Gleðilegt sumar

Sumardagurinn fyrsti er á morgun, fimmtudaginn 20.apríl og þá er að sjálfsögðu frí.

Föstudaginn 21.apríl er námsmatsdagur. Engin formleg starfsemi verður í skólanum þennan dag og verður skrifstofa skólans jafnframt lokuð.
Við óskum öllum gleðilegs sumars.

Krufning í lífeðlisfræði

Stundum þarf að kryfja málin vel til að læra og komast að niðurstöðu. Það vita nemendur í lífeðlisfræði hjá Þórhalli Halldórssyni, en nýlega krufðu þau líffæri úr svínum. Ástæða þess er sú að líffæri svína eru afar lík líffærum manna og henta því vel til að skoða og læra.


Nemendum var skipt í hópa og glímdi hver hópur við að greina í sundur líffærin og átta sig á því hvernig þetta allt saman virkar. Afar lærdómsríkt fyrir nemendur að skilja betur samhengi hlutanna í flóknu samspili líffæra og til að dýpka þekkinguna á viðfangsefninu.

 
Nemendur voru allir sammála um að þetta hafi verið mjög skemmtilegt og fræðandi.


Fleiri myndir má sjá hér.

Sýning lokaáfanga í myndlist

 

Sýning lokaáfanga í myndlist verður haldin í gallerý Hins Hússins. Sýningin opnar 15. apríl og stendur til 15. maí. Á þessari sýningu eru nemendur að sýna fjölbreytt lokaverk sín sem þau hafa unnið við að skapa í um þrjá mánuði.

Við hvetjum alla til að mæta!

Hér er tengill á viðburðinn á Facebook.

 

FÁ vann framhaldsskólamótið í hestaíþróttum

 

Um síðustu helgi fór fram Framhaldsskólamótið í hestaíþróttum í Samskiptahöllinni í Spretti og varð Fjölbrautarskólinn við Ármúla efstur í stigakeppnni. Guðný Dís Jónsdóttir keppti ein fyrir hönd FÁ og stóð hún sig svo frábærlega í öllum keppnisgreinunum að FÁ var efst í heildarstigasöfnun skólanna og vann hún líka í heildarstigakeppni einstaklinga.

Fyrir þetta fékk hún fyrir skólann forláta farandgrip sem hefur alla tíð verið til sýnis í FSu en mun verða til sýnis í FÁ þetta árið.

Við óskum Guðnýju Dís hjartanlega til hamingju með árangurinn.

Hér má sjá nánari úrslit í hverri grein.

Myndlistarsýning nemenda FÁ í safnaðarheimili Grensáskirkju

 

Nemendur Fjölbrautarskólans við Ármúla standa nú fyrir sýningu í Gallerý Glugga í safnaðarheimili Grensáskirkju. Sýningin opnaði föstudaginn 31. mars og stendur út aprílmánuð.

Fjölbrautarskólinn í Ármúla og Grensáskirkja efndu í upphafi ársins til samstarfs um táknin í kirkjunni, myndlist og myndlistarsýningu. Falleg glerlistaverk prýða Grensáskirkju. Þau eru eftir okkar helst listamann á því sviði, Leif Breiðfjörð og eru listaverk hans rík af táknum og litum.

Lesa meira:

 

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

 

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, KHF, var haldin í 9. skiptið helgina 25. -26. mars í Bíó Paradís. Alls voru sýndar 28 myndir á hátíðinni frá skólum út um allt land, m.a. frá FÁ, MH, Verzló, Borgarholtsskóla, Tækniskólanum, Menntaskólanum að Laugarvatni og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Að þessu sinni samanstóð dómnefnd hátíðarinnar af Christof Wehmeier, kynningarstjóra Kvikmyndamiðtöðvar Íslands, Marzibil Snæfríðar Sæmundsdóttir kvikmyndagerðarkonu og Dóru Jóhannsdóttur leikkonu og leikstjóra. Heiðursgestirnir í ár voru leikstjórarnir Guðný Halldórsdóttir og Olaf de Fleur.

Lesa meira:

 

 

Þorbjörn keppir í Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna fer fram í Hinu húsinu laugardaginn 1. apríl. Þorbjörn Helgason keppir fyrir hönd FÁ með lagið Touch me með The Doors og er númer 14 á svið. Það þýðir að í símakosningunni verður hann með númerið 900 9114. 
Við hvetjum alla til að kjósa því að símakosningin gildir 50% og mun hafa áhrif á úrslit keppninnar.
Beint streymi verður frá keppninni á Stöð2 Vísi og hefst klukkan 19:00.
Áfram FÁ og Þorbjörn!

Vörumessa 2023 í Smáralind

Vörumessa á vegum JA Iceland var haldin í Smáralind 23. og 24. mars síðastliðin þar sem nemendur tóku þátt í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla sem er nýsköpunarkeppni framhaldsskólanna.

Nemendur í frumkvöðlafræði og nýsköpunaráfanga á viðskipta- og hagfræðibraut Fjölbrautaskólnas við Ármúla undir leiðsögn Róberts Örvars Ferdinandssonar kennara tóku þátt í sýningunni og kynntu vörur sínar sem vakti athygli og áhuga gesta í Smáralindinni.

Nýsköpunarfyrirtæki nemenda FÁ voru fjölbreytt, en það eru Lausnin sem er app sem heldur utan um alla viðburði og veitingastaði sem henta einstaklingum, 3002 hönnun og tíska, Ventura fjármálaráðgjöf og VAX sem framleiðir kerti á umhverfisvænan hátt. 

Leikskólabörn frá Múlaborg í heimsókn í FÁ

Á föstudaginn fengum við góða heimsókn frá leikskólanum Múlaborg sem er hér við hliðina á FÁ. Hópur leikskólabarna kíktu yfir og fengu fræðslu frá nemum í tanntækninámi um umhirðu tanna. Börnin unnu svo í hópum, lærðu m.a. að bursta tennurnar og fengu að æfa sig á risaeðlutönnum.
Þetta þverfaglega samstarf hefur verið í gangi í nokkur ár og frábært tækifæri fyrir tanntækninema að æfa sig og fyrir leikskólabörnin að fá fræðslu um tannumhirðu og heimsækja skólann sem þau horfa á alla daga.

Takk fyrir komuna

Í gær var opið hús í FÁ fyrir 10.bekkinga og aðra áhugasama. Það var mjög góð mæting og frábær stemning. Við þökkum öllum fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta á næstu önn.

Til að kynna sér skólann enn frekar þá eru upplýsingar hér.