Opið hús í FÁ

Opið hús verður í Fjölbrautaskólanum við Ármúla þriðjudaginn 29.mars kl. 16.30 - 18.00.
Kynning verður á námsbrautum, aðstöðu og félagslífi skólans.
Áhugasamir eru hvattir til að heimsækja skólann. 10.bekkingar og forráðamenn þeirra eru sérstaklega boðnir velkomnir. 9.bekkingar eru líka velkomnir.

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, KHF, verður haldin í áttunda sinn núna um helgina 19. og 20. mars 2022.
Hátíðin fer fram í Bíó Paradís frá kl. 13:00 - 17:00 báða dagana og er aðgangur ókeypis.  Öll umsjón og vinna við hátíðina er í höndum nemenda Fjölbrautaskólans við Ármúla.
Eitt af aðal markmiðum hátíðarinnar er að gera nemendum í framhaldsskólum landsins kleift að koma kvikmynda verkum sínum á framfæri og kynnast öðrum með sömu áhugamál.
Tækifærin sem skapast upp úr hátíðinni eru ófá og því vonumst við til þess að gera hátíðina sýnilegri og skapa henni jafnframt fastan sess í félagslífi íslenskra ungmenna.

Jafnréttisdagar í FÁ

Í þessari viku fara fram Jafnréttisdagar í FÁ í þeim tilgangi að fræða og efla umræðu um jafnréttismál innan skólans og í samfélaginu. Í tilefni þeirra fara fram tvennar pallborðsumræður á sal skólans.

Á miðvikudaginn 16.mars kl. 19.00 verða pallborðsumræður í hátíðarsal skólans og er umræðuefnið kynferðisofbeldi, nauðgunarmenning og hvernig er að vera aðstandandi.

Þátttakendur verða:

-Edda Falak

-Kolbrún Birna

-Þorsteinn V

Á fimmtudaginn 17.mars kl. 19.00 verða pallborðsumræður í hátíðarsal skólans og er umræðuefnið hinseginleiki og fordómar.

Þátttakendur verða:

-Sigur Huldar Geirs

-Jafet Sigurfinnsson

-Sigtýr Ægir

Þessar pallborðsumræður verða opnar fyrir alla framhaldsskólanema !

Árdagur og söngkeppni FÁ

 

Í gær var árlegur Árdagur haldinn í FÁ. Árdagar eiga sér langa sögu í FÁ en þá daga gera menn sér dagamun og brjóta upp hefðbundinn skóladag. Nemendur byrjuðu þó daginn á að mæta í tíma. Upp úr kl. 11 lögðu nemendur þó frá sér bækurnar og fylktu liði niðrí hátíðarsal en þar fór fram Söngkeppni FÁ. Jón Jónsson söngvari tók nokkur lög og hélt uppi góðri stemningu í salnum og kynnti svo 5 flotta keppendur til leiks. Öll atriðin voru alveg frábær en úrslitin urðu þau að Tamara Milenkovic lenti í þriðja sæti með lagið "Stay" með Rihanna. Þorbjörn Helgason var í öðru sæti með David Bowie slagarann "The man who sold the world" og í fyrsta sæti var hún Emma Eyþórsdóttir með frábæran flutning á laginu "My way" eftir Frank Sinatra. Greinilega mikið af hæfileikaríkum nemendum hér í FÁ.

Eftir söngkeppnina bauð skólinn upp á pizzur á Steypunni og nemendafélagið bauð upp á candy floss. Svo enduðum við þennan skemmtilega dag á að kíkja Laugarásbíó þar sem boðið var upp á 3 myndir til að horfa á. Aldeilis frábær dagur.

Fleiri myndir má sjá hér.

 

 

Starfsþróunardagur föstudaginn 4.mars

Föstudaginn 4.mars er starfsþróunardagur kennara í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Öll kennsla fellur niður þennan dag og skrifstofa skólans verður jafnframt lokuð.

Aflétting takmarkana

Ágætu nemendur.

Eins og flest ykkar hafið eflaust tekið eftir, þá var öllum sóttvarnareglum aflétt í nótt, aðfararnótt föstudagsins 25. febrúar. Grímuskyldu verður aflétt svo og nándarreglu sem hefur verið í gildi. Með þessu lýkur vonandi tveggja ára tímabili sem covid 19 hefur herjað á okkur.

Við skulum þó samt sem áður fara varlega næstu daga og vikur og hver og einn þarf áfram að sinna sínum persónulegu sóttvörnum. Það síðasta sem við viljum er að veiran blossi upp með þeim afleiðingum að aftur yrðu settar einhvers konar takmarkanir.

Ég vil þakka nemendum skólans og starfsmönnum fyrir að taka virkan þátt í sóttvörnum undanfarin tvö ár. Þetta hefur sannarlega ekki verið auðveldur tími, en héðan í frá getum við aftur tekið upp eðlilegt líf og vonandi verður það gott líf.

Veiran hefur haft þau áhrif að fjölmargir kennslutímar hafa fallið niður auk þess sem mjög margir nemendur hafa verið frá vegna veikinda. Ég skora á alla nemendur til að sinna náminu af fullum krafti það sem eftir er annar.

Ég vonast sem sagt eftir eðlilegu og góðu skólastarfi frá og með næstu viku og vonandi verður hægt að efla félagslíf nemenda í kjölfarið.

Kveðja.
Magnús Ingvason
Skólameistari FÁ

FÁ sigraði Lífshlaupið

Lífshlaupið er þjóðarátak í hreyfingu þar sem skólar, vinnustaðir og einstaklingar etja kappi um sem mesta hreyfingu yfir ákveðið tímabil í febrúar. FÁ vann flokkinn "framhaldsskóli með 400-999 nemendur". Vel gert FÁ !
Þær Melkorka Rut Sigurðardóttir og Anna Zhu Ragnarsdóttir tóku á móti verðlaununum fyrir hönd skólans í dag.

Val fyrir haustönn 2022

 

Val fyrir haustönn 2022 stendur nú yfir og verður opið til 8.apríl. Með vali staðfestir þú umsókn þína um skólavist á næstu önn. Nánari upplýsingar hér.

 

Árleg skautaferð

Það var líf og fjör í Skautahöllinni í gær þegar nemendur FÁ skelltu sér á skauta. Sú hefð hefur skapast í skólanum að fara á skauta einu sinni á skólaári við góðar undirtektir nemenda. Hér er hægt að sjá fleiri myndir af skautaferðinni.

Umhverfisdagar FÁ 2022

 

Umhverfisdagar FÁ verða haldnir miðvikudaginn 23.febrúar og fimmtudaginn 24.febrúar. Við fáum skemmtilega fyrirlestra.

Á miðvikudaginn kemur Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra og verður með fyrirlestur í fyrirlestrarsal kl. 12.00 - 12.30. Svo verður kahoot með umhverfisívafi í hádeginu.

Á fimmtudaginn kemur Vigdís frá Landvernd og verður með erindið „Tökum umhverfismálin í okkar hendur“ í fyrirlestrarsal klukkan 12-12:30.

Eingöngu veganréttir verða í boði í matsal þessa daga.

Nemendur í umhverfisráði standa fyrir umhverfisfróðleik á veggjum og vonandi sitthvað fleira í pokahorninu.