06.03.2025
Rafíþróttalið FÁ sigraði Fjölbrautaskóla Snæfellinga með sannfærandi 3-0 sigri í FRÍS í gær. FÁ vann alla þrjá leikina sem keppt var í (Rocket League, Counter-Strike 2 og Fortnite) og skólinn er þar með kominn áfram í undanúrslit. Næsti leikur FÁ verður gegn Tækniskólanum eða Fjölbrautaskóla Suðurlands miðvikudaginn 2. apríl kl. 19:00. Hægt verður að horfa á leikina í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans og Twitch-rás Rafíþróttasambands Íslands.
Viltu vita hvernig þessir tölvuleikir virka í einfölduðu máli eða kynnast rafíþróttaliði FÁ? Nemendur í áfanganum Yndisspilun (TÖLL2YS05) settu saman heimasíðu þar sem áhugasamir geta kynnt sér efnið betur: http://sites.google.com/view/fris25
03.03.2025
Á fimmtudaginn síðasta, 27. febrúar fór Söngkeppni FÁ fram á Árdegi skólans. Hinn frábæri og skemmtilegi Elvis eftirherma var kynnir í keppninni og tók eitt lag við góðar undirtektir. Hin sívinsæla starfsmannahljómsveit, ÚFF tók svo 3 lög, ekki margir skólar sem geta státað af svona flottri hljómsveit starfsmanna.
Sex flott atriði tóku þátt og það má sanni segja að það sé mikið af hæfileikaríku tónlistarfólki í skólanum okkar. Öll atriðin voru frábær en úrslitin urðu þau að Katrín Edda lenti í þriðja sæti með lagið My way með Frank Sinatra. Rafael Róbert var í öðru sæti með lagið Thank you með Led Zeppelin. Í fyrsta sæti var svo hún Arney með lagið Bad Romance með Lady Gaga. Aldeilis frábær flutningur, bæði söngur og framkoma. Arney mun því taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna seinna á þessari önn.
Hjartanlega til hamingju Arney.
02.03.2025
Á fimmtudaginn 27. febrúar var Árdagur í FÁ, skemmtilegasti dagur ársins. Árdagar eiga sér langa sögu í FÁ en þá daga gera nemendur og starfsmenn sér dagamun og brjóta upp hefðbundinn skóladag.
Nemendur skiptu sér í rúmlega 20 lið, hvert lið merkt ákveðnum lit eða mynstri. Liðin kepptu síðan sín á milli í fjölbreyttum þrautum sem starfsfólk var búið að undirbúa. Þrautirnar spönnuðu allt frá íþróttum til lista, heilaleikfimi til handavinnu, karókísöngs til spurningakeppna. Þessum skemmtilega degi lauk svo á söngkeppni og pizzaveislu.
Það var Dökkbláa liðið sem vann keppnina eftir harða baráttu við það ljósbláa. Stóðu þau sig vel í þrautunum og voru þau dugleg að hvetja liðsfélaga sína og halda uppi góðri stemningu.
Árdagur er alltaf jafn skemmtilegur, fullur af gleði, samvinnu og mikilli hvatningu. Markmiðið er ekki bara að leysa verkefnin, heldur einnig að efla tengsl milli nemenda og skapa gott andrúmsloft í skólanum.