Eru ekki allir búnir að velja?

Á morgun, 7. apríl eiga allir að vera búnir að velja fyrir haustönnina. Ef menn eru ennþá að velkjast í vafa má víða sjá freistandi auglýsingar uppi á veggjum skólans þar sem kostir áfanganna eru áréttaðir. Það getur til dæmis enginn verið í vafa um að tungumálakunnátta sé mjög til blessunar þeim sem læra.

Kunsten at undervise og lære

Á þriðjudaginn var brá Gerður Hannesdóttir í dönskunni undir sig betri fætinum ásamt nemendum sínum í dönsku og þau fóru að skoða Listasafn Ásgríms Jónssonar við Bergstaðastræti. Á safninu stendur yfir sýning sem ber yfirskriftina "Ógnvekjandi náttúra" og vafalaust hefur Gerður kveikt áhuga nemenda sinna á listamanninum góða. Allt fór þetta fram á dönsku, því eðla máli, og hefur ekki verið amalegt að tala um hina harðgerðu náttúru Íslands á hinni dæilegu dönsku. Listasafn Ásgríms Jónssonar

Frumkvöðlar FÁ vinna gull

Á laugardaginn var haldin Vörumessa ungra frumkvöðla í Smáralind, yfir 300 framhaldsskólanemendur sem stofnað hafa 63 örfyrirtæki  voru þar til að selja og sýna afrakstur sinn eftir nám í nýsköpun og viðskiptahugmyndum. Í FÁ sýndu sex lítil fyrirtæki hönnun sína en það var hópurinn KatlaCosmetics, með baðbomburnar sínar sem innihalda kollagen sem er unnið úr fiskiroði og beinum, sem hreppti gullið fyrir "Besta Sjó-Bisnessinn". Eliza Reid forsetafrú og Þór Sigfússon, forstjóri Sjávarklasans veittu verðlaunin...

Elísabet Marteinsdóttir sigurvegari Tónlistarkeppni NFFÁ

Leikar fóru þannig að dómnefndin valdi Elísabetu Marteinsdóttur í fyrsta sæti, Alexendöndru Ýri í annað sæti og Birtu Birgisdóttur í þriðja sæti en Birta á þann heiður að vera fyrrverandi vinningshafi í keppninni. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um þessa bærilegu skemmtun og myndir og vídeóbúta má finna á Facebook-síðu skólans.

Tónlistarkeppnin er í kvöld!

Spennan fer sívaxandi fyrir kvöldið. Hver verður tónlistardrottning eða -kóngur FÁ? Það kemur í ljós í kvöld.
Húsið verður opnað klukkan sjö en keppnin hefst klukkan hálf átta. Hver eða hvað vinnur? Verður það þungarokk? Hipphopp og rapp eða hljómþýður rytmogblús? Kannski mildur ljóðasöngur eða grátandi blús? Það fáum við að vita í kvöld og líka hver fer heim með verðlaunin fyrir mestu fórnina á altari heilagrar Sesselju.

Mun þakið fjúka af FÁ?

Núna á fimmtudaginn fer fram söngkeppni nemendafélagsins hér í FÁ. Þátttaka er mjög góð; 19 flytjendur eru skráðir til leiks og má búast við hörkukeppni enda til mikils að vinna. Enginn með viti skyldi láta þennan viðburð fram hjá sér fara. Húsið verður opnað kl. 19 en sjálft dúndurfjörið hefst kl. 19:30

Umhverfisdagar í FÁ - 28.-30. mars

Dagana 28.-30. mars verða Umhverfisdagar í FÁ. Það eru nemendur undir stjórn Bryndísar Valsdóttur umhverfisfulltrúa sem sjá um framkvæmdina og ekki að efa að þátttaka verði góð enda umhverfið mál okkar allra. Verum öll þátttakendur og mótum okkur stefnu er varðar sjálfbærni og umhverfi, björgum jörðinni frá sjálfum okkur! Munum að við erum ekki seinasta kynslóðin sem gengur um á jörðinni.

(sjá dagskrá)

Nemendur FÁ fyrir Hæstarétti

Í gær, 22. mars, fóru nemendur í Lögfræði á viðskipta- og hagfræðibraut FÁ í heimsókn í Hæstarétt.Nemendur höfðu bæði gagn og gaman að því að kynna sér starfsemi réttarins og gátu nýtt sér þekkingu sína úr áfanganum til þess að spyrja gagnlegra spurninga og afla sér betri þekkingar á  hvernig dómurinn starfar. Þá gafst nemendum færi á að skoða þessa tignarlegu byggingu í krók og kima og aldrei að vita nema einhver þeirra eigi eftir að setjast í dómarasæti þegar fram líða stundir?

„Að efla ungling“

Foreldraráð FÁ ásamt skólayfirvöldum býður til fræðslu-fyrirlestrar miðvikudaginn 22. mars kl. 19:30-20:30 í fyrirlestrar-sal skólans. Fyrirlesarinn er Matti Ósvald Stefánsson M.Th.-NLP Pr. heilsuráðgjafi og alþjóðlega vottaður ACC markþjálfi. Hann mun í erindi sínu fjalla um góð og uppbyggileg samskipti, hvað er það dýrmætasta sem gefa má unglingnum og innri kröfur ungs fólks og hvað er til ráða. Foreldrar nemenda eru hvattir til að fjölmenna og eiga samræðu um uppeldi og styrkingu unglinga.

Opið hús í dag - kynning á FÁ

Opið hús verður í dag í Fjölbrautaskólanum við Ármúla frá kl. 16:30 til 18:30. Kynning á námsbrautum skólans, bóknámi og þriggja ára stúdentsbrautum, starfsnámi í heilbrigðisgreinum, fjarnámi, aðstöðu og félagslífi nemenda. Áhugasamir eru hvattir til að heimsækja skólann, 10. bekkingar og foreldrar þeirra eru sérstaklega boðnir velkomnir