við megum vel við una. Hlaupum nú um víðan völl og fögnum.

Svona lítur þetta út.

Skólar með 400 - 999 Nemendur

Skóli Dagar Mínútur Þátttökuhlutfall
1. Fjölbrautaskólinn við Ármúla 0,66 54,78 16,00%
2. Menntaskólinn í Reykjavík 0,41 36,49 10,00%
3. Fjölbrautaskóli Vesturlands 0,08 6,91 2,00%
4. Menntaskólinn í Kópavogi 0,06 4,40 1,00%
5. Flensborgarskólinn í Hafnarfirði 0,02 1,10 0,00%
6. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 0,00 0,00 0,00%

Kvikmyndahátíð um helgina!

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, eða KHF, verður haldin í fjórða sinn núna helgina 24. og 25. febrúar. Hátíðin fer fram í Bíó Paradís frá kl. 13:00-16:00 og er ókeypis inn. Öll umsjón er í höndum nemenda FÁ. Eitt af aðal markmiðum hátíðarinnar er að gera nemendum í framhaldsskólum landsins kleift að koma verkum sínum á framfæri og kynnast öðrum með sömu áhugamál. Tækifærin sem skapast upp úr hátíðinni eru ófá og því er vonin sú að gera hátíðina sýnilegri og skapa henni jafnframt fastan sess í félagslífi íslenskra ungmenna. (sjá meira)

Framhaldsskóla­kynning 21. feb.

Það verður fjör á miðvikudaginn 21. febrúar því þá verður framhaldsskólakynning í FÁ frá kl. 16:30 til 18:00. Allir framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu verða með bása og kynna starf sitt. Nemendur 10. bekkjar og foreldrar þeirra eru velkomnir. Nemendur 10. bekkjar eru hvattir til að nýta sér þessa kynningu og koma með undirbúnar spurningar. Opið hús verður svo í FÁ miðvikudaginn 14. mars kl. 16:30–18:00

Fjallhraustir menn á ferð

Í fyrramálið, laugardaginn 17. febrúar, verður farið í göngu frá Heiðmörk inn í  Búrfellsgjá. Þar verða göngumenn ástandsskoðaðir og síðan verður vonandi hægt að reka áfram með hópinn að Húsfelli (280 m) og þaðan í Kaldársel með viðkomu í Valabóli. Áætluð vegalengd um 10 km.

Brottför frá FÁ stundvíslega klukkan 09.00.
Veðurspá er góð. Austan gola, sólskin og og þriggja stiga frost.

Skautahöllin sprengd í dag

Í dag er sprengidagur en þá var í katólskum sið sprengt vígðu vatni á syndugan lýðinn. En í dag verður ekkert slíkt að gerast heldur munu allir í FÁ fara í einum spreng niður í Skautahöllina í Laugardag og draga á sig skriðskó eða skauta og bruna svo í einum hvelli út á svellið og hamast þar uns þeir springa. Lagt verður af stað klukkan 11:30 frá skólanum. SJÁ MYNDIR Á FACEBOOK-SÍÐU skólans.

Skautaferð á þriðjudag!

Skólinn hefur leigt Skautahöllina kl. 11.45 – 12.35 nk. þriðjudaginn 13. febrúar. Skautar og hjálmar eru á staðnum.
Allir sem vilja, nemendur sem starfsmenn, geta mætt og leikið listir sínar á skautum. Nemendur sem taka þátt fá M fyrir þennan tíma. Það er fátt frískara en að renna sér skriðu á hárbeittum skautum og finna frelsisandann leik um rjóðar kinnar. Mætum öll, það er ekki á hverjum degi sem fólk fær frítt á skauta í góðum félagsskap.
Gengið verður fylktu liði frá skólanum kl. 11.30 að Skautahöllinni.Skautahlaupið verður skráð í Lífshlaupið.

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2018 er í dag

http://saft.is/Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2018 er í dag. Slagorð dagsins í ár er: Sköpum, tengjum og deilum virðingu: betra net byrjar hjá þér! Yfir 130 þjóðir um heim allan munu standa fyrir skipulagðri dagskrá í dag. Netöryggismiðstöðvar 30 Evrópuþjóða, sem mynda samstarfsnetið Insafe og yfir 100 önnur lönd munu leiða saman ýmsa hagsmunaaðila til þess að vekja athygli á netinu og ræða hvernig þeir geta lagt sitt af mörkum til þess að gera netið betra. Í tilefni dagsins mun SAFT opna nýja heimasíðu og kjölfarið setja inn nýtt kennsluefni fyrir leik, grunn- og framhaldsskóla landsins ásamt heilræðum og leiðbeinandi efni til foreldra #Falsfréttir  #Samfélagsmiðlar #Hatursorðræða #Sexting #Samskipti #Einelti #Streymi #Netglæpir #Snjalltæki

Að eiga fótum fjör að launa

https://www.lifshlaupid.is/lifshlaupid/

Nú stendur yfir hið svokallaða Lífshlaup sem á latínu heitir Curriculum vitae og sem stundum er nefnt æviskeið á íslensku.
En þótt nafnið sé villandi - hér er einungis um það að ræða að fólk hreyfi sig á hvaða máta sem er - semsagt forðist að hlaupa í spik. Nú er veðrið til þess að leggja sitt af mör(kum) og bæta heisluna, skíðafæri er gott og svo er hægt að sækja sér hreyfingu í ræktina, en auðvitað er best að iðka góðar göngur. Góð ganga lengir lífsgönguna.

Fjölbraut við Ármúla hvetur alla í skólanum til að skrá sig til hlaups enda mikill metnaður hjá öllum í  skólanum að vinna Lífshlaupið.

Nýjungar - frumkvæði - sköpun

Þegar vélar verða búnar að taka öll framleiðslustörfin verða menn að kunna eitthvað sem vélar kunna ekki; nefnilega að hugsa! Í FÁ stendur Petra Bragadóttir fyrir áfanganum MARK2AM05 og þar fást nemendur við nýsköpun og markaðssetningu. Það er mikilvægt að skólinn búi nemendur sína undir framtíðina og það má segja að það sé Petra einmitt að gera með þessum skemmtilega áfanga sem kennir nemendum frumkvæði og sjálfstæða hugsun. Ásamt hagsýni!

Öllu er afmörkuð stund...

Stundvísi er ein mikilvægasta dyggð sem fólk almennt tileinkar sér. Ljóst er að því fyrr sem einstaklingur venur sig á stundvísi þeim mun líklegra er að hún verði fastur þáttur í fari hans alla ævi.Stundvísi ber vott um hæfni og byggir upp gott mannorð. Þegar þú ert stundvís sýnirðu að þú reynir að hafa stjórn á lífi þínu í stað þess að láta tilviljun ráða því hvort þú náir að gera það sem þú ætlaðir þér. Við sýnum að við berum virðingu fyrir okkur og öðrum og tímanum þeirra þegar við erum stundvís. Stundvísi ber einnig vott um áreiðanleika,