Haustönnin hefst þann 15. ágúst

Haustönnin hefst þann 15. ágúst en þá opnast stundatöflurnar í INNU. Til að komast inn í INNU þarf annað hvort rafræn skilríki eða Íslykil. Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast rafræn skilríki er á https://www.audkenni.is/ og allt um Íslykil er hér https://innskraning.island.is/order.aspx.

Töflubreytingar verða fimmtudag 15. ágúst kl. 13:00 – 16:00 og föstudag 16. ágúst kl. 10:00 – 15:00. Einnig er hægt að senda beiðni um töflubreytingu á netfangið toflubreytingar@fa.is

Þann 14. ágúst eru á dagskrá fundir nýnema og foreldra þeirra með umsjónarkennurum. Nánari tímasetningar þessara funda eru í bréfi sem foreldrar/forráðamenn nýnema hafa fengið frá skólameistara.

Starfsfólk FÁ hlakkar til haustannar og býður alla nýja og gamla nemendur velkomna til starfa.

Blómatími - sumarlokun frá 24.júní - 7. ágúst

Nú er rólegt og friðsælt í Ármúlaskóla enda flestir úti að anga að sér blómailmi sumarsins. En þrátt fyrir sólartíð er skrifstofan ennþá opin en hún verður LOKUÐ vegna sumarleyfa frá 24.júní til og með 6.ágúst. Skrifstofan verður opnuð aftur miðvikudaginn 7.ágúst kl. 8.00

Útskrift klukkan 13 í dag

Vorið hefur farið um okkur mildum höndum og vonandi verður sumarið ljúft. Það sama má segja um þá nemendur sem í dag ná mikilsverðum áfanga í lífi sínu þegar þeir kveðja skólann sinn. Vonandi bíður þeirra allra farsælt líf, núna þegar ævisumar þeirra er að byrja.

Í dag útskrifast frá skólanum 118 nemendur og þar af 9 af tveimur brautum. 38 nemendur útskrifast af heilbrigðissviði, sem skiptast svo eftir námsbrautum: 4 útskrifast sem heilsunuddarar, 3 sem læknaritar, 2 sem lyfjatæknar, 10 sem tanntæknar og loks 19 sem sjúkraliðar. Frá nýsköpunar og listabraut útskrifast 4 nemendur. Stúdentar eru 75. 28 útskrifast af félagsfræðibraut, af náttúrufræðibraut útskrifast 13, af hugvísinda- og málabraut 9, af viðskipta- og hagfræðibraut útskrifast 6 og með viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu starfsnámi 19. Til viðbótar þessu útskrifast 9 nemendur af sérnámsbraut.

Gleðilegt sumar! Útskrift vorið 2019

Það var gleðileg athöfn í FÁ þegar 118 nemendur fengu skírteinin sín í hendur og ekki spilli góða veðrið fyrir. Góður rómur var gerður að ræðu 25 ára stúdentsins hennar Söru Daggar Svanhildardóttur og athöfninni var slitið með því að allir, starfsmenn, stúdentar og gestir og gangandi hófu upp raust sína og sungu Sumarkveðju eftir Inga T. Lárusson.

Í útskriftarræðu sinni hvatti Magnús Ingvason, skólameistari Fá nemendur til að einblína á styrkleika sína og vinna í veikleikunum. Ennfremur hvatti hann nemendur til að lifa lífi sem veitti þeim vellíðan og gleði, en ekki lífi sem bara lítur vel út. Lífið þyrfti ekki að vera fullkomið til að vera gott. Loks minnti hann nemendur á að lífinu fylgdi engin fjarstýring - maður þyrfti sjálfur að standa upp og gera hlutina.

Dúx skólans er Ástrós Ögn Ágústsdóttir sem útskrifast af Náttúrufræðibraut með 9,1 í meðaleinkunn.

Á facebook-síðu FÁ má sjá nokkrar myndir frá minnisverðri útskriftinni

Fjarnám FÁ fær gæðastimpil frá iCert

Í dag var skólanum formlega afhent vottunarskjal vegna gæðavottunar fjarnámsins. Það er vottunarstofan iCert sem er vottunaraðili og afhenti skólanum skjalið. Fjarnámið uppfyllir kröfur sem tilgreindar eru í staðlinum ÍST EN ISO 9001:2015.

Fjarnám FÁ er eina vottaða fjarnámið sem stundað er á Íslandi, en þetta ferli hefur tekið nánast 7 mánuði og margir lagt hönd á plóg. Öllum þeim eru færðar miklar þakkir.

Skráning í sumarönn fjarnáms FÁ hefst þann 25. maí.

FÁ er "Stofnun ársins 2019."

Fjölbrautaskólinn við Ármúla í 3. sæti í könnuninni Stofnun ársins 2019 og er það allnokkuð að fá bronsið í þessari könnun.
Alls voru 82 stofnanir í sama keppnisflokki og FÁ, þ.e.a.s. stofnanir með 50 starfsmenn eða fleiri.
Þegar litið er á einstaka flokka kemur m.a. í ljós að FÁ er talinn hafa besta Starfsandi allra stofnana. Einnig er eftirtektarvert að FÁ lenti í efsta sæti í flokkunum Ánægju og Stolti og Jafnrétti.

Það er von allra sem starfa við skólann að FÁ standi á verðlaunapalli um ókomin ár. Til hamingju FÁ með þennan glæsta árangur. FÁ er réttnefnd Fyrirmyndarstofnun ársins 2019.

Rúsínan í pylsuendanum

Í gær var öllum í skólanum boðið í pylsu með öllu í tilefni kennsluloka. Og í dag var síðasti kennsludagur - og allir pínuglaðir - hver hefði trúað því í janúar að þessi dagur rynni upp? En rúsínan í pylsuendanum er samt ekki gleypt því enn eru eftir nokkrir prófdagar en þeir líða eins og annað. Allt hefur sinn tíma, að borða pylsu hefur sinn tíma og að taka próf hefur sinn tíma. Og svo kemur sumarið fagnandi og alltelskandi sólin!

Hjólað í skólann 8.-28.maí

Á morgun, 8. maí, hefst vinnustaðakeppnin „Hjólað í vinnuna“ og er markmiðið með þessari keppni að fásem flesta starfsmenn skólans til að koma hjólandi, gangandi eða hlaupandi í vinnuna en líka má nýta sér línuskauta/hjólabretti eða láta strætó um að skutla sér í vinnuna. Keppninni lýkur þriðjudaginn 28. maí.

Hægt er að skrá sig á : http://www.hjoladivinnuna.is
Þar er fyrst valinn vinnustaður (Fjölbrautaskólann við Ármúla) og lið – eða stofna nýtt lið.

Búið er að stofna tvö lið „Alltaf með vindinn í bakið“ og „Gúmmíbirnir“.
Liðin keppa sín á milli um hjólaða kílómetra. Í tilefni þess að vinnustaðakeppnin Hjólað í vinnuna 2019 hefst á morgun, ætlum við að bjóða til samstigs á hjólhestum síðasta kennsludaginn, föstudaginn 10. maí. Lagt verður upp frá skólanum kl. 14.15 og stiginn hringur um Vesturbæinn og Seltjarnarnes og áð á Nauthóli.

Dimission kl. 10:20 í dag

Í dag ætla útskriftarnemendur á stúdentsbrautum að dimmitera. Samkvæmt hefðinni munu útskriftarefnin kveðja kennara og starfsfólk inni á Sal klukkan klukkan 10:20 og því engin kennslustund eftir kaffihléð. Nemendur eru hvattir til þess að fylla salinn og samfagna þem sem eru að kveðja skólann. Gaman, gaman.

Fimm fræknu.... ungir frumkvöðlar vinna til verðlauna

Þessi frækni hópur FÁ-nema hlaut verðlaun fyrir bestu fjármálalausnina á uppskeruhátíð Fyrirtækjasmiðju ungra frumkvöðla. 120 fjölbreytt nýsköpunarverkefni kepptu til verðlauna en liðið sem kallast "Ungdómur" hefur unnið baki brotnu í vetur við að útfæra verkefnið sitt sem snýr að fjármálafræðslu fyrir ungt fólk. Sannarlega verðugt verkefni og frábær árangur hjá þeim Eggerti Unnari Snæþórssyni, Gunnlaugi Jóhanni Björnssyni, Halldóri Degi Jósefssyni og Vilhjálmi Kaldal Sigurðssyni sem eru á myndinni en Igor Silva Ducamp sem líka tók þátt í verkefninu vantar á myndina.