Kennslumat vorannar opið til 28. mars

Á hádegi í dag var opnað fyrir kennslumat vorannar og það verður opið til 28. mars.
Að þessu sinni eru metnir 72 áfangar og má sjá hér hvaða áfangar fara í mat að þessu sinni.

Það er helst að frétta að kennslumatið hefur verið stytt allverulega, þannig að spurningum var fækkað úr 27 í 13. Þetta er gert í þeim tilgangi að auka svörun og vonandi verður sú raunin.
Það er auðvelt að nota snjallsíma við matið og við prófun voru nemendur ekki nema 4 – 6 mínútur að meta.

Spurningalistinn er að sjálfsögðu á íslensku en svo er hægt er að opna enska þýðingu.

Sumarstörf á Norðurlöndum

Nordjobb – Vilt þú vinna erlendis í sumar?
Nordjobb hjálpar þér að finna sumarstarf og húsnæði í öðru norrænu landi. Alls konar störf eru í boði svo sem í garðyrkju, þjónustu, fiskvinnslu, á hótelum og á veitingastöðum.
Allir eru hvattir til að sækja um, einu skilyrðin fyrir þátttöku eru að vera á aldrinum 18-30 ára og að hafa viðunandi vald á dönsku, sænsku eða norsku.
Þetta er tilvalið tækifæri til að eyða sumrinu erlendis, öðlast starfsreynslu og auka færni sína í erlendu tungumáli.

Áhugasamir geta fyllt út umsókn til að gerast Nordjobbarar á eftirfarandi slóð:
https://semla.nordjobb.org/Registration.aspx?&lc=sv&cc=is

Hægt er að sjá laus störf hér:
https://www.nordjobb.org/is/saekja-um-vinnu.
ATH! Það kostar ekkert að taka þátt í Nordjobb verkefninu!

Nánari upplýsingar veitir Hannes, verkefnisstjóri Nordjobb á Íslandi, á island@nordjobb.org eða í síma 680-7477.

Vel heppnuð tónlistarkeppni

Tónlistarkeppni FÁ 2019 reyndist frábær skemmtun sem allir mega vera stoltir af. Leikar fóru svo að Bjartr alias Guðbjartur Daði fékk viðurkenningu fyrir frumlegasta atriðið, Ruth Rúnarsdóttir var í þriðja sæti, Alexandra Ýrr í öðru sæti og líka í fyrsta sæti ásamt Brynjari Erni Smárasyni en þau sungu hinn vinsæla dúett "Shallow" og voru vel að sigrinum komin en allir stóðu sig með prýði og það sannast enn og aftur að í FÁ er margt hæfileikafólk

Tónlistarkeppnin FÁ19 er í kvöld!

Í kvöld klukkan átta verða slegnir strengir og barðar bumbur í sal skólans. Hin árlega tónlistarkeppni FÁ blæs í lúðrana. Þessi skemmtun er einn af hápunktum skólalífsins og því ætti enginn með viti að láta hana fram hjá sér fara. Hleypt er inn klukkan sjö í kvöld og það sem meira er, það er ókeypis inn! Og þar með hefur enginn afsökun fyrir að láta ekki sjá sig í kvöld og njóta þess að vera hluti af góðum hópi og listelskum félagskap. Vive la musique!

Sjúk ást -

Dagarnir 4.-6. mars eru helgaðir forvarnaverkefninu „Sjúk Ást“ hér í FÁ og var formlega hleypt af stokkunum með fjölmiðlafundi í matsalnum í morgun. Verkefnið er á vegum Stígamóta og snýst um baráttu gegn og fræðslu um óheilbrigð samskipti, valdamisvægi og ofbeldi í ástarsamböndum unglinga. Innan þeirrar dagskrár býður femínistafélag skólans, Sigríður, upp á tvo fræðslufyrirlestra tengda málefninu:

**Þriðjudaginn 5. mars mætir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, stýra forvarnaverkefnisins, og fræðir nemendur og starfsfólk um sjúka ást ungmenna og af hverju Stígamót ákvað að keyra þetta átak í gang.


**Miðvikudaginn 6. mars kemur kynfræðingurinn Sigga Dögg og fræðir okkur um samþykki, mörk og virðingu í kynlífi. 
Báðir fyrirlestrarnir verða í fyrirlestrasal skólans í hádeginu og byrja á slaginu 12:30

Árdagar að baki

Það var líf og fjör í FÁ í dag þegar tíu litrík lið nemenda þreyttu göngu á milli þrauta sem lagðar voru fyrir liðin. Samt engin þrautaganga, frekar skemmtiganga. Þátttaka var góð og allir glaðir. Það var fjólubláa liðið sem fékk flest stig og þar með vegleg verðlaun. Eina umkvörtunarefni nemenda var að það var ekki boðið upp á neina vegan-pizzu. Úr því verður bætt að ári. Myndir frá Árdögum má finna á Facebook - síðu skólans. Og núna er tónlistarhátíðin framundan, en hún verður haldin þann 7. mars.

Fyrsti Árdagur er í dag.

Í dag, 27. febr. eftir hádegi munu allir nemendur í FÁ safnast saman í Salnum og skipa sér í það  lið sem þeir hafa valið; rautt lið, blátt lið, grænt lið og hvaðeina og skipuleggja sig og skreyta fyrir morgundaginn en á morgun þurfa liðin að leysa þrautir, vonandi ekki of léttar, til þess að vinna sér inn stig. Keppninni á morgun lýkur klukkan 12 og þá verður öllum boðið upp á pítsur. Eftir staðgóða máltíð verður verðlaunaafhending þar sem það lið sem vinnur sér inn flest stig fær vegleg verðlaun. Ekki má gleyma aukaverðlaununum sem allir fá en nemendur geta fengir fjögur fjarvistarstig dregin frá fyrir hvorn dag, samtals átta stig svo það er til mikils að vinna.

Árdagar í aðsigi!

Nú verður gaman þessa viku. Nú verða Árdagar. Árdagar FÁ verða haldnir eftir hádegi miðvikudaginn 27. febrúar og fyrir hádegi fimmtudaginn 28. febrúar. Kennt er til kl. 12:30 miðvikudag. Dagarnir verða með svipuðu sniði og síðustu ár, þ.e.a.s. að nemendur skipta sér í lið og starfsmenn leggja fyrir þá þrautir. Eftir hádegi á miðvikudeginum munu nemendur „skreyta sig sjálfa“ í stað þess að skreyta stofur. Notast verður við liti og nemendur geta unnið með sína litasamsetningu.

Fyrir hádegi á fimmtudag, frá kl. 9:00 til 12:00 verður síðan keppni á milli liða. Starfsmenn verða í 10 stofum/rýmum þennan morgun og leggja þrautir fyrir liðin. Keppninni lýkur kl. 12:00 og þá verður öllum keppendum og starfsmönnum boðið upp á pítsur. Að því loknu er verðlaunaafhending.

Glæsilegri kvikmyndahátíð lokið

Það voru glæsileg verðlaun sem féllu í skaut sigurvegara Kvikmyndahátíðar framhaldsskólanna og sannarlega til mikils að vinna. Það var Hulda Heiðdal Hjartardóttir úr Borgarholtsskóla sem fór hlaðin verðlaunum enda fékk hún þrenn verðlaun fyrir myndina Skuggalönd, besta stuttmyndin, best leikna myndin og besta myndatakan. Geri aðrir betur. Myndin Ghosttbusters a fan film: Draugurinn eftir Andra Óskarsson úr þótti besta tæknilega útfærslan. Áhorfendaverðlaun féllu síðan í skaut Brynjari Leó og Gabríel Elí, annar úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og hinn Tækniskólanum. FÁ reið ekki feitum hesti frá kvikmyndahátíðinni í þetta sinn en í fyrra sópuðust verðlaunin til FÁ. Og svo kemur hátíð að ári.

Kvikmyndahátíð framhaldskólanna ´19

Það er bíó þessi helgi. Hátíðin verður sett kl. eitt á morgun laugardag og stendur fram til að verða fimm. Sama gildir um sunndaginn 17. janúar en þá lýkur hátíðinni með verðlaunaafhendingu. Fimm skólar eiga myndir á hátíðnni og er FÁ þar með alls sex myndir, Borgarholtsskóli sýnir fjórar, Ísfirðingar tvær og Fjölbraut Breiðholit og Menntaskólinn á Egilsstöðum eru með eina mynd hvor.

Það má enginn láta þessa hátíð fram hjá sér fara - um að gera að fylgjast með hvað er að gerjast og gerast í listrænu höfði okkar skapandi nemenda. Semsagt, takið frá dagana og bregið ykkur í gæðabíó.