Freyr, nemandi í FÁ vann alþjóðlega ljósmyndsamkeppni

 

Freyr Thors, nemandi í FÁ vann í vikunni verðlaun fyrir ljósmyndina sína “We don´t care, do you? “ í alþjóðlegri ljósmyndakeppni á vegum Umhverfisstofnunar Evrópu.

Freyr tók þátt í samkeppni í vor á vegum Landverndar sem ber heitið Umhverfisfréttafólk og snýst um að koma umhverfismáli að eigin vali á framfæri við almenning með fjölbreyttum leiðum. Þar varð mynd Freys í öðru sæti í flokki framhaldsskólanema. Var myndin síðan send út í alþjóðlegu keppnina fyrir Íslands hönd.

Um 495 þúsund nem­end­ur frá 43 lönd­um taka þátt í keppn­inni ár­lega og er hægt að vinna til verðlauna í nokkr­um flokk­um. Myndin hans Freys vann í flokknum Young European Reporters (YER) í flokki ljósmynda: Single photo campaign 11 - 25 years.

Ljós­mynd­in sem Freyr tók er ætlað að tákna tor­tím­andi neyslu mann­kyns. „Karakt­er­inn á að tákna græðgi mann­kyns og viðhorf til plán­et­unn­ar, samþjappað í einn karakt­er, eða ein­hvers­kon­ar veru“.

Verðlaun­in eru mik­ill heiður fyr­ir Frey, ljós­mynda­kenn­ar­ann Je­ann­ette Casti­o­ne og fyr­ir Land­vernd/​Græn­fán­ann sem stend­ur fyr­ir keppn­inni hér­lend­is með verk­efn­inu Um­hverf­is­frétta­fólk.

Við óskum Frey hjartanlega til hamingju með sigurinn!

 

Ítalskur skiptinemi í FÁ

Í vetur höfum við verið svo heppin hér í FÁ að hafa hjá okkur frábæran skiptinema frá Ítalíu, hana Francescu. Hún hefur verið ótrúlega dugleg og virk, bæði í náminu og félagslífinu og tók hún meðal annars þátt í söngkeppni FÁ. Við vildum því heyra aðeins í henni og fá að vita hvernig árið hafi verið hér á Íslandi og í FÁ.

Francesca er 17 ára gömul og kemur frá Mílanó á Ítalíu. Við vorum forvitin að vita af hverju hún hafi viljað gerast skiptinemi og af hverju hún valdi Ísland. Hana langaði til að vera skiptinemi til að upplifa nýja hluti og læra á nýja menningu og nýtt tungumál. Hún vildi fara til lands sem var kalt og væri með tungumál sem hún þekkti ekki. Svo vildi hún fara til lands sem hún þekkti ekki vel, með menningu sem er allt öðruvísi en hún er vön. Ísland varð fyrir valinu og sér hún ekki eftir því.

Lesa meira.

Fjarnám í sumar

Skráning á sumarönn í fjarnámi við FÁ er hafin og varir til 7. júní. 

Önnin hefst 9. júní og lokapróf eru frá 9. – 15. ágúst

Fjölmargir áfangar eru í boði sem má sjá hér .

Nánari upplýsingar um fjarnámið má sjá hér.

Skráning fer fram hér .

GAIA - Erasmus verkefni

FÁ tók þátt í Erasmus-verkefninu GAIA með framhaldsskóla í Frakklandi en verkefnið byrjaði á vorönn 2022 og lauk nú í vor 2023. Alls tóku 15 nemendur þátt frá FÁ og 15 franskir nemendur. Það voru svo fjórir starfsmenn frá hvorum skóla sem unnu að verkefninu. Lesa meira

Útskrift FÁ vor 2023

 

Í dag var hátíðlegur dagur í FÁ þegar skólinn útskrifaði alls 109 nemendur og þar af 12 af tveimur brautum.

Stúdentar eru 66. 12 útskrifuðust af félagsfræðibraut, 4 af íþrótta- og heilbrigðisbraut, 5 af náttúrufræðibraut, 24 af opinni braut, 4 af viðskipta- og hagfræðibraut og 17 með viðbótarnám að loknu starfsnámi.

Frá nýsköpunar- og listabraut útskrifuðust 2 nemendur.

46 nemendur útskrifuðust af heilbrigðissviði sem skiptast svo eftir námsbrautum: 20 útskrifast sem sjúkraliðar, 2 af heilbrigðisritarabraut, 2 af lyfjatæknabraut, 9 af tanntæknabraut og loks 13 af heilsunuddbraut.

Einnig útskrifuðust í dag 7 frábærir nemendur af sérnámsbraut.

Dúx skólans er Óli Þorbjörn Guðbjartsson, stúdent af viðskipta og hagfræðibraut með meðaleinkunn 9,2.

Viðurkenningu fyrir frábæran árangur í sérgreinum tanntækna fá tveir nemendur að þessu sinni, þær Eva María Káradóttir og Kamilla Björg Kjartansdóttir. Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur í sérgreinum sjúkraliðabrautar fá þrír nemendur, þær Guðrún Guðmundsdóttir, Hildur Karen Benediktsdóttir og Pandora Riveros.

Magnús Ingvason skólameistari og Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari fluttu ávörp og fóru yfir liðna önn.

Krista Karólína Stefánsdóttir flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftanema og Logey Rós Waagfjörð flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftarnema Heilbrigðisskólans.

Tveir farsælir starfsmenn skólans til margra ára voru kvaddir, þeir Halldór Gísli Bjarnason sérkennari og Þorsteinn Barðason jarðfræðikennari.

Tónlistarflutningur við athöfnina var í höndum nemenda í tónlistaráfanga skólans. Lauk síðan athöfninni með hátíðlegum samsöng allra viðstaddra á laginu Vikivaki eftir Jóhannes úr Kötlum við undirleik nemenda í tónlistaráfanga skólans og Þorbjörns Helgasonar.

Við óskum útskriftarnemum til hamingju með áfangann og óskum þeim bjartrar framtíðar.

Fleiri myndir má sjá hér á Facebook síðu skólans.

Myndir frá útskrift.

Myndir frá útskrift sérnámsbrautar.

Myndir frá útskrift Heilbrigðisskólans.

Útskrift 20. maí

 

Útskrift Fjölbrautskólans við Ármúla á vorönn 2023 mun fara fram í hátíðarsal skólans, laugardaginn 20.maí kl. 13.00.

Æfing fyrir útskrift verður föstudaginn 19.maí kl. 16.00

 

 

Umhverfisfréttafólk - FÁ í öðru sæti

 

Á ári hverju býðst ungu fólki í grunn- og framhaldsskólum að taka þátt í samkeppni á vegum Landverndar. Samkeppnin ber heitið Umhverfisfréttafólk og snýst um að koma umhverfismáli að eigin vali á framfæri við almenning með fjölbreyttum leiðum.

Fjölmörg verkefni bárust í keppnina, voru þau af ólíkum toga og komu frá skólum víðsvegar af landinu.

Freyr Thors nemandi í FÁ varð í öðru sæti í keppninni með ljósmyndina “We don't care, do you?“

Hér má sjá umsögn dómnefndar um verkið: Skapandi gjörningur og kraftmikil nálgun á stórt og erfitt viðfangsefni á veraldarvísu. Myndin er einföld, afhjúpandi og sterk með marglaga skilaboð um neysluhyggjuna og vanmátt manneskjunnar gagnvart eigin breyskleika. Myndin fjallar um græðgi, sóun og ábyrgð og ábyrgðarleysi. Verkið er sláandi og hugvekjandi með djúpri hugsun og beittri sýn. Sannleikurinn berskjaldaður og einlægur. Verkið er listrænt og frumlegt og listamaðurinn sýnir áræði og sjálfstæði.

Hér má sjá fleiri úrslit í keppninni

Innilegar hamingjuóskir Freyr.

 

Annarlok - mikilvægar dagsetningar

 

Senn líður að ann­ar­lokum og viljum við því minna ykkur á nokkur mik­ilvæg atriði.

12.maí - Síðasti kennsludagur en nánari upp­lýs­ingar um skipulag hvers áfanga má finna á Innu.

15. maí - Sjúkrapróf/ uppsóp.

17.maí - Einkunnir birtast í Innu.

17. maí - Prófsýning og viðtöl vegna námsmats kl. 12:00 – 13:00.

19.maí - Upptökupróf fyrir útskriftarefni kl. 9:00.

19. maí - Æfing fyrir útskrift kl. 16:00.

20. maí - Útskrift í hátíðarsal skólans kl. 13:00.

Nám á næstu önn. Allir nem­endur sem halda áfram námi á næstu önn eiga að vera búnir að velja. Greiðsluseðlar verða sendir út eftir útskrift.

Gangi ykkur sem allra best á loka­sprett­inum.

 

Nemendur búa til tölvuleiki

 

Undanfarnar vikur hafa nemendur í leikjahönnun (TÖHÖ2LH05) unnið í lokaverkefnum þar sem markmiðið er að þróa sína eigin leikjahugmynd og útfæra hana sem “prótótýpu” eða frumgerð. Í áfanganum búa nemendur til nokkra einfalda smáleiki yfir önnina og enda svo á stærra verkefni þar sem hver og einn fær tækifæri til að spreyta sig á sínu áhugasviði.

Fjögur lokaverkefni eru nú til sýnis á netinu og eru þau skemmtilega fjölbreytt. Í tölvuleiknun Mage Slayer þarf spilarinn að sigra þrjá endakalla sem hafa mismunandi krafta, í Gissur: The Siege Of Grugga hefur nornin Grugga skipulagt heimsyfirráð og getur enginn stöðvað hana nema sjálfur Gissur! Myrkrið er allsráðandi í Hiding in the dark þar sem ógnvænlegir hlutir leynast víða og síðast en ekki síst fylgjum við ævintýraför riddarans í leiknum Journey of the Knight.

Hægt er að spila leikina í tölvu hér.  Nemendur skólans geta notað tölvurnar í N-álmu til að prófa leikina.

Leikina gerðu Arnór Ingi, Elvar Örn, Sölvi Snær, Míkha, Krummi og K-Crew.

Hér má sjá sýnishorn úr lokaverkefnunum.

 

Ný námsbraut í FÁ, Heilbrigðisvísindabraut

 

Frá og með næstu önn, haustönn 2023 verður í boði glæný námsbraut hér í FÁ, Heilbrigðisvísindabraut. Tilgangur brautarinnar er að undirbúa nemendur undir nám á háskólastigi í heilbrigðisgreinum og er þá sérstaklega horft til undirbúnings fyrir samkeppnispróf í hjúkrunarfræði og fyrir inntökupróf lækna-, sjúkraþjálfunar- og tannlæknadeildar. Heilbrigðisvísindabrautin er 200 eininga bóknámsbraut sem lýkur með stúdentsprófi og skiptist hún í tvær línur; hjúkrunarlínu og lækna-, tannlækna- og sjúkraþjálfunarlínu.

Við teljum að hér sé á ferðinni einstök braut, fyrsta sinnar tegundar á landinu þar sem við erum svo heppin að geta nýtt okkur sérhæfða áfanga frá Heilbrigðisskólanum. Er það von okkar að nemendur sem stefna á nám í heilbrigðisgreinum eigi eftir að nýta sér brautina í framtíðinni.

Hér má nánari upplýsingar um brautina.