Önnur umferð í Gettu betur

 

Gettu betur lið FÁ lagði lið Verkemenntaskóla Austurlands í síðustu viku, 25-21. Önnur umferð fer fram í þessari viku og mætir lið FÁ liði Kvennaskólans á morgun, miðvikudaginn 18.janúar kl. 21.10.

Við sendum baráttukveðju til Iðunnar, Jóhönnu og Þráins.

Hægt er að hlusta á keppnina í beinni á Rás tvö.

 

Fyrsta umferð í Gettu betur

Í kvöld, mánudaginn 9.janúar, fer fram fyrsta umferð spurningakeppninnar Gettu betur. FÁ mætir liði Verkmenntaskóla Austurlands kl 19.40. Í liði FÁ eru þau Iðunn Úlfsdóttir, Jóhanna Andrea Magnúsdóttir og Þráinn Ásbjarnarson.

Hlusta má á útsendinguna í beinu streymi á www.ruv.is.

Við óskum þeim góðs gengis.

Áfram FÁ.

 

 

 

Gettu betur

 

Gettu betur lið Fjölbrautaskólans við Ármúla er á fullu að æfa fyrir komandi keppni sem hefst í næstu viku. Í Gettu betur liði FÁ þetta árið eru þau Iðunn Úlfsdóttir, Jóhanna Andrea Magnúsdóttir og Þráinn Ásbjarnarson sem hefur verið í liðinu undanfarin þrjú ár. Varamaður er Ívar Darri Jóhannsson. Þjálfarar liðsins þetta árið eru reynsluboltarnir þeir Eiríkur Kúld Viktorsson og Guðmundur Kristinn Þorsteinsson.

Undanfarin ár hefur FÁ verið í mikilli sókn í Gettu betur og náði skólinn t.d. í undanúrslit árið 2020 og í 8 liða úrslit árið 2021. FÁ mætir Verkmenntaskóla Austurlands í fyrstu umferð keppninnar sem fer fram 9.janúar.

Við óskum þeim góðs gengis í undirbúningnum og keppninni. Áfram FÁ!!

 

Upphaf vorannar 2023

Opnað verður fyrir stundatöflur í Innu að morgni 4. janúar fyrir þá sem greitt hafa skólagjöldin.

Kennsla hefst svo samkvæmt stundatöflum 5. janúar.

4. og 5. janúar er tekið er á móti beiðnum um töflubreytingar. Beiðnir skulu sendar á netfangið toflubreytingar@fa.is

Skráning í fjarnám hafin

Skráning í fjarnám við FÁ er hafin og stendur yfir til 18.janúar. Kennsla hefst svo 25.janúar.
Nánari upplýsingar um fjarnámið má finna á heimasíðu FÁ.
Fjölmargir áfangar eru í boði sem sjá má hér.
Hægt er að skrá sig hér.

Umhverfisveggurinn

 

Nemendur í umhverfisnefnd FÁ fengu þá hugmynd í haust að gera umhverfisvegginn í skólanum aðeins líflegri og skemmtilegri. Umhverfisveggurinn er veggur þar sem umhverfisnefndin getur komið fram ýmsum upplýsingum til nemenda. Nefndin fékk nemendur í nýsköpunar- og listabrautinni til að taka verkið að sér undir stjórn Jeannette Castioni kennara á listabrautinni. Byrjað var á listaverkinu í umhverfisvikunni sem var haldin um miðjan nóvember. Náði hópurinn að klára núna í vikunni og er útkoman stórglæsileg, líflegur og litríkur veggur með mikilvægum skilaboðum um umhverfismál.  Fátt er skemmtilegra en lifandi og skapandi skólastarf þar sem allir dafna og blómstra.

 

Fjarnám

 

Kæru fjarnámsnemendur!

Takk fyrir önnina sem nú er á enda.

Skráning á vorönn 2023 hefst 28.desember og stendur til 18. janúar.

Kennsla hefst 25.janúar.

Fjölmargir áfangar í boði, sjá hér.

 

Útskrift frá FÁ

Í gær, laugardaginn 17.desember var hátíðlegur en snjóþungur dagur í FÁ þegar skólinn útskrifaði 75 nemendur af 9 brautum og þar af tvo af tveimur brautum. Veðrið setti smá strik í reikninginn og voru þónokkrir nemendur sem ekki gátu mætt í útskriftina.
54 nemendur útskrifuðust sem stúdentar og frá nýsköpunar- og listabraut útskrifast einn nemandi.
Af heilbrigðissviði útskrifuðust 22 nemendur, 4 sem heilbrigðisritarar, 1 sem læknaritari, 10 sem heilsunuddarar og svo 7 sem sjúkraliðar.
Dúx skólans er Aníta Harðardóttir sem útskrifaðist af félagsfræðibraut með meðaleinkunnina 8.76.
Magnús Ingvason skólameistari og Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari fluttu ávörp og fóru yfir liðna önn. Í ræðu sinni fjallaði Magnús m.a. um málefni flóttamanna. Hann sagði að Ísland gæti sannarlega ekki tekið á móti öllum þeim 15 milljónum fullorðinna og 15 milljónum barna sem eru á flótta í heiminum í dag, en við gætum þó gert betur. Fyrir nærri tveimur áratugum hafi íslensk stjórnvöld sett landið á lista viljugra þjóða sem hafi hafið stórfelldan hernað í Miðausturlöndum, en að mörgu leyti má rekja flóttamannavandamál dagsins í dag til þeirra aðgerða. Sú framkvæmd var í andstöðu við meginþorra þjóðarinnar. Það væri siðferðisleg ábyrgð okkar íslendinga að gangast við þeim verknaði og taka á móti flóttamönnum og taka vel á móti þeim.
Aníta Harðardóttir flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftanema. Inga Sigríður Halldórsdóttir átti að flytja kveðjuávarp fyrir hönd útskriftarnema Heilbrigðisskólans en hún var því miður veðurteppt.
Þrír farsælir starfsmenn skólans til margra ára voru kvaddir en það eru Jóna Guðmundsdóttir gæðastjóri og sviðsstjóri bóknáms, Guðrún Narfadóttir áfangastjóri og Þór Elís Pálsson kennari á kvikmyndabraut skólans.
Tónlistarflutningur við athöfnina var undir stjórn Lilju Daggar Gunnarsdóttur kennara við skólann. Fékk hún til liðs við sig nemendur úr tónlistaráfanga skólans og fluttu þau lagið Last Christmas.
Síðan lauk athöfninni með hátíðlegum samsöng allra viðstaddra á Heims um ból við undirleik Lilju Daggar.
Við óskum öllum útskriftarnemum til hamingju með áfangann og óskum þeim bjartrar framtíðar.
Hér eru tenglar á fleiri myndir frá útskriftinni. Myndir frá heilbrigðisbrautinni.   Almennar myndir og myndir af stúdentum

Þróun nýsköpunar- og listabrautar í FÁ

 

Í Fjölbrautaskólanum við Ármúla er boðið upp á nám á glæsilegri nýsköpunar- og listabraut. FÁ var brautryðjandi þeirrar hugmyndafræði að byggja upp slíka braut og hefur hún verið starfrækt í um 11 ár. Það var að frumkvæði Grétu Mjallar Bjarnadóttur og Þórs Elís Pálssonar að móta brautina og fengu þau styrk frá Sprotasjóði til að gera það. Brautin varð tveggja ára starfsnámsbraut með það að markmiði að nemendur kæmust í bein tengsl við atvinnulífið. Tilgangur hennar hefur greinilega sannað sig þar sem nemendafjöldi brautarinnar er um 50 nemendur á önn.

Nemendur hafa lengi kallað eftir fleiri listáfangum og að því að nýsköpunar- og listabrautin bjóði upp á fullt nám til stúdentsprófs. Með tilkomu styrks frá Sprotasjóði 2022 var kennurum við brautina gert kleift að þróa það nám. Gréta Mjöll og Þór Elís héldu því áfram þeirri vinnu og fengu til liðs við sig þau Jeannette Castioni og Bjarka Þór Jónsson, kennara við brautina.

Sterk umræða er um aukið nemendalýðræði í skólum og úr varð sú hugmynd að vinna beint að þróuninni með nemendum í venjulegu skólastarfi og var því boðið upp á valáfanga á haustönn 2022 fyrir nemendur um þróun brautarinnar.

Meginverkefni nýsköpunar áfangans var að vinna sameiginlega að þróunarverkefninu, bæði nemendur og kennarar. Viðfangið er umbreyting tveggja ára starfsnáms í listum til þriggja ára listnáms til stúdentsprófs með sameiginlegri iðjutengdri skapandi rannsókn.

Áfanginn hefur gengið mjög vel og eru nemendur áhugsamir um framhaldið. Það er von okkar að það takist mögulega að hefja nám á þriggja ára nýsköpunar- og listabraut næsta haust.

 

Lokaverkefni nemenda í Leikjahönnun og Listir og samfélag

 

Nemendur í leikjahönnun (TÖHÖ2LH05) fengu frjálsar hendur til að þróa sína eigin leikjahugmynd og búa til einfalda "prótótýpu" út frá þeirri hugmynd. Hægt er að prófa "prótótýpurnar" hér.

Í áfanganum listir og samfélag (LIME2LS05) var m.a. skoðað hvernig samfélagið birtist í hinum myndvædda heimi allt frá fyrstu hellaristum til sýndarveruleika í netheimum nútímans. Eitt af verkefnum nemenda í áfanganum var að nota tölvur og tækni á skapandi hátt. Hér má sjá sýnishorn af afrakstri nemenda, haustönnina 2022.