Árshátíð nemenda

Síðasta fimmtudagskvöld héldu nemendur FÁ glæsilega árshátíð í sal skólans. Boðið var upp á veislumat frá Múlakaffi og Pétur Jóhann var kynnir kvöldsins. Skemmtiatriðin voru ekki af verri endanum; Karen Björg mætti með uppistand, starfsmannahljómsveitin ÚFF rokkaði og Tónsmiðja nemenda flutti ljúfa tóna. Dregið var í happdrætti um geggjuð verðlaun, og gestir flykktust linnulaust í myndabásinn - enda prúðbúnir samkvæmt þema kvöldsins "Hollywood glam". Kennarar og skólastjórnendur voru minna prúðbúnir, enda kvöldið nemendanna og hlutverk starfsfólks skólans að þjóna og þrífa. Loks flutti rúta gesti upp í Kópavog á skemmtilegt ball með FB og Tækniskólanum, þar sem hljómsveitin Stuðlabandið hélt uppi stuðinu fram eftir nóttu.

Viðbragðsáætlun Fjölbrautaskólans við Ármúla og Covid–19

Vakin er athygli á viðbragðsáætlun sem birt er á heimasíðu skólans . Þar er lýst réttum viðbrögðum við ógnunum svo sem náttúruvá, efnaslysum og smitsjúkdómum. Með áætlunni er verið að gera viðbragðsleiðbeiningar fyrir mismunandi vá.

Eins og kunnugt er hefur Ríkislögreglustjóri lýst yfir hættustigi á landinu vegna veirunnar COVID-19. Það er gert í samráði við sóttvarnarlækni og embætti landlæknis. Vegna þessa var kafla um leiðbeiningar fyrir skóla um varnir gegn sýklum hraðað og má finna hér . Frekari upplýsingar og leiðbeiningar útbreiðslu COVID-19 sýkilsins er að finna á vefsíðu embættis landlæknis á https://www.landlaeknir.is/

Nemendur og starfsmenn Fjölbrautaskólans við Ármúla eru hvattir til að kynna sér rækilega upplýsingarnar og fylgja ábendingum um varnir gegn smiti og grípa til aðgerða ef grunur um smit vaknar.

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna var haldin í 6. sinn um helgina. Að venju var skipulagning hátíðarinnar í höndum nemenda FÁ en þau Ragnheiður Sól, Matthildur Louise, Matthías, Krummi, Darri, Gísli Snær, Guðmundur Eyjólfur og Kristófer Máni, sem og kvikmyndakennarinn þeirra Þór Elís, eiga sannarlega hrós skilið fyrir glæsilega hátíð!

Metfjöldi stuttmynda barst keppninni í ár - alls frá nemendum sex framhaldsskóla - og að sama skapi var hátíðin afar vel sótt gestum. Leikstjórarnir Gaukur Úlfarsson og Ísold Uggadóttir, og leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir skipuðu dómnefndina og fóru úrslit svo:

Gleðipakkinn var valin besta stuttmyndin en að henni standa Tækniskólanemendurnir Gabríel Elí Jóhannsson og Einar Karl Pétursson. Gleðipakkinn hlaut einnig önnur af tveimur áhorfendaverðlaunum helgarinnar. Best tæknilega útfærða myndin þótti Ferðalok eftir Óðin Jökul Björnsson, nemanda Menntaskólans við Hamrahlíð. Samnemandi hans, Oddur Sigþór Hilmarsson, hlaut verðlaun fyrir bestu kvikmyndatökuna í myndinni Mansöngur. Loks voru svokölluð “Hildar verðlaun” veitt í fyrsta skipti fyrir bestu frumsömdu tónlistina, sem fóru einmitt til hennar Hildar Vöku Björnsdóttur, nemanda Menntaskólans við Hamrahlíð, fyrir tónlist í mynd hennar Capable.

FÁ fór ekki tómhentur frá borði en myndin Tvíræður eftir þá Hauk Tý Þorsteinsson og Guðmund Elí Jóhannesson var kosin önnur af tveimur uppáhaldsmyndum áhorfenda, og fékk einnig verðlaun sem best leikna myndin. Auk Hauks leika í myndinni þær Alex Ford og Carmela Torrini, en allir þessir nemendur hafa sett mark sitt á hina frábæru árlegu leiksýningu FÁ í umsjón leikstjórans Sumarliða Snæland.

Hver verðlaunahafi var leystur út með glæsilegum verðlaunum, en helst ber þar að nefna vikunámskeið hjá New York Film Academy.

FÁ sigraði lífshlaupið!

 

Lífshlaupið er þjóðarátak í hreyfingu þar sem skólar, vinnustaðir og einstaklingar etja kappi um sem mesta hreyfingu yfir ákveðið tímabil í febrúar. FÁ fékk tvenn verðlaun innan flokksins "framhaldsskóli með 400-999 nemendur" - en okkar nemar hreyfðu sig bæði flesta dagana og í flestar mínútur. Enda skólinn stappfullur af mögnuðu íþróttafólki!

Þau Íris og Samúel tóku á móti verðlaununum fyrir hönd skólans í dag.

FÁ hlýtur lýðheilsustyrk

Í vikunni tók Fjölbrautaskólinn við Ármúla, ásamt glæstum hópi, við úthlutun úr Lýðheilsusjóði. Við styrkveitingar þetta árið var áhersla lögð á aðgerðir sem efla forvarnir, kynheilbrigði, geðheilsu og vímuefnavarnir. Upphæðin sem FÁ tók við úr höndum heilbrigðisráðherra verður nýtt í allt ofangreint, þ.e. í fjölbreytta fræðslu til nemenda um þau fjölmörgu atriði sem ýmist ógna eða stuðla að heilbrigðu lífi ungmenna.
Takk fyrir okkur! 

Skólahald fellur niður 14. febrúar

Kæru nemendur,
Vegna óvenju slæmrar veðurspár og viðvarana frá Veðurstofu Íslands og Almannavörnum hefur verið ákveðið að aflýsa allri starfsemi í skólanum á morgun, föstudaginn 14. febrúar.Við hvetjum ykkur til að nota daginn í þágu námsins þó að skólahald falli niður. Gangi ykkur vel!

Skautaferð

Rúmlega 100 nemendur tóku sér pásu frá lærdómi eina kennslustund og skelltu sér saman í skautahöllina í dag. 

FÁ í undanúrslit Gettu betur!

Þau Jón Jörundur, Elínrós Birta og Þráinn voru skólanum sínum heldur betur til sóma í kvöld þegar þau sigruðu lið Fjölbrautaskólans í Garðabæ 28-20 í 8 liða úrslitum Gettu betur. FÁ er þar með komið í undanúrslit - í fyrsta skipti frá árinu 1996!

Kennaratap í Gettu betur

 

Gettu betur lið skólans mætir FG í 8 liða úrslitum annað kvöld í beinni útsendingu á RÚV. Til að hita upp mætti liðið sérvöldu kennaraliði skólans í hádeginu í dag, og skyldi engan undra að nemendur báru sigur úr býtum.

Hér má svo sjá kynningarmyndbandið um FÁ sem nemendur unnu að beiðni RÚV:  Kynning á FÁ

 

 

Gettu betur vika framundan

Föstudagskvöldið 7. febrúar mætir Gettu betur lið FÁ liði FG í sjónvarpssal. Keppnin verður í beinni útsendingu á RÚV kl. 20:10. Fyrir keppni hittist stuðningslið FÁ í skólanum, nærir sig og æfir baráttusöngva. Okkar fólk hitar upp daginn áður þegar það mætir kennaraliði FÁ í spurningakeppni í matsal í hádeginu. Þá verður öllum nemendum boðið upp á Kahoot-keppni í hádeginu á miðvikudeginum, auðvitað með Gettu betur þema.