Erlent samstarf

Heimsókn til Tékklands

Í byrjun árs 2022 fengum við í FÁ þrjá góða gesti frá Tékklandi. Þau komu frá skóla sem heitir því þjála nafni: Vyšší oborná škola zdravotnická, Střední zdravotnická škola a Obchodní akademie, Trutnov. Eftir heimsókn þeirra var ákveðið að sækja um Erasmus+ verkefni, sem var samþykkt. Verkefnið heitir Comparing Differences in Healthcare in Europe. Nýlega fóru tveir kennarar og fimm nemendur í heimsókn til Portúgal vegna verkefnisins. Núna í október fóru Kristrún aðstoðarskólameistari ásamt Eddu Láru umsjónarmanni erlendra samskipta að heimsækja tékkneska skólann, með langa nafninu. Það var tekið vel á móti þeim og íslenski fáninn blakti fyrir ofan aðalinnganginn. Í skólanum er stór heilbrigðisbraut alveg eins og hér í FÁ. Nýjasti partur skólans er aðeins tveggja ára gamall og sáu kennarar sjálfir um að hanna og standsetja allar skólastofurnar og þar sem hjúkrun er kennd eru þrjár skólastofur, hver þeirra er með sitt litaþema, bleikt, grátt og blágrænn. Í skólanum er líka nuddbraut og þar voru þau búin að útbúa mjög fínar kennslustofur fyrir nuddkennslu, ásamt æfingarnuddstofu þar sem tekið var á móti ‚viðskiptavinum‘. Skólameistarinn er áhugasamur um býflugur og eru fjögur býflugnabú í garði skólans sem framleiða hunang sem við fengum að smakka. Virkilega skemmtileg og áhugaverð heimsókn.

Franskir gestir í heimsókn í FÁ

Í september fengum við góða gesti frá Frakklandi í heimsókn í FÁ. Þau Katell Perrot og Colette Masson-Gauthier, kennarar í ensku, landafræði og jarðfræði, komu ásamt 18 nemendum frá Fougères, Frakklandi. Þau fengu að heimsækja kennslustundir, fræðast um FÁ og um náttúru Íslands. Þau gerðu skemmtilegt myndband um ferðina sem má sjá með þessari frétt.

Skólaheimsókn til Portúgal

 Þann 26. maí hélt 60 manna hópur kennara og starfsmanna í FÁ til Portúgal. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér starfið í tveim skólum í borginni Braga, Oficina og Agrupamento de escolas Sá De Miranda. Tveir ólíkir en flottir skólar sem gaman var að heimsækja. Sérstaka athygli vakti að portúgalskir nemendur eru alla jafna í skólanum frá átta á morgnana og til sex á kvöldin og fara þá í tómstundastarf. Ekki mikill tími sem fjölskyldurnar fá saman þarna í Portúgal. Seinni hlutann af ferðinni hélt hópurinn svo til Portó. Þar var margt skemmtilegt að skoða, falleg borg með mikla sögu. Hér má sjá heimasíður skólanna: Oficina   Agrupamento de escolas Sá De Miranda  

Skoða hvernig stöðva megi framgang heilasjúkdóma

 Skoða hvernig stöðva megi framgang heilasjúkdóma Lyfjafyrirtækið Lundbeck í Danmörku stóð nýlega fyrir stórri keppni sem kallast „Drughunters“. Hópi nemenda af náttúrufræðibraut Fjölbrautaskólans við Ármúla var boðin þátttaka í keppninni. Keppnin snýst um að koma með hugmyndir um hvernig stöðva megi framgang heilasjúkdóma eða lækna þá, en nemendur velja sér eitt viðfangsefni heilasjúkdóma, sem þeir afla sér þekkingar í.   Íslenski hópurinn fékk sérstakt hrós fyrir kynninguna sína. Fyrir íslensku krakkana var undirbúningurinn fyrir keppnina þverfaglegt samstarf raungreina og dönsku. Keppnin vekur áhuga nemanda á læknisfræði„Nemendunum sjálfum fannst keppnin hafa gefið þeim skemmtilegri sýn á dönskuna og einn nemandi nefndi að þessi keppni hefði hvatt hann til að reyna við læknisfræðina í framtíðinni“ sagði Simon Cramer Larsen, dönskukennari eftir ferðina. Í lok apríl síðastliðinn hittust svo allir hóparnir í Kaupmannahöfn og kynntu afraksturinn á dönsku fyrir dómnefnd að sögn Gúríar Helenu Petersen, dönskukennara, sem einnig var með í ferðinni. Keppnin er fyrst og fremst ætluð dönskum og færeyskum framhaldsskólanemendum en Fjölbrautaskólinn við Ármúla er eini íslenski framhaldsskólinn sem tók þátt.

A Green Day verkefnið

  Hópur frá skólanum IES Tegueste á Spáni kom í heimsókn í FÁ dagana 15. – 19. apríl en skólinn er samstarfsskóli okkar í Erasmus+ verkefninu A Green Day sem er umhverfismiðað verkefni. Fimm nemendur og þrír kennarar sóttu FÁ heim og þessa viku sem þau voru í heimsókn hjá okkur hjálpuðu nemendur FÁ þeim að útbúa handbók um Grænfánann, alþjóðlega umhverfisviðurkenningu sem á ensku kallast Eco- Schools. FÁ er sá framhaldsskóli á Íslandi sem hefur lengst flaggað grænfánanum og nemendur okkar því vel í stakk búnir að aðstoða við gerð handbókarinnar. Ásamt því að vinna að handbókinni fóru gestirnir ásamt gestgjöfunum Gullna hringinn og á náttúrusýninguna í Perlunni. Spánverjarnir voru „heppnir“ með veður en eins og tíðkast í apríl á Íslandi var allra veðra von og þau fengu allt frá snjókomu yfir í glampandi sól og aðspurð sögðu þau að það hefði verið einn af hápunktunum, að geta farið í snjókast í apríl.   Í nóvember fer sami hópur og tók á móti gestunum hér heima út í heimsókn til IES Tegueste sem er staðsettur norðanmegin á eynni Tenerife. Þar munu nemendur okkar læra að reikna kolefnissporið sitt og halda áfram að styrkja tengslin við þennan frábæra vinaskóla.    

GAIA - Erasmus verkefni

FÁ tók þátt í Erasmus-verkefninu GAIA með framhaldsskóla í Frakklandi en verkefnið byrjaði á vorönn 2022 og lauk nú í vor 2023. Alls tóku 15 nemendur þátt frá FÁ og 15 franskir nemendur. Það voru svo fjórir starfsmenn frá hvorum skóla sem unnu að verkefninu. Lesa meira

Heimsókn til Frakklands

Um síðustu helgi fór hópur nemenda og kennara úr FÁ í heimsókn til Dijon í Frakklandi, alls 15 nemendur og 4 kennarar. Þau eru þátttakendur í Erasmus+ verkefni sem ber yfirskriftina “Global Awareness in Action” og er verið að vinna með það að við séum meðvituð um sjálfan okkur og hvernig okkur líður, að við séum meðvituð um aðra og um umhverfi okkar til framtíðar.  Þau verða úti í Frakklandi í 10 daga og munu vinna alskyns verkefni með frökkunum ásamt því að skoða áhugaverða staði í Dijon.  Hér sjáum við nokkrar myndir úr ferðinni.

Heimsókn frá Frakklandi

Þessa dagana erum við með heimsókn frá Dijon í Frakklandi í FÁ, 15 nemendur og 4 kennara. Þetta eru þátttakedur í Erasmus+ verkefni sem ber yfirskriftina Global Awareness in Action og þar er verið að vinna með það að við séum meðvituð um sjálfan okkur og hvernig okkur líður, að við séum meðvituð um aðra og séum meðvituð um umhverfi okkar til framtíðar.Hópurinn er búinn að koma víða við. Hann er búinn að gera ýmis verkefni í skólanum, fara í vettvangsferð um miðbæinn, Nauthólsvík og gönguferð um Búrfellsgjá.  Aðalferðin var svo um síðustu helgi þegar hópurinn fór í tveggja nátta ferð í Þórsmörk. Þar fóru þau meðal annars yfir Krossá og inn í Húsadal og þaðan í göngutúr upp á Valahnjúk. Fóru þau síðan inn í Bása þar sem þau gistu. Á laugardeginum var langur göngudagur þar sem farið var upp Strákagil, yfir Kattahryggina og upp að Heljarkambi þar sem þau borðuðu hádegismat. Tóku þau svo Hestagötur aftur í Bása, ótrúlega fallegt svæði. Mikil upplifun hjá öllum í hópnum og allir svo glaðir. Á sunnudeginum var svo kyrrðarganga í nágrenni Bása og svo var haldið heim á leið með viðkomu í Stakkholtsgjá og Seljalandsfossi. Dagskráin hjá hópnum heldur svo áfram í þessari viku og þá munu þau meðal annars fara Gullna hringinn og í Hellisheiðarvirkjun, fara á listasöfn og ganga upp í Reykjadal. Ómetanlegt tækifæri fyrir ungt fólk að taka þátt í svona skemmtilegu verkefni og safna reynslu og minningum til framtíðar. Fleiri myndir úr Þórsmerkurferðinni má sjá á Facebook síðu skólans.