Námsmatsdagur
Fimmtudaginn 23.september er námsmatsdagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Engin kennsla verður þann dag og skrifstofa skólans verður jafnframt lokuð.
Fimmtudaginn 23.september er námsmatsdagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Engin kennsla verður þann dag og skrifstofa skólans verður jafnframt lokuð.
Nú eru nokkrar vikur liðnar af þessari önn og hefur starfið farið vel af stað. Nemendur eru glaðir og langflestir duglegir að stunda námið.
Skólinn átti stórafmæli núna 7.september þegar hann fagnaði 40 ára afmæli. Afmælishald var með frekar látlausum hætti út af aðstæðum í þjóðfélaginu. Nemendum og starfsmönnum var boðið upp á afmælismúffur með merki skólans og mjólk með. Þær slógu í gegn og starfsmenn og nemendur skólans borðuðu nærri 600 múffur. Einn vinsælasti rappari landsins og fyrrum nemandi skólans, Herra Hnetusmjör tók síðan nokkur lög í sal skólans í hádeginu við góðar undirtektir nemenda og starfsmanna. Ráðgert er að halda veglegri afmælisveislu síðar þegar ástand mála í þjóðfélaginu skánar sökum Covid-veirunnar.
Lýðræðisvika var haldin í skólanum vikuna, 6.-9.september og fóru þá fram Skuggakosningar. Skuggakosningar eru kosningar þar sem framhaldsskólanemar kjósa sína fulltrúa á Alþingi og munu endurspegla vilja nemenda um allt land. Frambjóðendur 10 stjórnmálaflokka komu í heimsókn í skólann, kynntu málefni sín og sátu fyrir svörum. Framboðsfundunum var streymt inn í stofur og fengu nemendur tækifæri til að koma með spurningar. Skuggakosningarnar sjálfar fóru svo fram á Steypunni, fimmtudaginn 9.september, en nemendur sem voru fæddir 29. október 1999 og síðar voru á kjörskrá. Alls kusu 174 nemendur í kosningunum, en það er um 30% þeirra sem voru á kjörskrá. Vonandi verður kosningaþátttaka ungs fólks heldur meiri í Alþingiskosningunum síðar í mánuðinum.
Þriðjudaginn 14.september fór fram Nýnemagleði hér í skólanum. Í haust eru um 140 nýnemar í skólanum. Nemendur byrjuðu á að fara í skemmtilegan ratleik um skólann þar sem þau leystu þrautir og söfnuðu stigum. Síðan fengu allir pizzu og gos og endað var á bíósýningu í fyrirlestrarsalnum þar sem horft var á Dumb and Dumber.
Stundatöflur verða aðgengilegar í INNU mánudag 16. ágúst.
Foreldrar/forráðamenn nýnema verða boðaðir í viðtal með börnum sínum við umsjónarkennara mánudaginn 16. ágúst eða
þriðjudaginn 17. ágúst.
Boðun í viðtalið fer fram nokkrum dögum áður með tölvupósti og/eða símtali.
Kynningarfundur fyrir nýnema verður í fyrirlestrasal þriðjudaginn
17. ágúst kl. 13:00.
Kynningarfundur fyrir nýja nemendur sem fæddir eru 2004 eða fyrr verður í fyrirlestrasal þriðjudaginn 17. ágúst kl. 14:00.
Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 18. ágúst. Allar upplýsingar um bókalista og námið má finna á heimasíðu skólans, www.fa.is.
Foreldrafundur verður haldinn mánudaginn 30. ágúst kl. 17:00.
Óskir um töflubreytingar skal senda á netfangið toflubreytingar@fa.is fyrir 18. ágúst.
Nemendur sem stunda fullt nám í dagskóla (a.m.k. 25 einingar), ná 9 eða hærri meðaleinkunn og eru með a.m.k. 95% skólasókn fá innritunar- og efnisgjöld felld niður næstu önn í námi. Á vorönn 2021 fengu eftirfarandi nemendur slíka viðurkenningu:
Áslaug Lilja Káradóttir - Heilbrigðisritarabraut
Guðrún Guðmundsdóttir - Sjúkraliðabraut
Jessica Le - Almenn námsbraut
Jóhanna Andrea Magnúsdóttir - Sjúkraliðabraut
Jóhanna Björg Þuríðardóttir - Lyfjatæknabraut
Kári Jónsson - Heilsunuddbraut
Ngan Hieu Nguyen Dang - Viðskipta- og hagfræðibraut
Nína Margrét Halldórsdóttir - Heilsunuddbraut
Þórunn Embla Sveinsdóttir - Náttúrufræðibraut
Fjölbrautaskólinn við Ármúla útskrifaði í dag 122 nemendur í tveimur útskriftum. Alls útskrifaðist 71 nemandi með stúdentspróf, 41 nemandi útskrifaðist af heilbrigðissviði skólans, 6 nemendur af nýsköpunar- og listabraut og loks útskrifuðust 4 nemendur af sérnámsbraut skólans. Dúx skólans er Gunnur Rún Hafsteinsdóttir sem útskrifast af náttúrufræðibraut með ágætiseinkunnina 9,01.
Kristrún Birgisdóttir, aðstoðarskólameistari FÁ, fór yfir liðinn vetur í ræðu sinni en þrátt fyrir strangar sóttvarnarreglur tókst að halda skólastarfinu með eins eðlilegum hætti og unnt var.
Í ræðu sinni fjallaði Magnús Ingvason, skólameistari FÁ, um þann fjölda Íslendinga sem flutti búferlum til Vesturheims um aldamótin 1900 og átti þar oft og tíðum í erfiðri lífsbaráttu. Á síðustu árum hefur fólk af erlendu bergi brotið komið til Íslands, mörg hver á flótta frá erfiðum aðstæðum í heimalandi sínu og í leit að öryggi í nýjum heimkynnum. Þau flytja með sér menningu sína og tungu, og mannlífið á Íslandi verður litríkara en áður. Við skulum taka fagnandi á móti nýjum Íslendingum og njóta þeirrar menningarauðlegð sem þeir hafa í farteskinu.
Í dag, 21. maí, fer fram brautskráning í tvennu lagi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Kl. 13:00 útskrifast nemendur af Nýsköpunar- og listabraut, sérnámsbraut og frá Heilbrigðisskólanum.
Nýstúdentar af Hugvísindabraut, Félagsfræðabraut, Náttúrufræðibraut, Íþrótta- og heilbrigðisbraut og Viðskipta- og hagfræðibraut útskrifast svo kl. 15:00.
Vegna aðstæðna í samfélaginu verður útskrifarnemum því miður ekki heimilt að bjóða með sér fleiri en einum gesti, en báðum athöfnum verður streymt HÉR svo stoltir ástvinir þurfi ekki að missa af þessum merku tímamótum.
Útskriftarnemar og gestir eru beðnir að gæta sóttvarna á allan hátt á meðan dagskráin stendur yfir.
Fyrirtækið “Styrkleiki” er mannað nemendum á nýsköpunarbraut FÁ og er eitt af 126 nemendafyrirtækjum frá 15 framhaldsskólum sem kepptu í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla í ár. Ungir frumkvöðlar eru samtök sem leitast við að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamenntun í skólum.
Í Styrkleika eru Valur Snær Gottskálksson, Wafika Jarrah og Milica Anna Milanovic, og tóku þessi frumkvöðlar úr FÁ nýlega við verðlaunum úr höndum mennta- og menningarmálaráðherra fyrir „Samfélagslega nýsköpun“. Fyrirtækið þeirra framleiðir og hannar æfingabúnað fyrir einstaklinga bundna í hjólastól og er langt komið með frumgerð á hinum svokallaða „styrktarþjálfa“. Liðið heimsótti borgarstjóra Reykjavíkur á dögunum og sýndi honum æfingatækið sitt, en hér er frétt um þá heimsókn:
Þess má geta að fjárfestar og hagsmunaaðilar hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga og styrkt verkefnið beint um allt að 700.000 kr. Samhliða þessu hafa frumkvöðlarnir í Styrkleika vakið athygli fyrir armbönd sem þau hafa framleitt og selt, en ágóðinn af því verkefni rennur til tækjakaupa markhópsins og líklegast að Sjálfsbjörg taki við þeim fjármunum.
Hægt er að kynna sér öll fyrirtækin sem voru stofnuð í fyrirtækjasmiðjunni í ár og vörur þeirra á vefsíðu vörumessunnar.
Til hamingju með glæsilegan árangur Styrkleiki og önnur lið sem komust í úrslit!
Í dag veitti Sigurlaug Arnardóttir, sérfræðingur hjá Landvernd, FÁ-nemendum verðlaun fyrir tvö sigurverkefni í samkeppninni "Ungt umhverfisfréttafólk" en keppnin er ætluð sem valdeflandi vettvangur fyrir ungt fólk til að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings eftir fjölbreyttum leiðum.
Í ár bárust verkefni frá tíu framhaldsskólum en fyrsta sætið hlaut Íris Lilja Jóhannsdóttir fyrir ljósmynd sína; „Sæt tortíming“. Þetta hafði dómnefnd að segja um ljósmynd Írisar: „Ein mynd segir oft meira en þúsund orð. Þessi listræna nálgun á hækkandi hitastig jarðar og neysluhyggju okkar grípur strax augað og vekur mann til umhugsunar.“ Mynd Írisar verður send fyrir hönd Íslands í alþjóðlegu keppnina, en verkefnið er rekið í 45 löndum víðsvegar um heiminn (Young reporters for the environment).
Þær Indíana Ásmundsdóttir, Katrín Ása Wongwan, Priyanka Dana Antao og Tinna Hilmarsdóttir áttu besta verkefnið að mati ungs fólks (Ungir umhverfissinnar, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta) fyrir vefsíðu sína um áhrif snyrtivara á umhverfið. Dómnefndin hafði þetta að segja um netsíðuna þeirra: „Vel unnið verkefni sem styðst við áreiðanlegar heimildir. Flott að vekja athygli á þessu vandamáli því það er ekki oft í sviðsljósinu. Mikilvægt er að fræða samfélagið um þær slæmu afleiðingar sem sumar snyrtivörur hafa á umhverfið og vera meðvitaður um þá mengun sem hlýst af framleiðslu þeirra. Áhrif af snyrtivörum eru beintengd við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna og við erum sammála höfundum verkefnisins – margt smátt gerir eitt stórt!“
HÉR má sjá myndband sem fjallar um sigurverkefnin í ár og HÉR má kynna sér þessa árlegu samkeppni betur.
Til hamingju með frábær verkefni!
Ég vona að allir hafi notið þess að vera í páskafríi og komi endurnærðir til baka og tilbúnir í síðustu 25 daga annarinnar. Við hefjum hefðbundið staðnám á morgun, miðvikudaginn 7. apríl samkvæmt stundaskrá.
Stjórnvöld hafa gefið út leiðbeiningar um skólastarf og eru þær svipaðar og voru fyrr á önninni. Hámarksfjöldi í rými er 30 manns og grímuskylda í öllum skólanum og verður það svo út önnina.
Ég vona innilega að allir nemendur skili sér til baka og og nái sem bestum árangri á þessari sérstöku önn.
Kær kveðja,
Magnús Ingvason, skólameistari