Í dag veitti Sigurlaug Arnardóttir, sérfræðingur hjá Landvernd, FÁ-nemendum verðlaun fyrir tvö sigurverkefni í samkeppninni "Ungt umhverfisfréttafólk" en keppnin er ætluð sem valdeflandi vettvangur fyrir ungt fólk til að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings eftir fjölbreyttum leiðum.
Í ár bárust verkefni frá tíu framhaldsskólum en fyrsta sætið hlaut Íris Lilja Jóhannsdóttir fyrir ljósmynd sína; „Sæt tortíming“. Þetta hafði dómnefnd að segja um ljósmynd Írisar: „Ein mynd segir oft meira en þúsund orð. Þessi listræna nálgun á hækkandi hitastig jarðar og neysluhyggju okkar grípur strax augað og vekur mann til umhugsunar.“ Mynd Írisar verður send fyrir hönd Íslands í alþjóðlegu keppnina, en verkefnið er rekið í 45 löndum víðsvegar um heiminn (Young reporters for the environment).
Þær Indíana Ásmundsdóttir, Katrín Ása Wongwan, Priyanka Dana Antao og Tinna Hilmarsdóttir áttu besta verkefnið að mati ungs fólks (Ungir umhverfissinnar, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta) fyrir vefsíðu sína um áhrif snyrtivara á umhverfið. Dómnefndin hafði þetta að segja um netsíðuna þeirra: „Vel unnið verkefni sem styðst við áreiðanlegar heimildir. Flott að vekja athygli á þessu vandamáli því það er ekki oft í sviðsljósinu. Mikilvægt er að fræða samfélagið um þær slæmu afleiðingar sem sumar snyrtivörur hafa á umhverfið og vera meðvitaður um þá mengun sem hlýst af framleiðslu þeirra. Áhrif af snyrtivörum eru beintengd við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna og við erum sammála höfundum verkefnisins – margt smátt gerir eitt stórt!“
HÉR má sjá myndband sem fjallar um sigurverkefnin í ár og HÉR má kynna sér þessa árlegu samkeppni betur.
Til hamingju með frábær verkefni!