Morðgáta í efnafræði !

Magnús skólameistari finnst myrtur í skólanum. Fimm starfsmenn liggja undir grun. Sara félagsfræðikennari, Þórhallur líffræðikennari, Monika stærðfræðikennari, Fannar kokkur og Kristrún aðstoðarskólameistari. Nemendur í EFNA2AM taka að sér að leysa málið með því að bregða sér í hlutverk réttarmeinafræðinga og beita efnafræðiþekkingu sinni á þeim vísbendingum sem finnast á vettvangi.

Tölvuleikjanemendur í heimsókn

Nemendur í áfanganum Tölvuleikir og leikjatölvur, saga, þróun og fræði í Fjölbrautaskólanum við Ármúla kíktu í heimsókn til Aldin Dynamics á dögunum og tóku meðal annars þátt í notendaprófunum í sýndarveruleika. Darri Arnarson hjá Aldin tók á móti hópnum og fræddi nemendur um þróun sýndarveruleika og fyrirtækið sem sérhæfir sig á því sviði. Að lokum fengu nemendur að taka þátt í notendaprófunum fyrir nýjustu uppfærsluna á Waltz of the Wizard, sem er sýndarveruleikaupplifun þar sem notendur fá að leika sér með galdra og töfra. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um Waltz of the Wizard á heimasíðu Aldin Dynamics  

Hrönn námsráðgjafi fékk viðurkenningu

 

Hrönn Baldursdóttir náms- og starfsráðgjafi í FÁ hlaut í síðustu viku viðurkenningu frá Félagi náms- og starfsráðgjafa. Félagið veitir veitir árlega viðurkenningu til handa félagsmanni. Tilgangur slíkrar viðurkenningar er að vekja athygli á fagmennsku og nýsköpun í starfi náms- og starfsráðgjafa og framlagi einstakra félagsmanna til fags og stéttar. Framlag viðkomandi er metið mikils og eftir því tekið á meðal félagsfólks enda taka þeir þátt í að tilnefna til viðurkenningarinnar.

 

Hrönn Baldursdóttir náms- og starfsráðgjafi útskrifaðist árið 1999 frá Háskóla Íslands og hefur starfað í FÁ frá árinu 2008. Hrönn er frábær fyrirmynd á sínu fagsviði og mikill frumkvöðull í hagnýtingu þekkingar sem náms- og starfsráðgjafar búa yfir. Við erum heppin að hafa hana hér í FÁ og óskum við henni hjartanlega til hamingju.

 

 

Innritun á vorönn stendur yfir

 

Innritun vegna náms á vorönn 2023 stendur yfir til 30. nóvember. Á heimasíðu  skólans má finna allar upplýsingar um námið s.s. áfanga og brautir.

Innritun fer fram á Menntagátt.

 

2000s ball 16.nóvember

2000s ball FÁ verður haldið í Gamla bíó í sam­vinnu við nem­enda­félög Borg­ar­holts­skóla og Tækniskólans miðvikudaginn 16.nóvember næst­kom­andi.

Húsið opnar kl. 22:00 og verður gestum ekki hleypt inn eftir kl. 23:00. Ballinu lýkur svo kl. 01:00.

Fram koma

DJ Dóra Júlía

Daniil

Gugusar

Club Dub

Selma Björns

Páll Óskar

 

Miðasala

Miðasala er hafin fyrir nemendur í FÁ, Tækniskólanum og Borgarholtsskóla.

Fyrsta sól­ar­hringinn geta ein­göngu nemendur í skólunum þremur keypt miða.

Miðasala fyrir gesti utan skólanna sem halda ballið opnar svo kl. 10:00 þriðjudaginn 8.nóvember.

Miðaverð er 4.000 kr. fyrir innanskólanema (nem­endur í Tæknó, Borgó eða FÁ) en 5.000 kr. fyrir aðra gesti.

 

Opið hús hjá sérnámsbrautinni

Það var heldur betur fjör þegar sérnámsbrautin var með opið hús á miðvikudaginn síðasta, 2.nóvember. Þar var öllu tjaldað til, frábærar veitingar, pizza og popp, söngur, dans og gleði. Gamlir nemendur kíktu í heimsókn og fengu góðar viðtökur.

Heimsókn nemenda í hagfræði í Nasdaq kauphöllina

Nemendur FÁ hringdu jólunum inn snemma í ár með heimsókn sinni í íslensku kauphöllina, Nasdaq Nordic. Magnús Harðarson, forstjóri kauphallarinnar tók vel á móti nemendum og kynnti starf kauphallarinnar og fór yfir hvernig verðbréfamarkaðurinn á Íslandi gengur fyrir sig. Fyrir utan að segja nemendum frá hvernig hlutirnir gerast á eyrinni, var boðið upp á ljúffengar veitingar. Í lok heimsóknarinnar var nemendum boðið upp á að hringja hinni frægu bjöllu kauphallarinnar, eins og sést á meðfylgjandi mynd.

 

Nemendur í heimsókn á Alþingi

Nemendur í viðskiptalögfræði fóru í fræðandi og skemmtilega heimsókn í Alþingishúsið. Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður tók á móti hópnum, sýndi þeim húsið og sagði þeim frá störfum þingsins. Nemendur voru ánægðir með heimsóknina, þeir nýttu tækifærið vel til að spyrja spurninga og höfðu á orði að þau hefðu verið margs vísari eftir heimsóknina. Hver veit nema einhverjir af nemendunum munu sækjast eftir því að starfa á þessum vettvangi í framtíðinni.

Haustfrí

Föstudaginn 21.október er námsmatsdagur og á mánudaginn 24.október er haustfrí í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Engin kennsla verður þessa daga og skrifstofa skólans verður jafnframt lokuð. 

Heimsókn í Hæstarétt

Nemendur í viðskiptalögfræði í FÁ fóru í heimsókn í dag, í Hæstarétt Íslands og kynntu sér sögu og starfsemi réttarins.

Benedikt Bogason, forseti hæstaréttar, tók á móti hópnum og fór yfir dómskerfið og meðferð dómsmála með nemendum.

Þá fór hann jafnframt yfir sögu hæstaréttar sem hefur verið starfandi hér á landi frá árinu 1920 og var fyrst til húsa í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Frá árinu 1949 var hann staðsettur í dómshúsinu við Lindargötu en flutti árið 1996 í nýtt glæsilegt dómshús við Arnarhól.

Nemendur voru afar ánægðir með heimsóknina og fengu gott tækifæri til að spyrja spurninga og höfðu þeir á orði að heimsóknin hefði verið gagnleg og fræðandi.