Rúsínan í pylsuendanum

Í gær var öllum í skólanum boðið í pylsu með öllu í tilefni kennsluloka. Og í dag var síðasti kennsludagur - og allir pínuglaðir - hver hefði trúað því í janúar að þessi dagur rynni upp? En rúsínan í pylsuendanum er samt ekki gleypt því enn eru eftir nokkrir prófdagar en þeir líða eins og annað. Allt hefur sinn tíma, að borða pylsu hefur sinn tíma og að taka próf hefur sinn tíma. Og svo kemur sumarið fagnandi og alltelskandi sólin!

Hjólað í skólann 8.-28.maí

Á morgun, 8. maí, hefst vinnustaðakeppnin „Hjólað í vinnuna“ og er markmiðið með þessari keppni að fásem flesta starfsmenn skólans til að koma hjólandi, gangandi eða hlaupandi í vinnuna en líka má nýta sér línuskauta/hjólabretti eða láta strætó um að skutla sér í vinnuna. Keppninni lýkur þriðjudaginn 28. maí.

Hægt er að skrá sig á : http://www.hjoladivinnuna.is
Þar er fyrst valinn vinnustaður (Fjölbrautaskólann við Ármúla) og lið – eða stofna nýtt lið.

Búið er að stofna tvö lið „Alltaf með vindinn í bakið“ og „Gúmmíbirnir“.
Liðin keppa sín á milli um hjólaða kílómetra. Í tilefni þess að vinnustaðakeppnin Hjólað í vinnuna 2019 hefst á morgun, ætlum við að bjóða til samstigs á hjólhestum síðasta kennsludaginn, föstudaginn 10. maí. Lagt verður upp frá skólanum kl. 14.15 og stiginn hringur um Vesturbæinn og Seltjarnarnes og áð á Nauthóli.

Dimission kl. 10:20 í dag

Í dag ætla útskriftarnemendur á stúdentsbrautum að dimmitera. Samkvæmt hefðinni munu útskriftarefnin kveðja kennara og starfsfólk inni á Sal klukkan klukkan 10:20 og því engin kennslustund eftir kaffihléð. Nemendur eru hvattir til þess að fylla salinn og samfagna þem sem eru að kveðja skólann. Gaman, gaman.

Fimm fræknu.... ungir frumkvöðlar vinna til verðlauna

Þessi frækni hópur FÁ-nema hlaut verðlaun fyrir bestu fjármálalausnina á uppskeruhátíð Fyrirtækjasmiðju ungra frumkvöðla. 120 fjölbreytt nýsköpunarverkefni kepptu til verðlauna en liðið sem kallast "Ungdómur" hefur unnið baki brotnu í vetur við að útfæra verkefnið sitt sem snýr að fjármálafræðslu fyrir ungt fólk. Sannarlega verðugt verkefni og frábær árangur hjá þeim Eggerti Unnari Snæþórssyni, Gunnlaugi Jóhanni Björnssyni, Halldóri Degi Jósefssyni og Vilhjálmi Kaldal Sigurðssyni sem eru á myndinni en Igor Silva Ducamp sem líka tók þátt í verkefninu vantar á myndina.

Velkomin aftur

Nú er löngu páskafríi lokið og skólastarf hefst að nýju. Það er um að gera að nota þá fáu daga sem eftir eru til þess að undirbúa sig fyrir prófin sem hefjast þegar þann 13. maí, en síðasti kennsludagur er þann 10. Það eru því ekki margir dagar framundan til þess að reka smiðshöggið á önnina. Um að gera að nota þá daga vel. Á föstudaginn kemur verður dimission, einn árgangur að kveðja en nýr kemur í hans stað. Þannig er hringrás daganna, þeir koma og fara með ógnarhraða eins og borðtenniskúla í hörkuleik.

Gleðilega páska

Nú er kyrrð og nú er friður yfir skólanum enda komið páskafrí og allir vel að því komnir. Önnin hefur verið löng, en vonandi ekki of strembin. Eftir páska tekur svo við lokaleikurinn og vonandi endar hann vel hjá öllum.
Frá og með 15. apríl fram til 29. apríl verður skrifstofa FÁ lokuð. Gleðilega páska, öllsömul.

Nú er kátt í höllinni!

Í dag lýkur Alþjóðaviku FÁ og af því tilefni er blásið til heljarinnar veislu. Það verður söngur, gleði, dans og tónlist að ógleymdum mat frá ýmsum heimshornum sem nokkrir veitingastaðir ætla að elda handa okkur - ókeypis. 
Engin veisla án góðra gesta. Eliza forsetafrú ætlar að heiðra samkomuna og einnig okkar fyrrverandi nemandi Sanna borgarfulltrúi og Tanja frá deCODE, allt konur sem hafa náð langt á sínu sviði. Ekki má gleyma því að fjölmiðlar verða á staðnum og því um að gera að koma vel greiddur og sætur í skólann. 
Veislan byrjar á slaginu tólf og vonandi sjá allir sér fært að taka þátt í gleðinni. FÁ er skóli fjölbreytileikans!

Alþjóðavika í FÁ 8.-11. apríl

FÁ er kominn í alþjóðlegan búning fyrir Alþjóðavikuna sem hefst í dag en tilgangur vikunnar er að beina ljósinu á stöðu erlendra nema og hversu fallega fjölbreyttur skólinn er. Alþjóðlega nemendaráðið hvetur starfsfólk til að taka þátt í dagskránni sem er bæði fróðleg og skemmtileg. Í dag, mánudag - kl. 12:30 í fyrirlestrasal, ætlar Hildur Björgvinsdóttir, framkvæmdastýra SÍF að kynna stöðu erlendra nema á Íslandi.....sjá nánar hér.

Fyrirtækjasmiða ungra frumkvöðla

Á morgun föstudag 5. apríl og laugardaginn 6. apríl, munu um 550 ungir frumkvöðlar frá 13 framhaldsskólum kynna og selja vörur sínar á Vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralindinni. Alls eru þarna á ferðinni 120 nýstofnuð fyrirtæki og þar af eru fjögur þeirra stofnuð í skólanum okkar. Það verður gaman að mæta í Smáralindina um helgina og sjá hverju nemendur okkar hafa fundið upp á í þessum málum. Frumkvæði, frumleiki, sköpun, ....

Enginn má missa af Ólympus

Söngleikurinn Ólympus var frumsýndur í gær fyrir fullu húsi og var vel fagnað enda á ferðinni bráðskemmtilegur leikur og allir leikarar og hljóðfæraleikarar stóðu sig með mikilli prýði. Sem betur fer verður Ólympus sýndur aftur i kvöld klukkan 20 og ef einhverjir komast ekki þá, er tækifæri til þess að sjá þennan bráðskemmtilega söngleik á sunnudaginn en þá verða tvær sýningar, sú fyrri klukkan 14 en seinni klukkan 20.

Miðaverð er 1.500 krónur en 1000 krónur fyrir starfsmenn og nemendur í NFFÁ. facebook - myndir