Askur okkar allra - listsýning FÁ

Laugardaginn 28. apríl kl. 16-18, bjóða nemendur Nýsköpunar- og listabrautar Fjölbrautaskólans við Ármúla í Reykjavík til sýningar í Gallerí Tugt, en það gallerí er að finna í Hinu húsinu, Pósthússtræti 3-5, við hlið gömlu lögreglustöðvarinnar. Þar verða til sýnis lokaverkefni nemenda ásamt öðrum verkum sem nemendur hafa unnið um önnina. Vonandi sjá sem flestir sér  fært að mæta og ekki er verra að það er boðið upp á léttar veitingar. Sýningin verður opin til sunnudagsins 12.maí kl. 18.00 - Hlökkum til að sjá ykkur.

Hugið að umhverfinu

Í dag er dagur umhverfisins. Þá eiga menn að beina sjónum sínum að nánasta umhverfi sínu og sjá hvað betur má fara og laga.
Margt smátt gerir eitt stórt. Núna er tilvalið að tína upp rusl sem verður á vegi manns (við hvert fótmál) og koma þvi á réttan stað. Umgengni er innri maður, það upplyftir andanum og göfgar sálina að hafa hreint í kringum sig. Allt er breytingum undirorpið. Meðfylgjandi mynd er tekin árið 2004 - finnið fimm breytingar sem orðið hafa síðan myndin var tekin.

Jafnréttisdagar FÁ

Jafnréttisdagar FÁ fara fram dagana 24. og 25. apríl. Í tilefni þeirra verður opin dagskrá í fyrirlestrarsal skólans og allir hjartanlega velkomnir.

24. apríl: Dagskrá hefst kl 12:15 - 13:00: 
Sunna Líf Kristjánsdóttir, nemandi við Menntaskólann við Hamrahlíð, flytur fyrirlestur um birtingarmyndir nauðgunar.

Namjo Fiyasko, nemandi við Fjölbrautaskólann við Ármúla, flytur erindi.

25. apríl - Dagskrá hefst kl 12:00 - 13:00:
Sigga Dögg, kynfræðingur, flytur fyrirlestur um framtíð kynlífs.

Gleðilegt sumar

Vorvísa eftir Halldór Laxness

Hve bjart er veður,
 og blómið glatt er morgundöggin seður.
 Ó græna lífsins land!
 Ó lífsins Grænaland, ó lands míns gróður,
 leyf mér að elska þig og vera góður.

 Hve margt sem gleður.
 Í gljúpri lækjarseyru smáfugl veður.
 Ó dýra lífsins land!
 Ó lífsins Dýraland, ó land míns bróður,
 hvers lítils fugls, og draumur vorrar móður.

Nú er tími til að tengja

Í dag, seinasta vetrardag, voru tveir hleðslustaurar fyrir rafmagnsbíla  teknir í gagnið við FÁ. Andrúmsloftið var spennu þrungið þegar klippt var á borðann því nú verður auðveldara að mæta í skólann á hljóðlausum bíl sem nýtir sér íslenska orku. Ætli FÁ sé ekki einn fyrsti framhaldsskólinn til þess að koma sér upp staurum? Þess má geta að hleðslustöðvarnar eru jafníslensk framleiðsla og rafmagnið.

Umhverfisdagar 16.-18. apríl

Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag í næstu viku standa nemendur í Umhverfisráði fyrir umhverfisdögum. Eins og undanfarin ár fá þeir nemendur sem taka þátt í viðburði (yfirleitt kl. 11.30 en einn er kl. 13.00) námsleyfi í kennslustund ef við á. Kynnið ykkur dagskrána. Einnig má benda á það hvað það gerir sálinni gott að tína upp rusl á leið í og úr skóla. Margar hendur vinna létt verk.

Glæpahneigð á sal

Á morgun, 12. apríl verður áhugaverður fyrirlestur á sal skólans. Þá mun Guy Sutton, sem er yfirmaður lyfjalíffræðideilar við háskólann í Nottingham, flytja erindi sem kallast „the criminal mind“ eða hinn glæpahneigði hugur. Fyrirlesturinn hefst klukkan 10:40 og það hlýtur mörgum að leika forvitni á að fá að vita hvað hann ætlar að fræða okkur um. Er hægt að nota taugalíffræði og taugameinafræði við lögreglustörf? Er til eitthvað sem kalla má meðfædda glæpahneigð? Kannski verðum við einhvers vísari um það á fyrirlestrinum?

Nemendaráð sjálfkjörið!

Kosningar til nemendaráðs fara EKKI fram á morgun því að frambjóðendur reyndust einmitt mátulega margir til að vera sjálfkjörnir. Það eru því aðeins skuggakosningarnar á morgun, þið munið það sem áður hefur komið fram, kosningarétt hafa þeir sem fæddir eru 30. maí 1996 og síðar.

Skuggakosningar 12. apríl

Á morgun, 11. apríl, munu stjórnmálamenn mæta á Sal kl. 11.30 og svara spurningum um sveitastjórnarkosningarnar sem haldnar verða þann 26. maí. Skuggakosningarnar sjálfar verða fimmtudaginn 12. apríl; allir sem eru fæddir eftir 28. apríl 1995 eru á kjörskrá en verða að mæta með skilríki því til sönnunar. Ekki verða aðeins Skuggakosningarnar haldnar heldur verður einnig kosið í stjórn nemendafélagsins (NFFÁ) fyrir næsta ár. Það er borgaraleg skylda að taka þátt í kosningum. Allir að mæta.

Borgarstjóri í stofu M301

Í dag, 6. apríl, mætti borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson í stjórnmálafræðitíma hjá Róbert Ferdinandssyni og nemendum hans. Urðu það fróðlegar og skemmtilegar umræður um gagn og nauðsynjar borgarbúa. Það er ekki að efa að heimsókn borgarstjóra hafi kveikt áhuga nemenda á borgarmálefnum og það er mikilvægt fyrir ungt fóllk að fylgjast með hvernig framtíðin er mótuð og helst að reyna að móta hana líka.