Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

 

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, KHF, var haldin í 9. skiptið helgina 25. -26. mars í Bíó Paradís. Alls voru sýndar 28 myndir á hátíðinni frá skólum út um allt land, m.a. frá FÁ, MH, Verzló, Borgarholtsskóla, Tækniskólanum, Menntaskólanum að Laugarvatni og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Að þessu sinni samanstóð dómnefnd hátíðarinnar af Christof Wehmeier, kynningarstjóra Kvikmyndamiðtöðvar Íslands, Marzibil Snæfríðar Sæmundsdóttir kvikmyndagerðarkonu og Dóru Jóhannsdóttur leikkonu og leikstjóra. Heiðursgestirnir í ár voru leikstjórarnir Guðný Halldórsdóttir og Olaf de Fleur.

Lesa meira:

 

 

Þorbjörn keppir í Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna fer fram í Hinu húsinu laugardaginn 1. apríl. Þorbjörn Helgason keppir fyrir hönd FÁ með lagið Touch me með The Doors og er númer 14 á svið. Það þýðir að í símakosningunni verður hann með númerið 900 9114. 
Við hvetjum alla til að kjósa því að símakosningin gildir 50% og mun hafa áhrif á úrslit keppninnar.
Beint streymi verður frá keppninni á Stöð2 Vísi og hefst klukkan 19:00.
Áfram FÁ og Þorbjörn!

Vörumessa 2023 í Smáralind

Vörumessa á vegum JA Iceland var haldin í Smáralind 23. og 24. mars síðastliðin þar sem nemendur tóku þátt í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla sem er nýsköpunarkeppni framhaldsskólanna.

Nemendur í frumkvöðlafræði og nýsköpunaráfanga á viðskipta- og hagfræðibraut Fjölbrautaskólnas við Ármúla undir leiðsögn Róberts Örvars Ferdinandssonar kennara tóku þátt í sýningunni og kynntu vörur sínar sem vakti athygli og áhuga gesta í Smáralindinni.

Nýsköpunarfyrirtæki nemenda FÁ voru fjölbreytt, en það eru Lausnin sem er app sem heldur utan um alla viðburði og veitingastaði sem henta einstaklingum, 3002 hönnun og tíska, Ventura fjármálaráðgjöf og VAX sem framleiðir kerti á umhverfisvænan hátt. 

Leikskólabörn frá Múlaborg í heimsókn í FÁ

Á föstudaginn fengum við góða heimsókn frá leikskólanum Múlaborg sem er hér við hliðina á FÁ. Hópur leikskólabarna kíktu yfir og fengu fræðslu frá nemum í tanntækninámi um umhirðu tanna. Börnin unnu svo í hópum, lærðu m.a. að bursta tennurnar og fengu að æfa sig á risaeðlutönnum.
Þetta þverfaglega samstarf hefur verið í gangi í nokkur ár og frábært tækifæri fyrir tanntækninema að æfa sig og fyrir leikskólabörnin að fá fræðslu um tannumhirðu og heimsækja skólann sem þau horfa á alla daga.

Takk fyrir komuna

Í gær var opið hús í FÁ fyrir 10.bekkinga og aðra áhugasama. Það var mjög góð mæting og frábær stemning. Við þökkum öllum fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta á næstu önn.

Til að kynna sér skólann enn frekar þá eru upplýsingar hér.

Opið hús í FÁ fimmtudaginn 23. mars

 

Opið hús verður í Fjölbrautaskólanum við Ármúla fimmtudaginn 23.mars kl. 16.30 - 18.00.

Kynning verður á námsbrautum, aðstöðu og félagslífi skólans.

Við hvetjum nemendur í 9. og 10. bekk og forráðamenn þeirra til að koma og kynna sér það fjölbreytta nám sem er í boði.

Búið er að stofna viðburð á facebook og hvetjum við fólk til að skrá sig þar til að fylgjast með upplýsingum um opna húsið.

 

Nemendur FÁ á Alþingi

Í upphafi vikunnar fóru nemendur í Íslands-og mannkynssögu frá lokum 18. aldar til samtímans í vettvangsferð á Alþingi, sem er eitt elsta samfellda þjóðþing heims.

Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og formaður samgöngunefndar Alþingis, tók á móti hópnum, sýndi þeim húsið og fór yfir sögu og störf þingsins. Meðal þess sem vakti athygli og áhuga nemenda var þjóðfundarmálverk Gunnlaugs Blöndals, listmálara frá Blönduósi, frá þjóðfundinum 1851.

Þá sagði Vilhjálmur einnig nemendum frá fyrri störfum sínum sem lögreglumaður en þá kom í ljós að meðal nemanda í hópnum var einn þeirra sem ætlaði sér að leggja stund á nám í lögreglufræðum og verða lögreglumaður. Vilhjálmur hafði þá á orði að það væri ágætis grunnur til að verða þingmaður enda hefði reynsla hans úr lögreglunni nýst honum vel í þingstörfunum sem og öðru sem hann hefði tekið sér fyrir hendur.

Nemendum þótti heimsóknin gagnleg en ekki síður fróðleg, enda tengdist hún ýmsu því sem þau læra um í áfanganum.  

Nemendur FÁ heimsóttu Fangelsismálastofnun

 

Nemendur í félagsfræði og viðskiptalögfræði skólans fóru í heimsókn í Fangelsismálastofnun sem sér um fullnustu refsinga og önnur verkefni í samræmi við ákvæði laga um fullnustu refsingar. Erla Kristín Ásgeirsdóttir lögfræðingur og staðgengill forstjóra hélt fyrirlestur um hlutverk, starfsemi og málefnalega hugmyndafræði stofnunarinnar.

Áherslur Fangelsismálastofnunar snúast umfram allt um betrun eins og hjá systurstofnunum hennar á Norðurlöndum. Þessi betrun skilar brotamönnum í ríkari mæli aftur út í samfélagið sem friðsömum og gagnlegum borgurum.

Aðspurðir um ferðina nefndu nemendur að vettvangsferðin hefði opnað augu þeirra gagnvart mikilvægi betrunar og samkenndar í málaflokki brotamanna og töldu mikilvægt að falla ekki í gryfju múgæsings og refsigirni.

 

Gróskumikið skólastarf vakti athygli D.K.G. kvenna

 

Við fengum góða gesti í heimsókn í skólann í síðustu viku. Konur úr Alfadeild Delta Kappa Gamma, sem er alþjóðlegt félag kvenna í fræðslustörfum, komu til að kynna sér skólastarfið og einkum og sér í lagi Heilbrigðisskólann. Skólastjórnendur, formaður skólanefndar og deildarstjórar Heilbrigðiskólans tóku vel á móti hópnum. Þær Aðalheiður D. Matthiesen og Kristrún Sigurðardóttir kennslustjórar heilbrigðisgreina kynntu það nám sem til boða stendur, hvaða réttindi það veitir nemendum og mikilvægi þess fyrir heilbrigðiskerfið.

Síðan skoðuðu gestirnir kennsluaðstöðuna í Heilbrigðisskólanum og höfðu á orði að hún væri til algjörrar fyrirmyndar og nauðsynlegt væri að hvetja fleiri til að mennta sig á þessu sviði.

 

Loksins Árdagur

 

Síðastliðin fimmtudag hélt FÁ sinn árlega Árdag. Árdagur er þemadagur þar sem skóladagurinn er brotinn upp og í stað hefðbundinnar kennslu skemmta nemendur og starfsfólk sér saman.

Nemendur skiptu sér í 18 lið, hvert lið merkt ákveðnum lit eða mynstri. Liðin kepptu síðan sín á milli í fjölbreyttum þrautum sem starfsfólk var búið að undirbúa. Meðal annars var keppt í karókí, boccia, golfi, spurningakeppnum, heilaleikfimi, leiklist og ýmsu öðru.

Eftir þrautirnar var nemendum boðið upp á pizzur og gos og síðan fór tónlistar- og söngkeppni FÁ fram í matsal skólans.

Það var Gula liðið sem vann keppnina eftir harða baráttu við Dökkgræna liðið. Hlutu þau farandsbikar og bíómiða í verðlaun.

Þátttaka var góð og mikil stemning myndaðist hjá nemendum sem loksins fengu að taka þátt í Árdegi eftir þriggja ára pásu.

Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu skólans .