Námsmatsdagur

Miðvikudaginn 24.nóvember er námsmatsdagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Engin formleg starfsemi verður í skólanum þennan dag og skrifstofa skólans verður jafnframt lokuð.

FÁ stígur grænu skrefin

 

 

 

FÁ tekur þátt í verkefninu „Græn skref í ríkisrekstri.“ Mikil vinna hefur verið lögð í það hjá FÁ undanfarið að ná að uppfylla Grænu skrefin og nú hefur FÁ náð þeim frábæra árangri að uppfylla fjögur af fimm skrefum.

Verkefnið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar.

Aðgerðum Grænna skrefa er skipt í 7 flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í venjulegum skrifstofurekstri. Skref 1-4 innihalda aðgerðir í öllum þessum flokkum.

Hér má lesa nánar um Grænu skrefin.

 

 

 

FÁ verður UNESCO skóli

 

Við erum stolt að segja frá því að FÁ er orðinn UNESCO skóli. Að vera UNESCO–skóli felur í sér langvarandi samkomulag og samvinnu milli skólans og UNESCO þar sem skólinn innleiðir verkefni tengdum einhverju af fjórum þemum UNESCO–skóla: alþjóðasamvinna, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun og/eða friður og mannréttindi. FÁ ákvað að leggja áherslu á tvö síðastnefndu þemun; heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun og/eða friður og mannréttindi. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna munu því skipa mikilvægan sess í skólastarfi FÁ næstu misserin.

UNESCO hefur starfrækt samstarfsnet skóla á alþjóðavísu frá árinu 1953. Þeir eru nú yfir 10.000 talsins og starfa í 181 landi.

 

 

Mynd nemanda FÁ til sýnis á COP26 ráðstefnunni í Glasgow

 

Verðlaunaljósmynd Írisar Lilju, nemanda í Fjölbrautaskólanum í Ármúla er nú til sýnis á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, COP26.

Íris Lilja vann myndina í ljósmyndaáfanga við Fjölbraut í Ármúla og heitir mynd hennar “Sæt tortíming”. Myndin lenti í fyrsta sæti í keppninni Ungt Umhverfisfólk 2021 í maí síðastliðnum. Myndin var svo send í Evrópukeppnina Climate Change Pix sem er ljósmyndakeppni á vegum Young Reporters for the Environment. Íris Lilja hlaut ungmennaverðlaun þeirri keppni. Um 400 þúsund ungmenni í 44 löndum tóku þátt.

Það er mikill heiður fyrir Írisi að mynd hennar sé til sýnis á loftlagsráðstefnunni í Glasgow. Á ráðstefnuna mæta þjóðarleiðtogar og embættisfólk frá löndum um allan heim og m.a. um fimmtíu manna hópur frá Íslandi, ráðherrar, þingmenn og embættisfólk. Ráðstefnan hófst á sunnudaginn 31. október og er til 12. nóvember

Hér er linkur á frétt frá RÚV um Írisi:

https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/95bqek/ljosmynd-a-loftslagsradstefnu

 

 

Kveðjustund Vigfúsar

Vigfús Þór Jónsson, umsjónarmaður fasteigna til rúmlega tuttugu ára lætur formlega af störfum í dag, 21. október. 

Vigfús Þór starfaði við skólann sem kennari í trésmíði á árunum 1993 til 1995 og hóf svo störf sem umsjónarmaður fasteigna árið 1999.

Óhætt er að segja að Vigfús Þór hafi verið einn ástsælasti starfsmaður skólans bæði á meðal nemenda og starfsmanna enda þjónustulundaður með afbrigðum. Vigfús Þór er þó reiðubúinn að rétta okkur hjálparhönd í náinni framtíð og án efa eigum við eftir að leita til hans.

Birgir Sigurðsson hefur tekið við sem umsjónarmaður fasteigna og bjóðum við hann velkominn.

Haustfrí

Föstudaginn 22.október er námsmatsdagur og á mánudaginn 25.október er haustfrí í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Engin kennsla verður þessa daga og skrifstofa skólans verður jafnframt lokuð. 

Skólablað FÁ

Nemendur í fjölmiðlafræði í FÁ gerðu þetta skemmtilega skólablað í tilefni af 40 ára afmæli skólans. Áhugaverð viðtöl við starfsfólk, umfjöllun um skemmtileg verkefni í skólanum, skólalífið og fleira :) Við mælum með að þú kíkir á þetta metnaðarfulla blað !

Steypan - FÁ blaðið

Vel heppnuð forvarnarvika

Miðvikudaginn 6. október 2021 var Forvarnardagurinn haldinn í grunn- og framhaldsskólum landsins. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og þá er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Við í Fjölbrautaskólanum við Ármúla ákváðum að taka heila viku undir forvarnir og héldum forvarnarviku 4.-8.október. Við fengum 3 fyrirlesara til að koma og halda smá fræðslu fyrir okkur.

Andrea frá Heilsulausnum fræddi okkur um skaðsemi rafrettureykinga, munntóbaks og orkudrykkja.

Lori frá Pietasamtökunum sagði frá starfssemi félagsins, geðheilsu og úrræðum. Virkilega áhugavert erindi sem var streymt í allar stofur og má sjá fyrirlesturinn hér.

Anna Steinsen frá KVAN var með stórskemmtilegt erindi í matsalnum um kvíða og þrautseigju.

Einnig stóð nemendaráðið fyrir skemmtilegum Kahoot spurningaleik með forvarnarívafi og voru vegleg verðlaun í boði. Við enduðum síðan þessa skemmtilegu viku á pylsupartýi þar sem nemendafélagið og skólinn buðu öllum nemendum upp á pylsur og gos. Yfir pylsunum söng síðan hún Katrín Edda lagið sem hún keppti með á Söngkeppni framhaldsskólanna. Forvarnarvikan tókst mjög vel og almenn ánægja var með viðburði og fyrirlestra.

 

Nýnem­a­ball FÁ, Tækni­skólans og FB

Nýnem­a­ball FÁ verður haldið í sam­vinnu við nem­enda­félög Fjöl­brauta­skól­ans í Breiðholti og Tækniskólans. Ballið verður á Spot í Kópa­vogi fimmtu­daginn 14. október.

Húsið opnar kl. 21:00 og lokar kl. 22:00 (ekki er hleypt inn eftir þann tíma) og lýkur ballinu á miðnætti.
Fram koma:

DJ Dóra Júlía

Sprite Zero Klan

Jói P og Króli


Miðasala er hafin og kostar miðinn 3500 kr. Miðasala fer fram hér: https://yess.is/e/nft/nynemaballtskolafbfa/
Miðasalan er ein­göngu fyrir nem­endur FÁ, FB og Tækniskólann og fer hún fram í gegnum raf­ræna miðasölu NFFÁ.
Við munum bjóða upp á rútu sem fer frá FÁ kl. 20.40 á Spot og aftur í FÁ eftir ballið kl. 12.00. Skráning verður í rútuna í næstu viku.


Nem­endafélag FÁ (NFFÁ) stendur fyrir edrúpotti, þar sem öllum sem koma á ballið verður boðið að blása í áfeng­is­mæli til þess að komast í pottinn. Eftir vetr­ar­leyfi verða svo tveir heppnir nem­endur dregnir út og fá hvor um sig 25.000 kr. inn­eign í Kringluna.


Rétt eins og á öðrum viðburðum NFFÁ er öll meðferð áfengis og annarra vímugjafa óheimil. Einnig er vert að nefna að á ballinu er ekki leyfi­legt að koma inn með tóbak (síga­rettur, neftóbak eða munn­tóbak), nikó­tínpúða eða rafrettur. Allur óheimill varningur verður gerður upptækur og honum fargað.


Allir sem koma á ballið þurfa að fram­vísa miðanum við hurðina ásamt niðurstöðum úr neikvæðu hraðprófi vegna COVID-19 frá Heilsugæslu (sjálfspróf duga ekki). Hraðprófið má ekki vera eldra en 48 klst gamalt. 

https://www.testcovid.is/

https://www.heilsugaeslan.is/.../Hradprof-vegna.../

Forvarnarvika, 4.-8.október

Í næstu viku, 4.-8.október verður forvarnarvika í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Boðið verður upp á fjölbreytta og fræðandi fyrirlestra og einnig mun nemendafélagið standa fyrir uppákomum á sal og á samfélagsmiðlum.
Forvarnardagurinn sjálfur er miðvikudaginn 6.október og þá munu Pieta samtökin vera með fræðslu á fyrirlestrarsal kl. 12.05 um sjálfsvíg og sjálfsskaða. Fræðslunni verður streymt í stofur.
Við hvetjum alla til að kíkja á þessa dagskrá og taka þátt.

Dagskrá:

Mánudagur 4.október
12.30 – Matsalur
Kahoot í boði nemendaráðs – veglegir vinningar í boði.

Þriðjudagur 5.október
12.30 – Fyrirlestrarsalur
-Fræðsla frá Heilsulausnum um rafrettur, munntóbak og orkudrykki.

Miðvikudagur 6.október
12.05 – Fyrirlestrarsalur
-Fræðsla frá Pieta samtökunum. Streymt í stofur (2-3 bekkir í sal).

Fimmtudagur 7.október
12.30 – Fyrirlestrarsalur
-Fyrirlestur frá KVAN, Anna Steinsen talar um jákvæðni.

Föstudagur 8.október
12.30 – 13.10 Matsalur
-Pylsupartý í boði skólans og nemendafélagsins.