Fjarnám

 

Kæru fjarnámsnemendur!

Takk fyrir önnina sem nú er á enda.

Skráning á vorönn 2023 hefst 28.desember og stendur til 18. janúar.

Kennsla hefst 25.janúar.

Fjölmargir áfangar í boði, sjá hér.

 

Útskrift frá FÁ

Í gær, laugardaginn 17.desember var hátíðlegur en snjóþungur dagur í FÁ þegar skólinn útskrifaði 75 nemendur af 9 brautum og þar af tvo af tveimur brautum. Veðrið setti smá strik í reikninginn og voru þónokkrir nemendur sem ekki gátu mætt í útskriftina.
54 nemendur útskrifuðust sem stúdentar og frá nýsköpunar- og listabraut útskrifast einn nemandi.
Af heilbrigðissviði útskrifuðust 22 nemendur, 4 sem heilbrigðisritarar, 1 sem læknaritari, 10 sem heilsunuddarar og svo 7 sem sjúkraliðar.
Dúx skólans er Aníta Harðardóttir sem útskrifaðist af félagsfræðibraut með meðaleinkunnina 8.76.
Magnús Ingvason skólameistari og Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari fluttu ávörp og fóru yfir liðna önn. Í ræðu sinni fjallaði Magnús m.a. um málefni flóttamanna. Hann sagði að Ísland gæti sannarlega ekki tekið á móti öllum þeim 15 milljónum fullorðinna og 15 milljónum barna sem eru á flótta í heiminum í dag, en við gætum þó gert betur. Fyrir nærri tveimur áratugum hafi íslensk stjórnvöld sett landið á lista viljugra þjóða sem hafi hafið stórfelldan hernað í Miðausturlöndum, en að mörgu leyti má rekja flóttamannavandamál dagsins í dag til þeirra aðgerða. Sú framkvæmd var í andstöðu við meginþorra þjóðarinnar. Það væri siðferðisleg ábyrgð okkar íslendinga að gangast við þeim verknaði og taka á móti flóttamönnum og taka vel á móti þeim.
Aníta Harðardóttir flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftanema. Inga Sigríður Halldórsdóttir átti að flytja kveðjuávarp fyrir hönd útskriftarnema Heilbrigðisskólans en hún var því miður veðurteppt.
Þrír farsælir starfsmenn skólans til margra ára voru kvaddir en það eru Jóna Guðmundsdóttir gæðastjóri og sviðsstjóri bóknáms, Guðrún Narfadóttir áfangastjóri og Þór Elís Pálsson kennari á kvikmyndabraut skólans.
Tónlistarflutningur við athöfnina var undir stjórn Lilju Daggar Gunnarsdóttur kennara við skólann. Fékk hún til liðs við sig nemendur úr tónlistaráfanga skólans og fluttu þau lagið Last Christmas.
Síðan lauk athöfninni með hátíðlegum samsöng allra viðstaddra á Heims um ból við undirleik Lilju Daggar.
Við óskum öllum útskriftarnemum til hamingju með áfangann og óskum þeim bjartrar framtíðar.
Hér eru tenglar á fleiri myndir frá útskriftinni. Myndir frá heilbrigðisbrautinni.   Almennar myndir og myndir af stúdentum

Þróun nýsköpunar- og listabrautar í FÁ

 

Í Fjölbrautaskólanum við Ármúla er boðið upp á nám á glæsilegri nýsköpunar- og listabraut. FÁ var brautryðjandi þeirrar hugmyndafræði að byggja upp slíka braut og hefur hún verið starfrækt í um 11 ár. Það var að frumkvæði Grétu Mjallar Bjarnadóttur og Þórs Elís Pálssonar að móta brautina og fengu þau styrk frá Sprotasjóði til að gera það. Brautin varð tveggja ára starfsnámsbraut með það að markmiði að nemendur kæmust í bein tengsl við atvinnulífið. Tilgangur hennar hefur greinilega sannað sig þar sem nemendafjöldi brautarinnar er um 50 nemendur á önn.

Nemendur hafa lengi kallað eftir fleiri listáfangum og að því að nýsköpunar- og listabrautin bjóði upp á fullt nám til stúdentsprófs. Með tilkomu styrks frá Sprotasjóði 2022 var kennurum við brautina gert kleift að þróa það nám. Gréta Mjöll og Þór Elís héldu því áfram þeirri vinnu og fengu til liðs við sig þau Jeannette Castioni og Bjarka Þór Jónsson, kennara við brautina.

Sterk umræða er um aukið nemendalýðræði í skólum og úr varð sú hugmynd að vinna beint að þróuninni með nemendum í venjulegu skólastarfi og var því boðið upp á valáfanga á haustönn 2022 fyrir nemendur um þróun brautarinnar.

Meginverkefni nýsköpunar áfangans var að vinna sameiginlega að þróunarverkefninu, bæði nemendur og kennarar. Viðfangið er umbreyting tveggja ára starfsnáms í listum til þriggja ára listnáms til stúdentsprófs með sameiginlegri iðjutengdri skapandi rannsókn.

Áfanginn hefur gengið mjög vel og eru nemendur áhugsamir um framhaldið. Það er von okkar að það takist mögulega að hefja nám á þriggja ára nýsköpunar- og listabraut næsta haust.

 

Lokaverkefni nemenda í Leikjahönnun og Listir og samfélag

 

Nemendur í leikjahönnun (TÖHÖ2LH05) fengu frjálsar hendur til að þróa sína eigin leikjahugmynd og búa til einfalda "prótótýpu" út frá þeirri hugmynd. Hægt er að prófa "prótótýpurnar" hér.

Í áfanganum listir og samfélag (LIME2LS05) var m.a. skoðað hvernig samfélagið birtist í hinum myndvædda heimi allt frá fyrstu hellaristum til sýndarveruleika í netheimum nútímans. Eitt af verkefnum nemenda í áfanganum var að nota tölvur og tækni á skapandi hátt. Hér má sjá sýnishorn af afrakstri nemenda, haustönnina 2022.

 

 

Íslenskir peningaseðlar eru vegan

Nemendur í þjóðhagfræði á viðskipta- og hagfræðibraut FÁ enduðu haustönnina með því að fara í heimsókn í Seðlabanka Íslands. Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri á skrifstofu seðlabankastjóra, bauð nemendur velkomna í Seðlabankann og fóru þeir Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Sigurður Valgeirsson yfir það helsta í starfi bankans. Góð og fróðleg svör fengust við spurningum nemenda og m.a. kom fram að gullforði Íslendinga er geymdur í London og er um tvö tonn, og íslenskir peningaseðlar eru vegan. Þeir sem vilja skoða skemmtilegt kynningarefni frá bankanum geta séð það hér .

 

Annarlok - mikilvægar dagsetningar

Senn líður að ann­ar­lokum og viljum við því minna ykkur á nokkur mik­ilvæg atriði.
Síðasti kennslu­dagur er 9. des­ember en nánari upp­lýs­ingar um skipulag hvers áfanga má finna á Innu.
14. desember – Einkunnir birtast í Innu.14.desember - Viðtöl vegna námsmats kl. 12:00 – 13:00.15. desember– Upptökupróf fyrir útskriftarefni kl. 9:00.16.desember - Æfing fyrir útskrift kl. 16:00.17. desember – Útskrift í hátíðarsal skólans kl. 13:00.
Nám á næstu önn - Allir nem­endur sem halda áfram námi á næstu önn eiga að vera búnir að velja. Greiðsluseðlar verða sendir út eftir útskrift.
Gangi ykkur sem allra best á loka­sprett­inum !

ReadSpeaker - Hlusta hnappur

Þann 5.desember tókum við í FÁ í gagnið forritið ReadSpeaker (Hlusta hnappinn) inn í á heimasíðu skólans. Til stendur að tengja ReadSpeaker líka inn í Moodle og það mun vonandi komast í gagnið á nýju ári. Ásamt því að geta hlustað á allt innihald Moodle á íslensku verður einnig hægt að hlusta á þeim tungumálum sem við kennum við skólann. Þetta verður vonandi mikil bót fyrir marga nemendur. 

Samstarf við Sjúkraliðafélag Íslands

Sjúkraliðafélag Íslands á í góðu samstarfi við Heilbrigðisskóla FÁ. Samstarfið felst meðal annars í því að fræðslustjóri félagsins kemur í reglulegar heimsóknir og kynnir starfsemi Sjúkraliðafélagsins. Nýverið kom Ragnhildur Bolladóttir fræðslustjóri félagsins í heimsókn í skólann og kynnti fyrir nemendum réttindi og skyldur þeirra að námi loknu í þeim tilgangi að undirbúa nemendur undir að fara út á vinnumarkaðinn sem sjúkraliðar. Hún fór m.a. yfir ábyrgð sjúkraliða í störfum sínum og hvernig hægt er að nýta þekkingu og færni að loknu námi með sem bestum hætti. Á fundinum sköpuðust líflegar umræður og nemendur nýttu vel tækifærið til að spyrja út í starfið og fengu góð og gagnleg svör sem vonandi nýtast þeim vel í starfi að námi loknu.

Námsmatsdagur fimmtudaginn 24.nóvember

Fimmtudaginn 24.nóvember er námsmatsdagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Engin formleg starfsemi verður í skólanum þennan dag og skrifstofa skólans verður jafnframt lokuð.

Fyrirlestur Þorsteins og Sólborgar

Í hádeginu í dag fengu nemendur FÁ frábæran fyrirlestur frá Sólborgu Guðbrandsdóttur og Þorsteini V. Einarssyni. Sólborg heldur úti instagramreikningnum Fávitar og Þorsteinn heldur úti instagramreikningnum Karlmennskan.
Þau töluðu við nemendur um heilbrigð samskipti, mörk, muninn á jákvæðri og skaðlegri karlmennsku ofl. Markmiðið var að stuðla að uppbyggilegra jafnréttissamfélagi með því að hrista upp í viðteknum samfélagslegum normum og hugmyndum.
Vel var mætt á fyrirlesturinn og komu nemendur með áhugaverðar spurningar í lokin.
Við þökkum þeim Sólborgu og Þorsteini kærlega fyrir komuna.