Áhugaverður fyrirlestur

Helgi Gíslason myndhöggvar sem lengi kenndi við myndlistabraut FB heldur fyrirlestur í FÁ í dag, föstudaginn 17.nóvember klukkan 11.00. Helgi hefur haft að viðfangsefni að greina mannslíkamann á grunni módelteikningar og byggir það jafnframt á þekkingu sinni sem myndhöggvari. Helgi mun fjalla um það hvernig módelteikning og teikning mannslíkamans er grunnur í listum, hönnun og arktitektúr þar sem rannsóknarferli er fylgt í gegnum teikningu. 

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er haldið upp á Dag íslenskrar tungu. En þennan dag, 16. nóvember 1807 fæddist listaskáldið góða að Hrauni í Öxnadal. Þótt allir dagar séu að sjálfsögðu dagar íslenskrar tungu þykir við hæfi að tileinka móðurmálinu þennan dag til þess að fagna fjölbreytileika og fegurð íslenskunnar.Það á að vera kappsmál hvers manns að leika sem fegurst á þá hljómfögru hörpu sem móðurmálið okkar er, ekki spilla hljómum með óþarfa slettum eða fölskum tónum orðskrípa. 

Íslands minni (samið 1839)

Þið þekkið fold með blíðri brá
og bláum tindi fjalla
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla –
drjúpi’ hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.

Hæfileikafólk í FÁ - nú er tækifærið

Ennþá eiga einhverjir eftir að velja fyrir vorönn og velkjast í vafa. En þá kemur Sumarliði til bjargar! Hann ætlar semsagt að setja upp leiksýningu í vor og það vantar áhugasamt hæfileikafólk svo að draumur Sumarliða verði að veruleika. Það er leitað að hljóðfæraleikunum, söngvurum, sviðsfólki og þúsundþjalasmiðum í leikmyndasmíði. Þá vantar tæknifólk, saumafólk sem kann að búa til leikbúninga og alls konar annað hæfileikafólk, til dæmis í sjoppu og auglýsingar. Og rúsínan í pylsuendanum er að öll þessi skemmtun við að setja upp sýningu gefur EININGAR! Valið auðvelt. Skrá sig núna.

Stöðupróf 22. nóvember

Nú stendur til boða að taka stöðupróf í dönsku, ensku, frönsku, spænsku og þýsku. Prófin eru ætluð fyrir þá sem telja sig hafa það mikið vald á málunum að þeir geti skeiðað yfir fyrstu áfangana og byrjað í efri áföngum. Þeir sem hafa áhuga á að þreyta stöðupróf skyldu hafa samband við viðeigandi tungumálakennara til þess að fá gleggri upplýsingar. Skráning er á skrifstofu til og með 10. nóvember

Fjallið bíður þolinmótt

Á morgun, laugardag, ætla hetjurnar í fjallgöngu- og útivistarhópi FÁ að sigra Stóra-Meitil í þrengslum. Þetta er 521 metra hátt fjall og ofan á því er tilkomumikill gígur sem gaman er að sjá. Gönguhækkkun er rúmir 200 metrar og gönluleiðin um 5 km. Það er spáð góðu veðri á morgun, smá frosti með golu. Farið verður frá skólanum stundvíslega klukkan 9.00 og heimkoma kl. 14.00 ef Guð lofar.

Allt í rusli

Það eru brögð að því að sumir átti sig ekki á hvaða rusl á heima í hvaða tunnu. En þetta er einfalt:

a) Bláu plastkassarnir í kennslustofunum eru eingöngu ætlaðar fyrir pappír.
b) Ruslatunnur við vaska í sumum stofum (S og A-álmu) eru eingöngu fyrir handþurrkur.
c) Ál má fara með plasti í grænu tunnuna.
d) Svarta tunnan á horni N- og M-álmu er eingöngu fyrir það sem ekki á að fara í hinar tunnurnar. Allt rusl sem ekki má endurvinna.

 Nemendur í umhverfisráði eru að vinna að nýjum leiðbeiningum til að setja á tunnulokin og nýjar tyggjódósir að  komast í gagnið.

FÁ-Varpið - FM106,1

FÁ-VARPIÐ FM106,1 verður á sínum stað á þessari önn og útsending hefst í dag 30.okt. og stendur fram til 3.nóv (mán-föst). Nú er tækifærið til að láta til sín heyra. Allir sem vilja taka þátt eru meira en velkomnir til þess að setjast fyrir framan hljóðnemann og útvarpa hugaðarefnum sínum, hvort sem það er tónlist eða rapp, frumsamin ljóð eða smásögur. Svo er líka hægt að vera með viðtöl. Útvarp er góð leið til að láta vita af sér. Stillið á FÁ-varpið, FM106,1

Dagur myndlistar er í dag

Dagur myndlistar er í dag, og verður haldinn hátíðlegur frá kl. 11:35 - 12.45  í fyrirlestrarsal Fjölbrautaskólans Ármúla. Markmið “Dags Myndlistar” er veita ungu fólki innsýn í það viðamikla starf sem felst í því að vera myndlistarmaður og bæta þannig grunnþekkingu á faginu. Allir sem láta sig myndlist varða ættu að mæta á kynninguna. María Kjartans myndlistarmaður  https://www.facebook.com/mariakjartans kemur í heimsókn til okkar en hún er mjög hæfileikaríkur listamaður sem vinnur mikið með kvikmyndamiðilinn og ljósmyndir í tengslum við tónlist og ætti sennilega vel að ná til allra. Það er skyldumæting fyrir alla nemendur sem eru á Nýsköpunar – og listabraut.  Nemendur munu vinna verkefni í tengslum við heimsóknina.  

Veturinn mættur

Í dag er fyrsti vetrardagur. Gormánuður byrjar. Sólin kom upp klukkan 08:40 og leggst til hvílu 17:47.Í gær var námsmatsdagur og á mánudaginn verður vetrarfrí. Það er langt liðið á önnina og nú ríður á að taka góðan endasprett og ekki láta hugfallast þótt hríðin berji á gluggana á myrkum vetrarmorgni. Jafnframt er gott að fara að huga að náminu næstu önn; nú er búið að opna fyrir val í INNU. Vali fyrir vorönn verður að vera lokið 10. nóvember.

Ekki leifa! Klárið matinn!

Nú á að finnna út hversu mikil matarsóunin er í skólanum og hvernig má hjálpa til við að draga úr henni. Þessi athugun er unnið í samstarfi við Krúsku sem rekur mötuneyti skólans og veit því hve margir matarskammtar eru seldir daglega. Nemendur sem standa að verkefninu munu sjá um að vigta það sem fer í lífrænu fötuna eftir morgunmat og síðan aftur eftir hádegismat til að komast að raun um hversu miklu magni er hent miðað við selda matarskammta. Mælingar fara fram nú í vikunni frá mánudegi 16. október til fimmtudags 19. október. Síðan er ætlunin að vigta aftur í seinustu vikunni í október til að sjá  hvort og hversu mikil áhrif þetta átak hefur haft á matarsóun....(meira)...