Enga rörsýn...

Þessa vikuna stendur umhverfisráð FÁ fyrir vakningu um að menn hætti að nota rör (nema kannski píparar), þessi rör eða strá eru alger óþarfi og gera ekkert nema að útbía og valda skaða í lífríkinu. Hættum að nota rör/strá og ef þið notið þau af illri nauðsyn setjið þau þá í þartilgerð plastílát sem hanga á umhverfisfræðsutöflunni á Steypunni. Góð ráð eru ekki á hverju strái - en besta ráðið til að bjarga jörðinni frá hremmingum er að hætta að nota strá til að drekka í gegnum. En ef menn komast ekki hjá því að sjúga drykk um strá eða rör þá verða menn að gæta þess vel að rörið lendi í endurvinnslu en ekki úti í náttúrunni.

Þorri

Mánuðurinn þorri hefst á föstudegi í 13. viku vetrar. Nú á bilinu 19. til 25. janúar en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Hann er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu og upphaflega mun upphaf hans hafa miðast við fyrsta nýtt tungl eftir vetrarsólhvörf. Mánaðarheitið þorri kemur fyrir í elsta íslenska rímhandritinu frá lokum 12. aldar og einnig í Staðarhólsbók Grágásar frá 13. öld og í upptalningu mánaðanna í Snorra Eddu. Merking orðsins er ekki ljós og hafa verið settar fram margar kenningar um hana. Helstu tilgátur eru að orðið sé skylt lýsingarorðinu þurr, sögninni að þverra, nafnorðinu þorri í merkingunni „meginhluti“ og eins að Þorri gæti verið eitt nafna Þórs eða nafn á samnefndum fornkonungi.

Setrið; þar er ró og næði

Nú ættu allir að vita að búið er að opna Setrið. Í Setrinu er hægt að læra í friði og spekt fjarri Steypunnar glaumi. Það er fínt að nýta sér götin i stundaskránni og klára öll þessi verkefni sem kennarar hafa svo gaman af að setja fyrir. Og suma dag eru líka kennarar eða eldri nemendur á vaktinni sem geta liðsinnt nemendum með námsefnið. Látið ekki happ úr hendi sleppa. Námsgreinar í Setrinu á vorönn 2018: (lesa meira).

Lilja Alfreðsdóttir menntamála-ráðherra í heimsókn í FÁ

Í dag, 10. janúar kom Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra í heimsókn í skólann. Hún kynnti sér hið góða starf sem unnið er í FÁ, en skoðaði sérdeildina sérstaklega vel. Sérdeildin tók á móti góðum gjöfum í dag, Styrktarsjóður BYKO afhenti þrekhjól sem er sérstaklega útbúið fyrir hreyfihamlaða og Sunnusjóðurinn sem tvisvar áður hefur styrkt sérdeildina, færði deildinni dýrindis tölvu sem hægt er að stýra með augnaráðinu einu. Lilja ræddi við stjórnendur FÁ um menntamál og skólastefnu og áður en hún kvaddi hélt hún góða ræðu yfir kennara- og starfsliði skólans og voru það falleg orð sem gefa vonir um markvissa og skýra stefnu í menntamálum núverandi ríkisstjórnar. Við þökkum Lilju fyrir þann áhuga og hlýhug sem hún sýndi skólanum og ekki má gleyma að þakka Sunnusjóðnum og Styrktarsjóði BYKO fyrir höfðingarlegar gjafir. Sjá myndir á Facebooksíðu skólans

Fjarnám er góður kostur

Nú stendur yfir skráning í fjarnám fyrir vorönn. Fjölmargir áfangar eru í boði. Fjarnám er góð leið fyrir þá sem eiga þess ekki kost að stunda hefðbundið nám í dagskóla, en líka fyrir þá sem vilja bara auka við kunnáttu sína eða safna einingum til stúdentsprófs. Skráning stendur yfir fram til 10. janúar.