Fyrstu vikurnar

Ný reglugerð um starfsemi framhaldsskóla kveður á að skólum er heimilt að hafa staðkennslu sambærilega og við vorum með í byrjun haustannar og gekk vel. Kennsla hefst því í skólanum samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 7. janúar.

Nemendur spritta sig þegar þeir mæta í skólann og fara í kennslustofur þar sem verður búið að raða upp borðum með eins metra millibili. Nemendur spritta borð sín þegar þeir mæta í tíma. Þá verður ströng grímuskylda í skólanum og engum sem telur sig finna fyrir einkennum Covid er heimilt að mæta í skólann. Við virðum fjarlægðarmörk og munum að „við erum öll saman í þessu.“ Vonandi verður svo hægt að aflétta ströngum sóttvörnum með vorinu þegar við höfum unnið bug á þessari veiru.

Mötuneyti skólans verður lokað fyrstu dagana og því hvetjum við nemendur til að koma með nesti fyrst um sinn. Nemendur eru einnig hvattir til að forðast hópamyndanir í skólanum hvort sem er á steypunni og eða á göngum og fara beint í næstu stofu eftir að kennslustund lýkur.

Brautskráning haustönn 2020

Langri og strangri önn, sem fór að mestu fram með fjarkennslu á netinu, lauk formlega í gær þegar 107 nemendur voru brautskráðir af 13 námsbrautum; 21 af heilbrigðissviði, 4 af nýsköpunar- og listabraut og 88 af stúdentsbrautum. 6 nemendur brautskráðust með viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu starfsnámi.

Þessa önn voru dúxar skólans tveir og deildu meðaleinkunninni 9,38 – Edda Sól Arthúrsdóttir sem útskrifaðist af félagsfræðibraut og Eyþór Guðjónsson af náttúrufræðibraut.

Þá ber að nefna Birtu Breiðdal, sem er fyrsti nemandinn í sögu skólans til að útskrifast með stúdentspróf sem var alfarið tekið í fjarnámi.

Brautskráning í dag

Í dag, 18. desember, fer fram brautskráning frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Athöfnin hefst kl. 13:00 en vegna sóttvarnareglna verða nemendur útskrifaðir í fjórum hópum.

 

 

Útskrifað verður í þessari röð:

Heilbrigðisskólinn

Nýsköpunar- og listabraut

Viðbótarnám til stúdentsprófs

Félagsfræðibraut

Íþrótta- og heilbrigðisbraut

Náttúrufræðibraut

Viðskipta- og hagfræðibraut

 

Því miður er nemendum ekki heimilt að taka með sér gesti vegna aðstæðna í samfélaginu, en athöfninni verður streymt HÉR svo enginn ástvinur þurfi að missa af þessum merku tímamótum. Eins fá nemendur í hendur ljósmyndir frá deginum.

Útskriftarnemar eru beðnir að lesa vel upplýsingabréf frá stjórnendum og gæta sóttvarna á allan hátt á meðan dagskráin stendur yfir. 

Jólakveðja!

Ágætu nemendur og forráðamenn.


Nú er stutt eftir af þessar skrýtnu og löngu önn og jólin nálgast. Ég heyri frá kennurum mínum að þeir eru alla jafna nokkuð ánægðir með árangur nemenda sinna, en óneitanlega hefur önnin reynst mörgum erfið. En nú er aðeins ein vika eftir og nauðsynlegt að gera eins vel og hægt er í þeirri viku.


Ég vona síðan innilega að komandi vorönn verði með eðlilegustum hætti og lífsglaðir, skemmtilegir og árangursdrifnir nemendur fylli hér stofur og ganga skólans. Þannig á skóli að sjálfsögðu að vera.
Nú er í gangi kennslukönnun á INNU sem ég hvet ykkur nemendur eindregið til að svara. Það er mikilvægt fyrir skólann að fá skoðanir nemenda á því sem spurt er um í könnuninni.


Starfsfólk skólans ákvað að skella í eina jólakveðju til ykkar allra. Vonandi hafið þið eins gaman af kveðjunni og starfsmennirnir höfðu gaman af gerð jólakveðjunnar. Jólapepp FÁ!

Kveðja,

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ

Erindi skólasálfræðings

Þetta eru krefjandi tímar og ljóst að margir okkar nemenda finna sárt fyrir stöðunni. Skólasálfræðingur FÁ, Andri Oddsson, býður upp á nemendaviðtöl í gegnum Teams og hvetjum við okkar fólk til að nýta sér þessa þjónustu. Hægt er að bóka viðtal með tölvupósti í netfangið salfraedingur@fa.is.

HÉR má svo hlýða á gagnlegt erindi Andra í tveimur hlutum - um andlega líðan á tímum Covid.

Rafrænt jólabingó!

Á morgun, 26. nóv. kl. 18:00 heldur nemendafélag FÁ rafrænt aðventubingó í gegnum Teams. Þátttaka er frí fyrir alla nemendur skólans og hægt að panta allt frá einu upp í fimm bingóspjöld á mann. 

 

HÉR skal skrá sig til þátttöku. Fullt af flottum og fjölbreyttum vinningu

 

HÉR er hlekkur á bingóið!

Fjarkennsla út önnina

Ágætu nemendur og forráðamenn,

 

Ekki er útlit fyrir að Covid-19 veirunni verði komið fyrir kattarnef alveg á næstunni, því miður. Enn eru smit að greinast, en þeim fer þó fækkandi. Nýjar sóttvarnareglur voru kynntar í dag og gilda þær til 2. desember. Samkvæmt þeim er heimilt að allt að 25 nemendur á framhaldsskólastigi megi vera í sama rými, en þeir mega ekki fara á milli kennslustofa. Í áfangaskóla eins og FÁ fara nemendur á milli stofa eftir hverja kennslustund, þannig að skólayfirvöld sjá ekki möguleika á að staðkennsla hefjist að nýju.


Það verður því fjarkennsla út önnina í dagskólanum. Einstaka hópar nemenda hafa fengið að koma inn í skólann undanfarnar vikur í sérstökum tilfellum og verður svo áfram. Þá munu allir nemendur á sérnámsbraut mæta í skólann frá og með miðvikudeginum 18. nóvember.Öll próf í lok annar, önnur en verkleg próf, verða rafræn.
Á næstunni verður skoðað hvernig útskrift frá skólanum verður háttað.


Svo vona ég að nemendur standi sig vel í náminu þessar örfáu vikur sem eftir eru. Lykillinn að góðum árangri er að skila öllum verkefnum sem á að skila, þar sem hvert verkefni telur í lokin.

Góða helgi
Magnús Ingvason,

Skólameistari FÁ

Skólapeysur

Fyrr í haust var blásið til hönnunarsamkeppni meðal nemenda FÁ um logo á nýjar skólapeysur. Fjölmargar og fjölbreyttar hugmyndir bárust og eftir æsispennandi kosningu á Instagram bar Sara Lind Styrmisdóttir sigur úr býtum.


Nú er hægt að panta sér þessa glænýju skólapeysu á frábæru verði, og bæði verður hægt að sækja peysur niður í skóla og fá heimsent (innan höfuðborgarsvæðis). Peysurnar koma í þremur litum, mörgum stærðum og bjóðast bæði sem hettupeysur og háskólapeysur.


Pantið peysur HÉR !

Hertar sóttvarnaraðgerðir

Ágætu nemendur og forráðamenn

Eins og flestum er eflaust kunnugt hafa hertar sóttvarnarreglur tekið gildi í samfélaginu.

Það liggur því fyrir að fjarkennsla verður í dagskóla næstu vikur, en við vonumst auðvitað eftir því að smitum fari að fækka og í framhaldinu verði slakað nægilega mikið á samkomuhöftum til að við getum opnað skólann aftur fyrir nemendum.

Á meðan við bíðum átekta biðjum við okkar nemendur að halda áfram að sinna náminu eins vel og þeir hafa verið að gera.

Flestir nemendur eru að mæta vel í Teams-tímana sem skiptir höfuðmáli til að ná góðum árangri í náminu. Nú styttist óðum í annarlok og því mikilvægt að skipuleggja sig vel, fylgjast með kennsluáætlun og passa upp á að verkefnum og öðru sé skilað á réttum tíma.

Ég vil minna nemendur á stoðþjónustu skólans og hvet þá sem eiga í einhverjum erfiðleikum með námið að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa skólans. Netföng þeirra eru á heimasíðu skólans.

Kveðja,

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ 

Áframhaldandi fjarkennsla og haustfrí

Ágætu nemendur og forráðamenn,


Nú er 5. vika fjarnáms senn á enda og framundan er vetrarfrí hjá nemendum. Föstudaginn 23. og mánudaginn 26. október er engin kennsla í skólanum. Ég hvet nemendur til þess að njóta frísins vel, hlaða batteríin (eins og stundum er sagt) og ekki sakar að huga eitthvað að verkefnum. Vinna upp ef eitthvað hefur setið á hakanum að undanförnu.


Sóttvarnayfirvöld hafa boðað hertar sóttvarnareglur og á meðan þær reglur eru í gildi verður fjarkennsla við skólann. Um leið og slakað verður á reglum um skólahald, verður okkar fyrsti kostur að hefja öflugt staðnám að nýju.


Það er ljóst að nemendum gengur misjafnlega að fóta sig í því breytta námsfyrirkomulagi sem fjarnámið felur í sér. Ég hvet nemendur sem eiga í einhverjum erfiðleikum á þessum tímum að nýta sér þá frábæru stoðþjónustu sem er að finna í skólanum. Netföng og símanúmer er að finna á heimasíðu skólans www.fa.is.


Okkur er mjög umhugað um að allir nemendur okkar nái sem bestum árangri á þessari skrýtnu önn. Þar sem um símat er að ræða í flestum áföngum er svo mikilvægt að reyna að skila öllum verkefnum, þar sem hvert verkefni telur í lokin.


Enn og aftur biðjum við nemendur og forráðamenn um að fylgjast vel með fréttum á heimasíðu og Fésbókarsíðu skólans en þar verða settar inn upplýsingar um leið og eitthvað skýrist.


Með góðri kveðju,

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ