Fjarnám - skráningu lýkur á morgun, 5. september

Enn er tími til þess að skrá sig í fjarnám við FÁ - skráningu lýkur á morgun, 5. september en önnin hefst þann 7. september. Fjöldi áfanga er í boði - ekki láta tækifærið úr greipum ganga.
Sjá nánar á heimasíðu skólans: Fjarnám

Námskeið: Gagnlegar venjur

Það tekur skamma stund að koma sér upp ósiðum eða ljótum óvana. En betra er samt að tileinka sér góða siði og GAGNLEGAR venjur. Það er haft fyrir satt að leiðin til Heljar sé lögð góðum áformum en nú er okkur borgið. Námskeiðið GAGNLEGAR VENJUR verður haldið mánudaginn 4. sept. og miðvikudaginn 6. sept. frá klukkan 12:35 til 13:00 og því ættu allir sem þurfa að geta sótt sér fræðslu um gagnlegar venjur. Fræðslan fer fram í stofu M201 - sannkallað tækifæri til farsældar og frama í lífinu.

Nýnemaferð 1. september

Í dag, 30.ágúst, var nýnemadagur og nýnemar boðnir velkomnir í skólann. En föstudaginn 1. september verður haldið upp í spennandi ferð eitthvað út í buskann, og ENGINN nýnemi í FÁ mun láta sig vanta í þá reisu sem vonandi verður eftirminnileg. Mæting er á Steypunni í seinasta lagi kl. 8:15 og rútan rennur úr hlaði klukkan 8:30. Þótt veðrið verði öruggglega upp á sitt besta er samt allur varinn góður og því er ráðlegt að taka með sér AUKAFÖT í poka og einnig að útbúa létt nesti til að narta í á leiðinni. Heimkoma er áætluð um tíuleytið um kvöldið.

Skólinn kominn á flug

Nú þegar vika er liðin frá skólabyrjun er allt að komast í gott far, nýnemar búnir að læra hvar kennslustofurnar er að finna og námið að komast í fastar í skorður, nú er um að gera að halda vel á spöðunum, moka inn þekkingunni jafnt og þétt og láta aldrei deigan síga. Iðjusemi skilar ávexti.....(meir)

Greiðsluseðlar vegna náms á haustönn 2017

Núverandi nemendur FÁ eiga að vera búnir að fá kröfu skólagjalda í heimabanka en eindagi er 9. júní næstkomandi. Það er afar mikilvægt að greiða skólagjöldin á tíma þar sem greiðsla er staðfesting á skólavist á haustönn. Greiði nemandi ekki kröfuna er litið svo á að hann ætli ekki að þiggja skólavist á haustönn.


Vorútskrift Fjölbrautaskólans við Ármúla

Laugardaginn 27. maí fór fram vorútskrift Fjölbrautaskólans við Ármúla og var það fríður flokkur sem nú lauk námi sínu í hinum ýmsu greinum. Brautskráðir voru 116 nemendur af 13 námsbrautum, þar af 10 nemendur af tveimur námsbrautum. Dúx skólans af bóknámsbrautum var Hilmar Snorri Rögnvaldsson nýstúdent af náttúrufræðibraut. Hann fékk jafnframt viðurkenningu fyrir mjög góðan námsárangur í raungreinum og þýsku. Í heilbrigðisskólanum fékk Þrúður Arna Briem Svavarsdóttir viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur en hún var dúx útskriftarnemenda í heilbrigðisgreinum (meira...)

Brautskráning í dag klukkan 13.00

Í dag, laugardaginn 27. maí, klukkan 13.00 er komið að brautskráningu nemenda frá FÁ. Það er alltaf hátíðleg stund þegar nemendur sem svo lengi hafa verið hluti af skólalífinu, kveðja skólann og halda hver í sína áttina til að takast á við verkefni framtíðarinnar. Við skulum óska þeim velfarnaðar á lífsins vegi og vona að þeir verði sjálfum sér og þjóðfélaginu til sóma, alveg eins og þeir hafa verið skólanum til sóma þau ár sem þeir stöldruðu við í FÁ.

Dagskrá brautskráningarinnar má sjá með því að smella hér.

Fyrirmyndarnemendur á vorönn 2017

Við vitum að hver einasti nemandi við FÁ er einstakur en svo eru það þeir sem eru einstakari en aðrir, eru til fyrirmyndar fyrir einstakan námsárangur. Og þeir eru ekki fáir sem kalla má fyrirmyndarnemendur og hafa greinilega lagt hjarta og hug í námið. Fyrirmyndarnemendur njóta vissra hlunninda eins og sjá má ef smellt er á þessa vefslóð.

Smelltu hér til að sjá nöfn nemenda í dagskóla og fjarnámi sem fengu viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur.

Námsstyrkur til ungra kvenna

Bandalag kvenna í Reykjavík auglýsir eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna fyrir skólaárið 2017-2018. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.
Umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu bandalagsins, www.bkr.is .
Umsóknir um styrki skal senda til Bandalags kvenna í Reykjavík,
Túngötu 14, 101 Reykjavík, merktar „Námsstyrkir“ eða í tölvupósti á bandalagkvennarvk@gmail.com.
Umsóknarfrestur er til 19. júní.

Prófasýning í dag kl. 11-13

Prófasýning og frágangur á vali fyrir haustönn 2017 er í dag, 23. maí. kl. 11:00 – 13:00.
Endurtektarpróf eru kl. 9:00 og vonandi hrasar enginn þar.

Auk þess verður Costco opnað í dag. - Er þá getið helstu tíðinda.