Dimission

Í dag, föstudaginn 28, apríl verður fjör í skólanum. Stúdentsefni skólans ætla að raska rónni og gera sér glaðan dag með hopp og híi. Herlegheitin hefjast inni í sal í löngu frímínútunum. Samkvæmt hefðinni munu útskriftarefnin kveðja kennara og starfsfólk inni á sal í löngu frímínútunum og því engin kennsla í þriðja tíma. Vonandi ekki margir sem sýta það að missa af einni kennslustund þótt auðvitað veiti ekki af að sækja tíma núna þegar aðeins ein vika er eftir af kennslu og svo taka prófin við. En í dag skulum við gleðjast með dimittentum og óska þeim alls hins besta. Sjá myndir á Facebook skólans.

Kosningar til nemendaráðs FÁ

Það verða kosningar til nemendaráðs á fimmtudaginn frá klukkan 11 til 14 á Steypunni. Allir sem eru í nemendafélaginu hafa kosningarétt. Ekki láta hjá líða að neyta kosningaréttarins; lýðræði byggist á því að lýðurinn taki þátt og ráði úrslitum. Hvert atkvæði skiptir því máli. Kosið verður til eftirfarandi embætta: formanns, varaformanns, gjaldkera og formanns skemmtinefndar. Hér má sjá framboðslistann...

9- 5 klukkan hálf níu

Í kvöld (26.apríl) og annað kvöld munu nemendur úr Söngskóla Sigurðar Dementz sýna söngleikinn 9 -5 í FÁ klukkan níu. Það er ekki að ósekju að Þór Breiðfjörð, stúdent frá FÁ á sinni tíð, skuli setja upp söngleikinn 9 -5 á sal FÁ því að nýlega hófst samstarf milli Söngskólans og FÁ sem felur í sér að nemendur geta tekið valeiningar í söngskólanum sem eru metnar inn á stúdentsbrautir...(meira)

Gíganördar FÁ sameinist!

Þrír eitilharðir gíganördar í FÁ ætla að stofna tölvuleikjaklúbb í skólanum og vilja að allir nördar og ekki-nördar safnist um þetta ágæta mál sem tölvuleikir eru. Nafn klúbbsins er GígaNörd og hægt er að skrá sig í klúbbinn með því að senda nafn sitt á netfangið giganord@fa.is.

Til stendur að halda gíga FIFA-mót í vikunni og verða vegleg verðlaun í boði, líklega gullskór. Nú er bara að reima á sig sýndarveruleikaskóna og skella á sig legghlífunum!

Gleðilegt sumar

Í dag er sumardagurinn fyrsti og ekki vorlegt um að litast, eins og segir í vísu Guðmundar Inga Kristjánssonar á Kirkjubóli (1907-2002): 
 Víða grátt er veðurfar.
  Varla dátt er gaman.
  Höfuðáttir heyja þar
  hríðarsláttinn saman.

En veðrið getur ekki annað en batnað með hækkandi sól og brátt er komið sumar. Þá mun sólin skína á skalla, eða eins og Guðmundur kvað:

 Sólin spyr það aldrei um
  á hvað geisla sendir.
  Gefðu safn af góðverkum.
  Gættu ei að hvar lendir.

FÁ óskar öllum farsældar og blíðu á nýju sumri.

Gleðilega páska

Páskafrí er frá 10. til 17. apríl. Skólinn opnar 18. apríl en 19. apríl er námsmatsdagur og daginn eftir er sumardagurinn fyrsti. Það er ljúft að fá smá frí frá spektinni og vonandi verða páskarnir gulir og súkkulaðisætir hjá öllum. En of langt frí getur stundum orðið til þess að menn leggist í leti og ómennsku og eigi bágt með að koma sér aftur á fætur til að sinna  hversdagslegum skyldum og kvöðum. Kennsla heft á fullu þann 21. apríl og þá er eins gott að spýta í lófana því þá fer þessari vorönn brátt að ljúka. Búið er að opna fyrir umsóknir um skólavist á haustönn 2017 og er umsóknarfrestur til 31. maí.

Eru ekki allir búnir að velja?

Á morgun, 7. apríl eiga allir að vera búnir að velja fyrir haustönnina. Ef menn eru ennþá að velkjast í vafa má víða sjá freistandi auglýsingar uppi á veggjum skólans þar sem kostir áfanganna eru áréttaðir. Það getur til dæmis enginn verið í vafa um að tungumálakunnátta sé mjög til blessunar þeim sem læra.

Kunsten at undervise og lære

Á þriðjudaginn var brá Gerður Hannesdóttir í dönskunni undir sig betri fætinum ásamt nemendum sínum í dönsku og þau fóru að skoða Listasafn Ásgríms Jónssonar við Bergstaðastræti. Á safninu stendur yfir sýning sem ber yfirskriftina "Ógnvekjandi náttúra" og vafalaust hefur Gerður kveikt áhuga nemenda sinna á listamanninum góða. Allt fór þetta fram á dönsku, því eðla máli, og hefur ekki verið amalegt að tala um hina harðgerðu náttúru Íslands á hinni dæilegu dönsku. Listasafn Ásgríms Jónssonar

Frumkvöðlar FÁ vinna gull

Á laugardaginn var haldin Vörumessa ungra frumkvöðla í Smáralind, yfir 300 framhaldsskólanemendur sem stofnað hafa 63 örfyrirtæki  voru þar til að selja og sýna afrakstur sinn eftir nám í nýsköpun og viðskiptahugmyndum. Í FÁ sýndu sex lítil fyrirtæki hönnun sína en það var hópurinn KatlaCosmetics, með baðbomburnar sínar sem innihalda kollagen sem er unnið úr fiskiroði og beinum, sem hreppti gullið fyrir "Besta Sjó-Bisnessinn". Eliza Reid forsetafrú og Þór Sigfússon, forstjóri Sjávarklasans veittu verðlaunin...

Elísabet Marteinsdóttir sigurvegari Tónlistarkeppni NFFÁ

Leikar fóru þannig að dómnefndin valdi Elísabetu Marteinsdóttur í fyrsta sæti, Alexendöndru Ýri í annað sæti og Birtu Birgisdóttur í þriðja sæti en Birta á þann heiður að vera fyrrverandi vinningshafi í keppninni. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um þessa bærilegu skemmtun og myndir og vídeóbúta má finna á Facebook-síðu skólans.